Fara í efni

Virkur vinnustaður - þróunarverkefni í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir

Til baka

Virkur vinnustaður - þróunarverkefni í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir

Í kjölfar vinnustofu aðila vinnumarkaðarins í febrúar 2011, þar sem fjallað var um forvarnir gegn brottfalli af vinnumarkaði og snemmbæru inngripi í starfsendurhæfingu, hefur stjórn VIRK ákveðið að fara af stað með sérstakt þróunarverkefni í samvinnu við atvinnurekendur. Verkefnið hefst formlega haustið 2011 og því lýkur innan þriggja ára
Um þessar mundir er verið að kynna verkefnið fyrir stjórnendum fyrirtækja og stofnana víða um land með samstarf í huga.

Ef atvinnurekendur eru áhugasamir um að taka þátt í þróunarverkefninu er þeim velkomið að hafa samband og leggja inn beiðni um þátttöku en ákvarðanir um þátttöku verða teknar fyrir lok júnímánaðar. Aðeins verður farið af stað með 20 vinnustaði til að byrja með og hafa nokkrir vinnustaðir nú þegar samþykkt þátttöku í verkefninu.

Tilgangur með verkefninu er að veita stjórnendum og starfsmönnum fræðslu og aðstoð við að móta og innleiða stefnu um velferð og fjarvistir. Áhersla er lögð á jákvæða og heilsusamlega nálgun, með þátttöku stjórnenda og starfsmanna við þarfagreiningu vinnustaðarins, og útfærslu á stefnu og leiðum eftir því sem best hentar hverri starfsemi.

VIRK veitir þátttakendum eftirfarandi þjónustu:
• Fræðslu fyrir stjórnendur um mótun stefnu varðandi velferð, fjarvistir og endurkomu til vinnu eftir veikindi og slys
• Leiðbeiningar og stuðning við undirbúning, innleiðingu og eftirfylgni stefnunnar
• Fræðslu og aðstoð fyrir stjórnendur vegna fjarvistasamtals og samtals um endurkomu til vinnu eftir langtíma veikindi og slys
• Reglubundna fræðslufyrirlestra fyrir starfsfólk og stjórnendur m.a. um heilsu- og vinnuvernd, áhrifaþætti fjarvista, vellíðan í starfi og mikilvægi vinnu í bataferli
• Aðgang að fræðsluefni á netinu fyrir starfsfólk og stjórnendur
• Aðgang stjórnenda að sérfræðingi VIRK
• Sérfræðingur VIRK mun funda reglulega með tengilið á viðkomandi vinnustað og fara  yfir gang mála

Ávinningur þess að taka þátt í verkefninu getur meðal annars falist í:
• Skýrum og markvissum vinnuferlum varðandi veikindafjarvistir og eftirfylgni vegna þeirra
• Mælanlegum markmiðum um árangur sem byggir á þarfagreiningu fyrirtækis/stofnunar
• Styttri og færri veikindafjarvistum starfsmanna
• Betra starfsumhverfi, minna álagi, aukinni vellíðan í vinnu og minni starfsmannaveltu
• Aukinni framleiðni og betri samkeppnisstöðu
• Virkum mannauði þar sem þekking starfsfólks helst innan vinnustaðarins
• Góðri ímynd, sveigjanleika og samfélagslegri ábyrgð 
• Aðgengi að fræðslu og ráðgjöf varðandi velferð, fjarvistir og endurkomu til vinnu

Hlutverk og kröfur til vinnustaðanna eru eftirfarandi:
Viðkomandi fyrirtæki/stofnanir þurfa að vera reiðubúnar til þess að taka virkan þátt í ofangreindum verkefnum og þjónustu s.s. að taka þátt í fræðslu, upplýsingamiðlun, stefnumótun, innleiðingu ferla á vinnustað og mögulegum breytingum, auk þess að halda skráningu um lykiltölur tengdar fjarvistum. Þátttaka verður að vera tryggð af hálfu yfirstjórnar, stjórnenda, millistjórnenda og starfsfólks. Tengiliður fyrirtækis/stofnunar við VIRK verður einnig að hafa tíma til að taka virkan þátt í þessum verkefnum. Verkefnin geta hins vegar oft samræmst öðru stefnumótunar- og gæðastarfi sem á sér stað innan vinnustaða.

Framtíðarsýn VIRK
Þess má geta í lokin að verkefnið Virkur vinnustaður fellur vel að þeirri framtíðarsýn sem VIRK hefur mótað sér:

Að vinnustaðir á Íslandi hafi áherslur á forvarnir, fjarvistastjórnun og viðbrögð við skammtíma og langtíma fjarvistum vegna veikinda og slysa sem hluta af virkri starfsmannastefnu sinni.

Að stefna, athafnir og viðhorf á vinnustöðum stuðli að eflingu starfsendurhæfingar og aukinni virkni einstaklinga með skerta starfsgetu.

Að viðhorf á vinnustöðum séu þannig að gert sé ráð fyrir að allir eigi hlutverk í atvinnulífinu þrátt fyrir skerta starfsgetu af ólíkum ástæðum.

Starfsmenn VIRK sem vinna að þróunarverkefninu eru:
Svava Jónsdóttir sérfræðingur og verkefnastjóri, svava@virk.is, sími 535 5700
Hildur Friðriksdóttir sérfræðingur, hildur@virk.is, sími 535 5700

 


Fréttir

06.06.2024
30.04.2024

Hafa samband