Fjöldi greina og viðtala í Ársriti um starfsendurhæfingu
Fjöldi greina og viðtala í Ársriti um starfsendurhæfingu
Atvinnuþátttaka eykur lífsgæði, er fyrirsögn í einu þeirra viðtala sem birt eru í Ársriti um starfsendurhæfingu 2012 og gefið var út í tengslum við ársfund VIRK nú á vordögum. Í viðtalinu segir Sigrún Sigurðardóttir ráðgjafi VIRK í starfsendurhæfingu, sem starfar fyrir Rafiðnaðarsambandið og fleiri stéttarfélög, meðal annars: „Mér finnst afar mikilvægt að fólk komist aftur til vinnu þótt það sé einungis í hlutastarfi til að byrja með. Þó að fólk geti ekki sinnt sínu gamla starfi er það ekki endilega óvinnufært.“ Síðan ræðir hún um starfsprófanir og segir:„Einn af mínum félagsmönnum var að kljást við afleiðingar af alvarlegu slysi og var ekki fær um að fara í sitt fyrra starf. Hann fór þessa leið og fékk í kjölfarið ráðningu.“
Í ritinu er enn fremur fjöldi áhugaverðra greina auk ýmiss konar fróðleiks sem tengist starfsendurhæfingu og endurkomu til vinnu eftir veikindi og slys. Meðal annars er sagt frá átta atvinnutengdum þróunarverkefnum sem fyrirtæki og stofnanir víðs vegar um landið vinna að í samstarfi við VIRK með það að markmiði að styrkja fólk til atvinnuþátttöku. Sigrún Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur greinir einnig ítarlegar frá einu þessara verkefna sem nefnist Gæfusporin.
Fjallað um vinnustaðinn og stjórnun
Nokkrar greinanna fjalla um vinnustaðinn og stjórnun í tengslum við forvarnir, veikindi og endurkomu til vinnu. Rannsóknir hafa sýnt fram á hversu miklu máli skiptir að viðhafa góða stjórnun og ekki síst með þessa þrjá þætti í huga. Svava Jónsdóttir sviðsstjóri fyrirtækjasviðs VIRK fjallar í grein sinni Frísk fyrirtæki – Virkir vinnustaðir um niðurstöður fjögurra sænskra rannsókna um hvað er sameiginlegt með fyrirtækjum með fáar langtíma veikindafjarvistir.
- Fyrst og fremst skiptir gott skipulag og góð stjórnun máli, þar sem leiðtogafærni stjórnenda og þátttaka starfsmanna eru höfð að leiðarljósi.
- Í öðru lagi er leitast við að styðja og styrkja starfsmanninn miðað við færni, getu og kröfur vinnustaðarins.
- Í þriðja lagi að hafa skýra stefnu og framtíðarsýn.
- Í fjórða lagi eru góð samskipti og upplýsingamiðlun mikilvæg.
- Að síðustu má nefna viðhorf starfsmanna og stjórnenda til heilsu og veikindafjarvista.
Andleg veikindi, bótakerfið og læknisvottorð
Nefna má grein Hildar Friðriksdóttur sérfræðings hjá VIRK sem fjallar um andleg veikindi og vinnustaðinn út frá algengi, kostnaði, forvörnum og til hvaða ráða hægt er að grípa innan vinnustaðanna. Þar segir meðal annars: „Samstarfsfólk áttar sig oft ekki á að félagi þeirra er kvíðinn eða þunglyndur og telur jafnvel að hegðun og framkoma séu hluti af persónueinkennum viðkomandi. Það á sérstaklega við um neikvæðni í samskiptum og áhugaleysi. Því er mikilvægt að vinnufélagar dragi alls ekki úr samskiptum heldur sýni stuðning, þolinmæði og samhygð.“
Í ritinu er fjallað um lýsingu Ágústar Óskarssonar ráðgjafa VIRK á því hvernig bótakerfið getur reynst letjandi
fyrir fólk til að snúa til baka til vinnu. Rætt er við Kari-Pekka Martimo, finnskan lækni og sérfræðing í heilsuvernd starfsmanna, sem segir
að læknisvottorð geti verið hvetjandi eða letjandi til vinnu og að læknar hindri stundum endurkomu til vinnu vegna misskilnings. „Oftast er vinnan, með
viðeigandi aðlögun, betri kostur en fjarvistin,“ segir hann.
Hér eru aðeins nefnd fáein atriði og geta þeir sem vilja nálgast eintak af ársritinu á skrifstofu VIRK eða sent póst á virk@virk.is og fengið það sent. Rafræna útgáfu af ársritinu er einnig að finna hér: Ársrit VIRK 2012