Fara í efni

Er þinn vinnustaður klár í kombakk?

Til baka

Er þinn vinnustaður klár í kombakk?

VIRK stendur fyrir vitundarvakningu með það að markmiði að hvetja okkur sem samfélag til að taka vel á móti þeim sem eru að koma inn á vinnumarkaðinn eftir veikindi eða slys og einnig fjölga fyrirtækjum og stofnunum í samstarfi við Atvinnutengingu VIRK. 

Vitundarvakningin hverfist um hugtakið „Kombakk“. Hjartað í herferðinni er Lára Jóhanna Jónsdóttir leikkona og hljómsveitin Retro Stefson, sem hefur gert sína útgáfu af sígildum danssmelli, Back to Life með Soul II Soul í tilefni af Kombakk-herferðinni. Auglýsingar herferðarinnar vísa á lendingarsíðuna kombakk.is. Auglýsingarnar má finna á Youtube

Það græða öll á góðu kombakki​

Atvinnutenging VIRK vinnur náið með hluta af þeim þjónustuþegum VIRK sem eru að ljúka starfsendurhæfingu, en þurfa aukinn stuðning við að stíga næsta skref: að finna starf sem hentar getu þeirra, reynslu og áhuga. Atvinnutengingin er því eins konar brú á milli endurhæfingar og atvinnulífs. Í gegnum þetta samstarf er ekki einungis verið að útvega einstaklingum störf og auðvelda þeim endurkomu inn á vinnumarkaðinn heldur einnig að efla samfélagið með því að auka atvinnuþátttöku.

Gott samstarf við fyrirtæki er grundvöllur farsællar atvinnutengingar og atvinnulífstenglar VIRK gegna lykilhlutverki í því. Atvinnulífstenglarnir vinna með einstaklingum sem eru að ljúka starfsendurhæfingu og tengja þá við fyrirtæki eða stofnanir út frá þörfum beggja og aðstoða einstaklinginn, en ekki síður vinnustaðinn, við aðlögun og endurkomu til vinnu.

Ávinningur fyrirtækja er verðmætur starfsmaður, einfalt ráðningarferli, ráðning byggð á góðum upplýsingum, fræðsla og stuðningur við ráðningu og þjálfun auk þess að styrkja jákvæða ímynd fyrirtækisins. Ávinningur fyrirtækja liggur einnig í aukinni þekkingu á leiðum til að styðja fólk til starfa á ný eftir veikindi eða slys.

Við eigum öll skilið gott kombakk​

Ávinningur samfélagsins alls felst í því að með því að gera sem flestum kleift að vera virkir á vinnumarkaði eins og þau hafa getu til, eflum við atvinnuþátttöku og stuðlum að heilbrigðu samfélagi.

Þinn vinnustaður getur verið vettvangur fyrir glæsilega endurkomu. ​Með samstarfi við Atvinnutengingu VIRK hjálpa fyrirtæki og stofnanir fólki að snúa aftur til vinnu og gefa þeim færi á kombakki.

Fyrirtæki og stofnanir geta skráð sig/sent inn fyrirspurn eða haft samband við atvinnulífstengla VIRK og fengið nánari upplýsingar.

Sjá nánar um Atvinnutengingu VIRK.


Fréttir

05.11.2024
18.10.2024

Hafa samband