Þverfagleg sýn mikilvæg
Þverfagleg sýn mikilvæg
Fleiri einstaklingar með fjölþættan vanda leita nú til ráðgjafa VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs og mikil þörf er fyrir markvissa þjónustu á sviði starfsendurhæfingar í íslensku samfélagi. Mikil og hröð aukning á eftirspurn þjónustu hefur kallað á aðlögun verklags og nánari útfærslu á faglegum áherslum hjá VIRK. Jafnframt hefur mikil vinna verið lögð í að setja niður skýra vinnuferla og verklag þannig að samhæfing sé tryggð og aukin áhersla hefur verið lögð á þverfaglega fjölbreytts hóps fagaðila aðkomu að málum á öllum stigum þjónustuferilsins.
Flestir sem veikjast eða slasast snúa farsællega aftur til vinnu eftir að hafa notið hefðbundinnar meðferðar innan heilbrigðiskerfisins og nauðsynlegs sveigjanleika á vinnustað. Rannsóknir sýna að 95% þeirra sem eru fjarverandi vegna veikinda snúa aftur til vinnu innan 20 daga. Einfaldar ráðleggingar og áhersla á að halda góðu sambandi við vinnustað eru mikilvægust fyrstu 4-6 vikurnar. Vari fjarvera frá vinnu lengur en 4–6 vikur þarf markvissa starfsendurhæfingu enda sýna rannsóknir og reynsla, bæði hérlendis og erlendis, að þverfagleg aðkoma 3-6 mánuðum eftir að einstaklingur hættir að vinna vegna veikinda er vænlegasta leiðin til þess að koma sem flestum aftur til vinnu. Öll íhlutun þarf að vera vel ígrunduð og faglega undirbyggð þannig að hver einstaklingur fái þá þjónustu sem hann þarf.
Mikil þróun hefur orðið hjá VIRK í kjölfar aukinnar reynslu og unnið hefur verið að því að skýra og skilgreina enn betur starfssvið og snertifleti starfsendurhæfingarsjóðsins við aðrar stofnanir velferðarkerfisins. Á sama tíma hefur farið fram mikil uppbygging á faglegu starfi VIRK sem tekur mið af rannsóknum og reynslu í starfsendurhæfingu, bæði hérlendis og erlendis.
Áhugahvetjandi samtalstækni
Rannsóknir hafa sýnt að Áhugahvetjandi samtalstækni (e. Motivational Interviewing) er árangursrík þegar kemur að því að efla áhugahvöt einstaklinga. Um er að ræða aðferðafræði þar sem einstaklingurinn er hvattur markvisst áfram þannig að hann taki virkan þátt í starfsendurhæfingunni og taki ábyrgð á sínum málum. Frá haustinu 2012 hafa allir ráðgjafar í starfsendurhæfingu fengið kennslu í Áhugahvetjandi samtalstækni og lögð hefur verið áhersla á að þeir tileinki sér hana í starfi sínu.
Þverfagleg nálgun á öllum stigum
Þverfaglegur stuðningur við vinnu ráðgjafa hefur verið stóraukinn hjá VIRK. Ráðgjafar rýna nú öll ný mál innan mánaðar ásamt teymi reyndra sérfræðinga í starfsendurhæfingu, fara yfir þau gögn einstaklings sem hafa borist og setja niður markmið og ráðleggingar um næstu skref í starfsendurhæfingu. Þannig er hægt að tryggja markvissa og góða þjónustu og setja upp áætlun fyrir hvern einstakling.
Starfsendurhæfing einstaklinga með langvinn geðræn vandamál
Ábendingar komu fram um að þörf væri á að þróa og aðlaga þjónustu VIRK enn betur að einstaklingum sem eiga við langvinn geðræn vandamál að stríða. Með góðri samvinnu fjölda fagfólks á þessu sviði hefur átt sér stað mjög jákvæð þróun með því markmiði að ná enn betri árangri í starfsendurhæfingu fyrir þennan hóp.
Þverfaglegt teymi sérfræðinga með sérþekkingu á geðrænum veikindum starfar á vegum VIRK. Teymið er skipað geðlæknum, sálfræðingum og iðjuþjálfum en aðrir fagaðilar eru kallaðir inn eftir þörfum. Hlutverk teymisins er að aðstoða ráðgjafa við að setja upp skýr markmið í starfsendurhæfingu og aðstoða við næstu skref.
Ráðgjafi á vegum VIRK er nú með viðveru á Hvítabandinu einu sinni í viku til að tryggja samfelldari þjónustu við einstaklinga sem er beint til VIRK frá geðdeild LSH. Þá eiga sér stað mánaðarlegir fundir milli VIRK og geðdeildar LSH og VIRK og endurhæfingardeild LSH að Laugarásvegi hafa staðið fyrir tilraunaverkefni með því markmiði að byggja upp árangursríka starfsendurhæfingu fyrir ungt fólk með geðrofssjúkdóma.
Sjá nánar í grein Ásu Dóru Konráðsdóttur sviðsstjóra starfsendurhæfingar í ársriti VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs 2014.