Fara í efni

Erlendir fagaðilar líta til VIRK

Til baka

Erlendir fagaðilar líta til VIRK

Samstarf og samskipti við erlenda aðila gegna mikilvægu hlutverki í faglegu starfi og uppbyggingu VIRK sem hefur leitað í smiðju fremstu sérfræðinga í heiminum hvað varðar faglegar áherslur og árangursríka nálgun í starfsendurhæfingu. Árangur og uppbygging VIRK hefur vakið athygli erlendis og töluverð eftirspurn er eftir fyrirlesurum frá VIRK á erlendar ráðstefnur og þing.

Árangur og samstarf vekja athygli
Árangur VIRK í starfsendurhæfingu, m.a. sú staðreynd að um 74% einstaklinga sem útskrifast frá VIRK séu virkir á vinnumarkaði við útskrift –  eru annað hvort í launuðu starfi, atvinnuleit eða í lánshæfu námi við útskrift – vekur mikla athygli erlendra aðila sem og samstarfið sem VIRK grundvallast á; við aðila vinnumarkaðarins, lífeyrissjóði og fjölbreyttan hóp fagaðila innan velferðarkerfisins.  

Vigdís Jónsdóttir framkvæmdastjóri hefur farið víða og kynnt árangur VIRK og uppbyggingu starfsendurhæfingarsjóðsins. Nýverið hélt hún fyrirlestur á heimsþingi um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum í Frankfurt sem ISSA – International social security association – stóð fyrir auk þess að taka þátt panelumræðum með kollegum sínum á Norðurlöndunum á alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin var af AUVA – Atvinnuleysissjóði Austurríkis – í Vín í sumar.
 
Eftirsóttur samstarfsaðili
Matsferillinn er einn sá faglegi þáttur starfsemi VIRK sem erlendir aðila horfa mikið til. Hugmyndafræðin sem ferlið byggir á, hvernig starfsendurhæfingarferill er tengdur markvisst inn í matsferil sem endar með starfsgetumati sem og notkun á ICF kerfinu (International Classification of Function - alþjóðlegt flokkunarkerfi um færni, fötlun og heilsu gefnu út af  Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni WHO), tenging mælitækja við færnikóða innan ICF og notkun skýrivísa vekur mikla athygli erlendra fagaðila.

Ása Dóra Konráðsdóttir sviðsstjóri starfsendurhæfingarsviðs VIRK hefur haldið fyrirlestra um þróun matsins og hugmyndafræði þess á fjölda alþjóðlegra ráðstefna og mun kynna það á alþjóðlegri ráðstefnu tryggingalækna í Stokkhólmi á næstunni og á alþjóðlegri ráðstefnu í Hollandi (DICIM 2014) í nóvember.

VIRK fyrirmynd
Beiðnir um samstarf vegna matsferils og þróun hans hafa borist frá fjölda landa og má þar nefna Noreg, Svíþjóð, Holland, Danmörk. VIRK hefur m.a. átt í góðu samstarfi við Miðstöð starfsendurhæfingar í Noregi sem sett hefur sér það markmiðið að innleiða notkun matsferilsins innan starfsendurhæfingar í Noregi með þeirri hugmyndafræði sem hefur verið sett upp af VIRK. Þá munu fulltrúar VIRK funda með haustinu með fulltrúum Tryggingastofnunar Svíþjóðar og Tryggingastofnunar Hollands til að skoða nánar möguleika á samstarfi vegna áframhaldandi þróunar á matinu.  

VIRK hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á samstarf og samskipti við erlenda aðila hvað varðar faglegar áherslur og árangursríka nálgun í starfsendurhæfingu, miðlað upplýsingum um starfsendurhæfingu á Íslandi og leitað samstarfs við þær þjóðir sem eiga mest sameiginlegt með okkur. Samstarf af þessum toga er VIRK mjög mikilvægt til að öðlast meiri og fjölbreyttari reynslu og þar með fleiri tækifæri til þess að gera þjónustu á sviði starfsendurhæfingar enn markvissari og árangursríkari. Þessi mikla vinna hefur ekki aðeins eflt VIRK faglega heldur gert það að verkum að æ fleiri erlendir fagaðilar i starfsendurhæfingu horfa til VIRK sem fyrirmyndar á þessu sviði.

Nokkrir fróðlegir tenglar:
XX World Congress on Safety and Health at Work 2014
Europeanforum
EOMASS Congress 2014


Fréttir

18.10.2024
19.12.2024

Hafa samband