Fjölsótt og fróðleg ráðstefna
Fjölsótt og fróðleg ráðstefna
Árangursrík starfsendurhæfing samhliða markvissu matsferli var umfjöllunarefni fjölsóttrar ráðstefnu sem VIRK stóð fyrir í Silfurbergi í Hörpu fimmtudaginn 21. maí en fagleg þróun hjá VIRK hefur frá upphafi miðað markvisst að því að byggja upp starfsendurhæfingarferil samtvinnaðan við matsferil, þar sem markvisst er horft til styrkleika einstaklingsins en unnið samhliða með þær hindranir sem valda því að viðkomandi getur ekki unnið.
Vigdís Jónsdóttir framkvæmdastjóri VIRK setti ráðstefnuna og kjölfarið hélt annar tveggja erlendra frummælenda Gert Lindenger forseti EUMASS – Evrópusamtaka tryggingalækna erindi um þróunina í Evrópu og mismunandi aðferðir í starfsgetumati. Ása Dóra Konráðsdóttir sviðsstjóri starfsendurhæfingarsviðs VIRK fjallaði um árangur VIRK og hvernig hægt sé að gera enn betur og Sólveig Ása Árnadóttir dósent við HÍ greindi frá ICF rannsóknum og framþróun en ICF stendur fyrir International Classification of Function - alþjóðlegt flokkunarkerfi um færni, fötlun og heilsu sem gefið er út af Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni WHO. Þá ræddi Annette de Wind tryggingalæknir hjá Atvinnutryggingastofnun Hollands nýjar aðferðir í starfsgetumati í Hollandi og hvernig ICF er nýtt í þeirri vinnu, Sveina Berglind Jónsdóttir deildarstjóri mats og eftirlits hjá VIRK fór yfir framkvæmd starfsgetumats VIRK og Inga Jónsdóttir sviðsstjóri iðjuþjálfunar á Reykjalundi fjallaði um þróunarverkefni VIRK og Reykjalundar sem nýtir ICF við mat á færni við vinnu og starfsendurhæfingu.
Magnús Ólason framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi stýrði ráðstefnunni og hélt utan um fyrirspurnir til frummælenda og umræðurnar í lokin.
Nánari upplýsingar um um sex ára þróun starfsgetumats hjá VIRK má sjá hér.