Kom sterkari til vinnu
Kom sterkari til vinnu
"Ég kem sterkari til vinnu vegna þeirrar hjálpar sem ég hef fengið á vegum Starfsendurhæfingarsjóðs. Ég hefði lent í
dýpri holu eftir hálft til eitt ár ef ég hefði ekki fengið þessa hjálp.“ Segir ungur maður á Norðurlandi eftir að hafa
gengið í gegnum erfiða meðferð við krabbameini og fékk aðstoð hjá Elsu Sigmundsdóttur ráðgjafa stéttarfélaga á
Akureyri.
Hann kveðst jafnframt afar þakklátur fyrir þær upplýsingar sem hann fékk hjá ráðgjafanum um réttindi sín í
tengslum við veikindin. ,,Ég var eins og í móðu á meðan ég var í meðferð og meðtók ekki alveg þær
upplýsingar sem ég fékk hjá læknum. Kerfið gerir heldur ekki ráð fyrir því að þeir hafi tíma til þess að ganga
úr skugga um að sjúklingurinn hafi skilið allt rétt. Það var þess vegna gott að fá hjá ráðgjafanum allar upplýsingar
um þann rétt sem maður á í sambandi við fjarveru frá vinnu vegna veikinda.“
Það var í byrjun mars síðastliðins sem hann gat snúið aftur til vinnu og þá í hálft starf. ,,Elsa benti mér á
að ég þyrfti ekki að byrja í 100 prósenta starfi. Ég ákvað þess vegna að byrja í hálfu starfi í tvo
mánuði í stað þess að sitja heima mánuði lengur og gera ekkert. Að fara út og kíkja í vinnuna virkar í raun eins og
geðlyf. Maður grípur í eitthvað þótt maður sitji ekki í 10 klukkustundir og svitni yfir excel. Það er gott að sitja í
smástund, skilja eitthvað eftir sig og fara svo. Ég vil hvetja alla, ef aðstæður á vinnustað bjóða upp á það, að byrja ekki
alveg á fullu. Þá þarf heldur ekki að troða í mann pillum og niðurgreiða þær. Það er ódýrara fyrir
þjóðarbúið.“
Ungi maðurinn fer enn á fund Elsu, að því er hann greinir frá. ,,Ég hitti hana á þriggja vikna til mánaðarfresti. Það er
mjög gott og ég veit í rauninni ekki hvar ég væri án þess. Á þessum fundum er hægt að velta öllu upp og pæla í.
Þessi þjónusta Starfsendurhæfingarsjóðs er algjörlega frábær.“
Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni hér og viðtöl við fjölmarga
einstaklinga sem hafa notið þjónustu ráðgjafa á vegum Starfsendurhæfingarsjóðs er að finna hér og einnig undir kaflanum "Reynslusögur notenda" hér til vinstri á síðunni.