Fara í efni

Aftur á vinnumarkað eftir starfsendurhæfingu

Til baka

Aftur á vinnumarkað eftir starfsendurhæfingu

Virk hefur hrundið af stað tveggja ára þróunarverkefni sem ætlað er að auðvelda einstaklingum í endurhæfingu að komast aftur út á vinnumarkaðinn. VR blaðið ræddi um verkefnið við Þorstein Sveinsson ráðgjafa hjá Virk.

Hvert er markmiðið með verkefninu?
„Markmiðið er að aðstoða einstaklinga, sem eru í starfsendurhæfingu hjá VIRK, að komast aftur út á vinnumarkaðinn. Tilgangur þróunarverkefnisins er að veita stjórnendum og starfsmönnum stuðning og fræðslu við að móta og innleiða ákveðna verkferla sem auðvelda starfsmönnum endurkomu til vinnu eftir langtíma veikindi eða slys. Það á bæði við um þá sem eru að snúa aftur á fyrri vinnustað eða á nýjan starfsvettvang. Verkferlar taka mið af þörfum hverrar starfsemi fyrir sig en um er að ræða alhliða nálgun sem aðstoðar bæði vinnustaðinn og einstaklinginn að aðlaga sig.“

Hvernig er einstaklingum í starfsendurhæfingu boðið að vera með?
„Ráðgjafar, einstaklingar í starfsendurhæfingu og þeir sem koma að starfsendurhæfingarferlinu, leggja mat á hvort tímabært sé að hefja þátttöku í verkefninu. Einstaklingur fyllir út eyðublað um starfsferil og er með ferilskrá tilbúna. Hann hittir svo atvinnuráðgjafa sem leitar markvisst að tækifærum á vinnumarkaði sem falla bæði að þekkingu og reynslu hans og fyrirtækisins. Virkniáætlun er unnin með einstaklingi og í samvinnu við fyrirtæki og ráðgjafa í starfsendurhæfingu. Fyrstu 4–6 vikur í starfi hjá vinnuveitanda telst vinnuframlag einstaklings hluti af þessu starfsendurhæfingarúrræði á vegum VIRK sem er hluti af einstaklingsmiðaðri starfsendurhæfingaráætlun. Á þeim tíma skal markvisst unnið samkvæmt þeirri áætlun og í samræmi við ákvæði samstarfssamningsins um aðlögun einstaklingsins að vinnuumhverfi. Gangi starfsendurhæfing og aðlögun vel inn í starf þá gengur einstaklingur inn í starfið sem almennur launamaður.“

Mikilvægi vinnunnar í starfsendurhæfingu?
„Það er mikilvægt að einstaklingar, sem eru í starfsendurhæfingu og eru að ljúka henni, eigi greiða leið aftur í vinnu. Hér getur sveigjanleiki og stuðningur í vinnu skipt öllu máli. Rannsóknir sýna að því fyrr sem einstaklingar reyna endurkomu til vinnu eftir veikindi eða slys, því líklegra er að þeir fari í vinnu og byggi upp farsælan feril."

Hver er ávinningur fyrirtækja af verkefninu?
„Ávinningur fyrir fyrirtæki er öflugur mannauður sem kemur úr atvinnutengdri starfsendurhæfingu og hefur góða innsýn í styrkleika sína og getu. Almennur ávinningur af verkefninu felst í því að auka þekkingu og breyta viðhorfum stjórnenda og starfsmanna á þeim þáttum í vinnuumhverfinu sem stuðla að velferð og auðvelda endurkomu starfsmanna til vinnu eftir langtíma veikindi eða slys. Sömuleiðis felst ávinningur í því að skapa rými á vinnustað fyrir einstaklinga með mismunandi starfsgetu. Fjölbreytni stuðlar að jákvæðu orðspori og bættri ímynd fyrir fyrirtæki.“

Hvernig líst fyrirtækjum almennt á verkefnið?
„Móttökurnar hafa verið góðar, atvinnurekendur og þeir sem hafa mannaforráð í fyrirtækjum eru almennt jákvæðir fyrir þessu verkefni. Um er að ræða þróunarverkefni til tveggja ára og hefst það með samstarfsyfirlýsingu milli fyrirtækis og VIRK um innleiðingu á verkferlum er tengjast endurkomu til vinnu eftir veikindi eða slys. Það hefur skapast töluvert af fjölbreyttum starfstækifærum hjá okkur, en það er stutt síðan að kynning á verkefninu var send á nokkur fyrirtæki. Atvinnuráðgjafar eru núna að fylgja því eftir og kynna verkefnið nánar fyrir fyrirtækjum.“

„Þjónusta VIRK er fyrir einstaklinga sem búa við skerta starfsgetu vegna veikinda eða slysa og stefna að aukinni þátttöku á vinnumarkaði,“ segir Þorsteinn. „Vonandi verður verkefnið til þess að einstaklingur auki smátt og smátt við vinnuþáttinn en minnki á sama tíma stuðning í starfsendurhæfingarferlinu.

Með því að opna umræðuna um að það geti ekki allir sinnt 100% starfi aukum við umburðarlyndi á vinnumarkaði og samkenndin verður að sama skapi meiri. Allir vita að vinna er góð bæði fyrir andlega og líkamlega heilsu. Það er því ávinningur einstaklingsins, vinnuveitenda og þjóðfélagsins í heild að einstaklingum með skerta vinnugetu sé gefið tækifæri til að komast í vinnu við hæfi.“

Viðtalið birtist í Mars tölublaði VR blaðsins.

Sjá meira um þróunarverkefnið hér.


Fréttir

18.10.2024
19.12.2024

Hafa samband