Fara í efni

Gengið þvert á samkomulag um VIRK

Til baka
Hannes G. Sigurðsson
Hannes G. Sigurðsson

Gengið þvert á samkomulag um VIRK

Stjórnvöld ganga þvert á gerða samninga með því að greiða ekki mótframlag sitt til VIRK sagði Hannes G. Sigurðsson, stjórnarformaður VIRK í hádegisfréttum RÚV miðvikudaginn 16. september.

Árið 2012 var bundið í lög að stjórnvöld greiddu þriðjungs framlag í VIRK Starfsendurhæfingarsjóð á móti lífeyrissjóðunum og aðilum vinnumarkaðarins. Í tengslum við fjárlagagerð í fyrra var hins vegar gert óformlegt samkomulag um að fresta framlagi ríkisins um eitt ár gegn því að það kæmi inn árið 2015. Samkvæmt fjárlögum sem nýlega voru kynnt ætlar ríkið hins vegar ekki að greiða þetta framlag, sem átti að nema rúmum 1300 milljónum króna.

Hannes segir greinilegt að skammtímasjónarmið ráði för. „Það sem virðist standa í mönnum er að á þessu tímabili, þessum fimm árum sem Virk hefur starfað, hefur myndast ákveðinn varasjóður, þannig að greiðslurnar komu fyrst og svo var starfsemin aukin jafnt og þétt. Og mönnum virðist vera mikið í nöp við þennan varasjóð sem stendur í einhverjum tveimur milljörðum króna núna“.

Varasjóðurinn sé nauðsynlegur til þess að bregðast við óvæntum aðstæðum sem kunni að koma upp. Því sé þetta mjög misráðið hjá stjórnvöldum. „Þeim er heimilt að breyta lögum. En það er ljóst að þarna er verið að ganga þvert á samkomulag sem hefur verið gert, og samninga á fyrri árum“ sagði Hannes. Hann benti á að sparnaður sé fólginn í því að koma fólki aftur út á vinnumarkað. „Og er í raun mjög mikið hagsmunamál fyrir ríkissjóð að koma á kerfi sem stuðlar að því að fólk verði virkt á vinnumarkaði í stað þess að það verði lífeyrisþegar."

Sjá fréttina á RÚV hér.

Sjá umfjöllun Fréttablaðsins hér.


Fréttir

18.10.2024
05.11.2024

Hafa samband