Fara í efni

„Atvinna besta meðferðin“

Til baka

„Atvinna besta meðferðin“

Bandaríkjamennirnir Deborah R. Becker og Robert E. Drake, hugmyndasmiðir og frumkvöðlar IPS hugmyndafræðinnar (Individual Placement and Support), sóttu VIRK heim nýverið.

VIRK og geðdeild LSH Laugarási hafa unnið að uppbyggingu árangursríkrar starfsendurhæfingar fyrir ungt fólk með geðrofssjúkdóma síðan 2012 sem grundvölluð er á IPS. Samstarfsverkefnið hefur gengið vel og lofar góðu, 34 ungmenni hafa tekið þátt, 14 eru í vinnu og 16 eru að skoða mögulega atvinnuþátttöku.

Deborah og Robert fóru yfir grunn IPS hugmyndafræðinnar og tilurð hennar, framkvæmd og skipulag og ræddu hvernig best sé að standa að innleiðingu IPS.

Fólk vill vinna

Deborah sagði einstaklinga með alvarlega geðsjúkdóma bæði vilja og geta unnið. Aðspurðir sögðust þrír fjórðu hlutar þeirra vilja vinna en nú væru aðeins um 15% þeirra þátttakendur á vinnumarkaði í Bandaríkjunum. Mikilvægt væri að gefa fólki tækifæri til þess að gera það sem það vill, vinna.

Hún sagði IPS byggja á gagnreyndum aðferðum sem þróast hafa með áratugareynslu og felur í sér að fólk fari beint út á vinnumarkað en njóti stuðnings og eftirfylgni frá þverfaglegu teymi. Ákveðnum grunnreglum sé fylgt : Allir sem vilja vinna koma til greina – enginn sé útilokaður, stefnt sé á samkeppnishæf störf á almennum vinnumarkaði, samvinna/teymisvinna sé lykilatriði og atvinnuleit og heilbrigðishliðin samhæfð – atvinna sé allra mál, mikilvægt sé að virða vilja einstaklinganna og taka tillit til fyrirvara sem þeir kunni að setja, mikil áhersla sé lögð á hraða atvinnuleit – að byrjað sé á henni sem fyrst. Auk þess sé mikilvægt að atvinnuráðgjafar byggi upp samstarf og samvinnu við atvinnulífið áður en leitað er eftir störfum fyrir ákveðinn einstakling og stutt sé áfram við þá einstaklinga sem halda út á vinnumarkaðinn.

Fjöldi rannsókna staðfestir IPS árangur

Róbert sagðist þeirra skoðunar að besta meðferðin við geðsjúkdómum væri atvinna. Þátttaka á vinnumarkaði væri besta mögulega úrlausnin fyrir einstaklinginn, fjölskylduna, heilbrigðiskerfið, atvinnulífið og samfélagið í heild. Samfélög sem nýta ekki krafta allra sinna þegna munu dragast aftur úr öðrum. IPS snúist um að breyta samfélaginu, félagsgerðinni, til batnaðar.

Hann hóf rannsóknir á árangri IPS í New Hampshire fyrir áratugum síðan og hefur síðan þá gert á þriðja tug slembirannsókna um allan heim sem hafa hver og ein staðfest grunnárangur IPS nálgunarinnar. Sömu niðurstöður fást allstaðar, um 75% einstaklinganna vilja vinna og um 60-70% fá vinnu þar sem þessi hugmyndafræði er nýtt. Langtímarannsóknir sýni auk þess að líðan þátttakenda verður betri með tímanum, þegar lagt hefur verið af stað í bataátt þá sé allajafna ekki aftur snúið. Þau 30% sem ekki fá vinnu hafi verið sérstaklega skoðuð og telur Robert að hægt sé að bæta úr þessu ef enn meira er lagt í verkefnið. Hægt sé að finna störf við hæfi allra en þá þurfi að leggja enn meiri vinnu og tíma í að para saman einstaklinga og störf.

Róbert sagði IPS nálgunina byggjast á heilbrigðri skynsemi. Sjúklingar séu spurðir hvað þeir þurfi. Þeir vilja finna vinnu við hæfi, aðstoð við að fá hana og við að taka fyrstu skrefin. Og þeim sé hjálpað til þess og samfélagið allt njóti árangursins á endanum.

Sjá glærur sem fylgdu fyrirlestri Deborah hér.


Fréttir

05.11.2024
18.10.2024

Hafa samband