Hægt er að stuðla að betri heilsu með því að auka ómarkvissar hreyfingar
Hægt er að stuðla að betri heilsu með því að auka ómarkvissar hreyfingar
Niðurstöður nýlegrar rannsóknar þar sem sérstakt tölvuprógramm var notað til að fá starfsfólk til að standa upp með reglulegu millibili yfir daginn, sýndu jákvæð áhrif á hegðun og hreyfingu þessara einstaklinga (Cooley, Pedersen & Mainsbridge 2014).
Þátttakendur (N = 46) tóku þátt í rannsókn sem fór fram á vinnustaðnum en þeir voru starfsmenn lögreglunnar í Tasmaníu, eitt af fylkjum Ástralíu. Kannað var mat þátttakenda á áhrifum sérstakrar heilsueflingar á vinnustaðnum sem var ætlað að draga úr langvarandi setu við vinnu. Rannsóknir hafa sýnt að markviss hreyfing (þ.e. skipulögð hreyfing) hefur hverfandi hlutverk í að auka orkunotkun hjá einstaklingum þar sem ekki nógu margir taka markvisst þátt í slíkum æfingum. Því hefur verið lagt til að nýta sér „ómarkvissar“ hreyfingar eða það sem kallað er „non-exercise activity thermogenesis“ (NEAT) sem leið til að auka orkunotkun hjá einstaklingum almennt. Allt annað en að sofa, borða eða það að framkvæma markvissar hreyfingar er atferli sem leiðir af sér orkubrennslu og flokkast undir „NEAT“. Þessar „ómarkvissu“ hreyfingar eru til dæmis að ganga um skrifstofuna í vinnunni, fara stigann til að komast á fund eða gera húsverkin. Rannsóknir hafa sýnt að það að auka „NEAT“ stuðlar að betri heilsu. Rannsakendur lögðu því til að hugsanleg leið til að takast á við þau neikvæðu áhrif langvarandi setu á heilsuna væri að hvetja starfsmenn sem sitja mikið við vinnu sína til að taka þátt í aukinni „ómarkvissri“ hreyfingu yfir daginn á meðan þeir voru í vinnunni.
Í rannsókninni var notuð sérstök heilsuíhlutun sem átti sér stað í gegnum internetið og birtist á skjám skrifborðstölvu þátttakenda. Íhlutuninni var ætlað að draga úr langvarandi setu starfsmanna með því að leggja til að þeir framkvæmdu, með reglulegu millibili yfir daginn, „ómarkvissar“ hreyfingar. Það sem var sérstakt við þetta tölvuprógramm var að notast var við svokallaða „óbeina nálgun“ sem þýddi að þátttakendur gátu ekki farið út úr tölvuprógramminu eða hunsað tilskipunina þegar hún hafði birst á skjánum. Ef notast hefði verið við svokallaða „beina nálgun“ þá hefðu þátttakendurnir getað hætt við eða hunsað tilskipunina og því ekki tekið þátt í þeirri ákvörðun að breyta hegðun sinni og minnka þannig langtímasetu yfir daginn.
Tölvuprógrammið virkaði þannig að á 45 mínútna fresti var slökkt á tölvuskjá þátttakenda og í staðinn birtust skilaboð þar sem þeir voru hvattir til að standa upp. Þátttakendur gátu síðan valið hvaða „ómarkvissu“ hreyfingu þeir vildu gera á þessum stutta tíma sem skjárinn var óvirkur. Þátttakendur gátu skoðað 15 sekúndna myndbönd með leiðbeiningum fyrir 60 tegundir af „ómarkvissum“ hreyfingum sem þeir gátu valið á milli. Áður en þeir gátu farið aftur að vinna á tölvunni þurftu þeir að skrá inn í sérstakt textabox hvers konar hreyfingu þeir höfðu framkvæmt. Tölvuprógrammið geymdi upplýsingar um framkvæmdar hreyfingar, tíðni hreyfinga, orkunotkun (í kaloríum) og þann tíma (í sekúndum) sem einstaklingurinn var á hreyfingu. Þátttakendur gátu síðan fylgst með, sem eins konar persónulega endurgjöf, hvernig þeim var að ganga á hverjum degi, yfir vikuna eða mánuðinn.
Rannsóknin stóð yfir í 13 vikur og til að meta áhrif þessarar heilsueflingar á vinnustaðnum þá var gögnum safnað í gegnum hálfstöðluð viðtöl sem fóru fram eftir að rannsóknartímanum lauk. Allir þátttakendurnir sögðu að þátttaka þeirra hefði verði þeim gagnleg. Nánast allir þátttakendurnir sögðust ekki reglulega taka þátt í markvissri hreyfingu en þátttaka þeirra í rannsókninni gaf þeim tækifæri til að taka þátt í nýrri heilbrigðri hegðun. Niðurstöður sýndu einnig að þátttakendur litu hreyfingu öðrum augum eftir þátttöku í heilsueflingunni en áður, auk þess sem hugmyndir þeirra um það hvað gátu talist áhrifaríkar æfingar höfðu breyst. Þátttaka jók einnig meðvitund um setvenjur þátttakenda og hvernig þessi þekking gerði það að verkum að þeir breyttu hegðun sinni. Nokkrir gáfu þó til kynna að þátttaka í rannsókninnihefði ollið þeim gremju og erfiðleikum þegar þeir þurftu að aðlaga sig að nýrri hegðun í starfinu. Margir gerðu hinsvegar breytingar á vinnuhegðun sinni til að geta tekið upp betri vinnuhætti (þ.e. að draga úr langtímasetu). Sumum fannst erfitt að aðlaga sig þessari nýju hegðun, en töldu það léttvægara eftir ákveðinn tíma.
(Cooley D, Pedersen S and Mainsbridge C. (2014) Assessment of the Impact of a Workplace Intervention to Reduce Prolonged Occupational Sitting Time. Qualitative Health Research, 24:90-101)
Til að fá frekari upplýsingar um þessa rannsókn þá má skoða hana í fullri lengd hér http://qhr.sagepub.com/content/24/1/90.long