Hvað hvetur til endurkomu til vinnu (ETV) eftir veikindi eða slys?
Hvað hvetur til endurkomu til vinnu (ETV) eftir veikindi eða slys?
Í rannsókn sem var gerð í Svíþjóð fyrir nokkrum árum (G. Gard og A.C. Sandberg 1998) var skoðað hvað hvetur
fólk til að fara aftur í vinnu eftir veikindi eða slys.
Þátttakendur voru einstaklingar sem tóku þátt í 12 vikna starfsendurhæfingu vegna stoðkerfisverkja. Endurhæfingin
samanstóð af þremur vinnudögum og tveimur endurhæfingardögum í hverri viku. Allir þátttakendur unnu á velferðarsviði eða
við þjónustu.
Tilgangurinn með rannsókninni var að kanna hvaða þættir hvetja eða letja fólk við endurkomu til vinnu. Skilyrði fyrir
þátttöku voru stoðkerfisverkir, (í mjóbaki, öxlum eða hálsi) að þeir hafi varað í að minnsta kosti eitt ár og
að veikindafjarvist frá vinnu væri að minnsta kosti fjórar vikur.
Fyrri rannsóknir hafa sýnt að verkir hafa neikvæð áhrif á áhuga fólks á að fara aftur í vinnu, en að
áhugi til vinnuþátttöku eykst þegar fólk hefur lært að lifa með verkjunum. Þess vegna var lögð áhersla á
að minnka verki, með sjúkraþjálfun og sálfræðiaðstoð og að finna leiðir í vinnuumhverfi og - verkefnum til að minnka
áhrif vinnunnar á verki og áhrif verkja á vinnuna. Þátttakendum var einnig kennt að hugsa betur um sjálfa sig, auka líkamlega getu og
styrk og þeir lærðu nýjar aðferðir við að beita sér í vinnunni.
Þættir sem þátttakendur töldu hafa jákvæð áhrif á endurkomu til vinnu voru eftirfarandi:
1) Samskipti við vinnufélagana höfðu mest áhrif á áhugann á að fara aftur í vinnu.
2) Að vinna þeirra skilaði árangri og skipti aðra máli.
3) Að geta unnið til jafns við vinnufélagana.
4) Samskipti við yfirmenn og áhrif á verkefni.
5) Ánægja með starfsumhverfið og tilfinning fyrir að tilheyra hópnum.
6) Vera metinn að verðleikum.
7) Stuðningur utan vinnu.
8) Ef þátttakendur gátu haft stjórn á
verkjunum.
9) Hrós og jákvæð endurgjöf.
Þættir sem þátttakendur töldu hindra eða letja við að fara aftur í vinnu.
1) Erfið eða lítil samskipti við
yfirmann
2) Skortur á stuðningi yfirmanns við að koma aftur í vinnu
3) Líkamlegir verkir ef þeir höfðu áhrif á getu þeirra í vinnunni.
Niðurstaða:
Verkir hindra fólk við endurkomu til vinnu, en ef rétti hvatinn er til staðar getur fólk farið aftur í vinnu
þrátt fyrir verkina. Vinnan getur þá orðið hluti af bata- eða endurhæfingarferlinu þar sem fólk lærir að hafa stjórn á
verkjunum, nær aftur fyrri virkni og betri heilsu þegar frá líður.
Talið er að það taki um mánuð að temja sér nýjar venjur og að þeim tíma liðnum sé erfitt og tímafrekt að temja
sér enn aðrar venjur. Þegar fólk hefur verið frá vinnu í mánuð, verður það að vinna ekki að venju og endurkoma til vinnu
verður erfiðari.
Þessi rannsókn styður við niðurstöður annarra rannsókna sem benda til áhrifa vinnunnar, nánustu yfirmanna og vinnufélaga á
áhuga einstaklingsins um endurkomu til vinnu eftir veikindi eða slys.