Fara í efni

Hægir á fjölgun örorkulífeyrisþega

Til baka

Hægir á fjölgun örorkulífeyrisþega

Í frétt á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins (http://www.sa.is/) í síðustu viku er greint frá því að verulega hafi hægt á fjölgun örorkulífeyrisþega á þessu ári miðað við síðasta ár.  Fjöldi örorkulífeyrisþega var 15.677 í ársbyrjun og 15.842 þann 1. júlí síðastliðinn þannig að fjölgunin á árinu nemur 165 einstaklingum fyrri hluta ársins.  Á árunum 2004-2009 fjölgaði örorkulífeyrisþegum um 500-1300 árlega og því er hér um að ræða mikla breytingu.

Sama má segja um nýgengi örorku, mun færri fengu úrskurð um 75% örorku á fyrri hluta þessa árs en á sama tímabili í fyrra.  Sjá nánar á heimasíðu SA:  http://www.sa.is/

Þetta eru athyglisverðar tölur sérstaklega í ljósi þess að við búum nú við mikið langtímaatvinnuleysi og sýnt hefur verið fram á að þær aðstæður hafi í för með sér mikla aukningu í nýgengi örorku.  Það hefur hins vegar ekki gerst á þessu tímabili.  Ástæður þessa hafa ekki verið að fullu kannaðar og eru eflaust margvíslegar en Samtök atvinnulífsins benda m.a. á að þjónusta Starfsendurhæfingarsjóðs kunni þarna að hafa haft einhver áhrif.

Á annað þúsund einstaklinga hafa á undanförnu ári fengið ráðgjöf og aðstoð frá ráðgjöfum Starfsendurhæfingarsjóðs og við sjáum nú þegar mörg dæmi þess að þjónusta okkar auki vinnufærni og atvinnuþátttöku einstaklinga og komi þannig í veg fyrir að þeir fari á örorkulífeyri.  Ráðgjafar á vegum Starfsendurhæfingarsjóðs hafa einnig haft umsjón með um 150 endurhæfingaráætlunum fyrir Tryggingastofnun ríkisins undanfarna mánuði og miðast þær áætlanir við að auka vinnugetu viðkomandi einstaklinga og tryggja þeim þjónustu við hæfi í samstarfi við lækna og viðeigandi fagaðila.  Þessi þjónusta er tímafrek en hún er að sama skapi ákaflega mikilvæg bæði fyrir viðkomandi einstaklinga og samfélagið í heild sinni.  Það skiptir gríðarlega miklu máli að einstaklingar sem lenda í veikindum, slysum og öðrum áföllum í lífi sínu fái þjónustu við hæfi og aðstoð við að viðhalda og efla getu sína til þátttöku í samfélaginu.  


Fréttir

05.11.2024
18.10.2024

Hafa samband