Samstarfsverkefni VIRK og endurhæfingardeildar á Laugarásvegi
Samstarfsverkefni VIRK og endurhæfingardeildar á Laugarásvegi
VIRK og endurhæfingardeild Landspítalans að Laugarásvegi eru um þessar mundir að fara af stað með samstarfsverkefni með það að
markmiði að byggja upp árangursríka starfsendurhæfingu fyrir ungt fólk með geðrofssjúkdóma á Íslandi. Í upphafi
verður sett upp tilraunaverkefni þar sem unnið verður eftir hugmyndafræði IPS (individual placement and support) með fimm ungum einstaklingum sem eru í
þjónustu á Laugarásveginum.
Ástæða þess að ákveðið var að fylgja hugmyndafræði IPS er sú að rannsóknir benda til þess að þetta sé
áhrifaríkasta leiðin við að aðstoða fólk með þungar geðgreiningar út á vinnumarkað. Rannsóknir sýna að
fólk með þungar geðgreiningar sé þrisvar sinnum líklegra til þess að verða virkt á almennum vinnumarkaði í hlutastarfi eða
fullu starfi ef farið er eftir hugmyndafræði IPS frekar en annarri hugmyndafræði.
Aðferðafræðin byggir á einstaklingsmiðuðum, miklum stuðningi við að komast í launaða vinnu og í kjölfarið tímabundnum
stuðningi á vinnustaðnum fyrir starfsmanninn og vinnuveitandann. IPS aðferðin er einstaklingsmiðuð og þar er unnið með styrkleika einstaklingsins og
því passar grunnmat ráðgjafa VIRK mjög vel inn í upphafi ferils. Í þessu líkani er lögð áhersla á að samtvinna
heilbrigðisþjónustu sem einstaklingar fá og stuðning við að fá og halda vinnu. Því er lögð mikil áhersla á
samstarf teymisins að Laugarásvegi og ráðgjafa VIRK í þessu verkefni.
Starfsmenn VIRK og Laugarásvegar hafa nú hist nokkrum sinnum og gert drög að verkefnaáætlun. Einnig hefur verkefnið verið kynnt fyrir TR enda
mikilvægt í einhverjum tilfellum að geta nýtt vinnusamninga í upphafi. Ráðgjafar VIRK eru byrjaðir að hitta þá einstaklinga sem
eru í tilraunaverkefninu og kortleggja með þeim styrkleika og áhuga í tengslum við vinnumarkaðinn.
Er það von þeirra sem að verkefninu koma að það skili góðum árangri og geti þannig orðið upphafið að frekari uppbyggingu
á árangursríkri starfsendurhæfingu fyrir einstaklinga með þungar geðraskanir á Íslandi.