Fara í efni

VIRK Atvinnutenging - 200 fyrirtæki í samstarfi

Til baka

VIRK Atvinnutenging - 200 fyrirtæki í samstarfi

Rannsóknir sýna að því fyrr sem einstaklingar reyna endurkomu til vinnu eftir veikindi eða slys, því líklegra er að þeir komist aftur til baka í vinnu. Það er því ávinningur einstaklingsins, vinnuveitenda og þjóðfélagsins í heild að einstaklingum með vinnugetu sé gefið tækifæri til að komast í vinnu við hæfi eins snemma og mögulegt er í starfsendurhæfingarferlinum.

Árið 2016 var þróunarverkefninu VIRK Atvinnutenging ýtt úr vör. Meginmarkmið verkefnisins var að það hefði áhrif á ferli einstaklinga í starfsendurhæfingu hjá VIRK og auðveldaði endurkomu þeirra á vinnumarkað. Þetta markmið náðist og árið 2018 var ákveðið að vinnulagið sem þróast hafði í atvinnutengingunni yrði varanlegt verkferli fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu í starfsendurhæfingu á vegum VIRK sem voru tilbúnir til að reyna endurkomu á vinnumarkað en þurftu sérstaka aðstoð til þess.

Atvinnutenging

Í lok árs 2018 störfuðu fimm atvinnulífstenglar hjá VIRK og aðstoðuðu ráðgjafa VIRK á höfuðborgarsvæðinu við að koma einstaklingum með skerta starfsgetu aftur inn á vinnumarkaðinn eftir starfsendurhæfingu. Auk þessa störfuðu fjórir atvinnulífstenglar við IPSatvinnutengingu (Individual Placement and Support) og aðstoðuðu þeir einstaklinga með alvarleg geðræn vandamál við að komast inn á vinnumarkaðinn.

Atvinnutengingin fer þannig fram að einstaklingum er vísað í þjónustu hjá atvinnulífstenglum VIRK þegar þeir eru metnir tilbúnir til að reyna endurkomu inn á vinnumarkaðinn, um 3–4 mánuðum áður en starfsendurhæfingu lýkur. Þar fá þeir stuðning frá atvinnulífstengli við undirbúning fyrir atvinnuleit og stuðning í gegnum allt ferlið þar til þeir eru komnir í vinnu.

Margir eflast mjög á þessum tíma og sækja sjálfir um störf sem auglýst eru á almennum vinnumarkaði. Þá hefur komið í ljós að einstaklingum sem hafa verið lengi frá vinnumarkaði gagnast vel að fá tækifæri til að koma inn á vinnumarkaðinn á stigvaxandi máta og það eykur líkurnar á árangursríkri endurkomu á vinnumarkaðinn. Í þeim tilfellum er unnin sérstök virkniáætlun af atvinnulífstengli í samvinnu við starfsmanninn og yfirmann hans. Þar er tekið mið af verkefnum, vinnuferlum, aðstæðum og vinnutíma á viðkomandi vinnustað og síðan eru gerðar endurbætur á áætluninni eins og þurfa þykir. Bæði er lögð áhersla á að styðja einstaklinginn en ekki síður vinnustaðinn, bæði stjórnendur og samstarfsmenn, eins og óskað er eftir.

Eftirfylgni er með starfsmanni inni á vinnustaðnum í samráði við starfsmanninn og vinnustaðinn og getur atvinnulífstengill aðstoðað við úrlausnir vandamála og hindrana sem upp geta komið. Á meðan einstaklingar eru í atvinnutengingu geta atvinnulífstenglarnir keypt einstaklingsmiðuð úrræði frá ýmsum fagaðilum sem auðveldað geta endurkomu inn á vinnumarkaðinn.

Hundruðir einstaklinga hafa verið ráðnir í hin fjölbreyttustu störf í gegnum VIRK Atvinnutenging.

Rúmlega 200 fyrirtæki í samstarfi

VIRK leitar stöðugt eftir samstarfi við fyrirtæki og stofnanir í tengslum við ráðningar starfsfólks. Í maí 2019 voru um 200 fyrirtæki með undirritaðan samstarfssamning við VIRK Atvinnutenging og í upplýsingagrunni VIRK eru skráð yfir 900 fyrirtæki og stofnanir.

Undanfarin misseri hafa Atvinnulífstenglar VIRK gert sérstakt átak í því að nálgast fyrirtæki sem ekki hafa verið í virku samstarfi við VIRK til þessa með ósk um að fá að koma í heimsókn til að veita upplýsingar um starfsemi VIRK og starf atvinnulífstengla VIRK.

Megintilgangurinn er að koma á atvinnutengingu á milli einstaklings og fyrirtækis og ljúka starfsendurhæfingu á farsælan hátt með því að útvega einstaklingunum áhugaverð störf og fyrirtækjunum gott starfsfólk ásamt því að halda uppi virkri atvinnuþátttöku á Íslandi og stuðla að heilbrigðu samfélagi.

Fyrirtæki og stofnanir geta skráð sig á verumvirk.is og atvinnulífstenglar VIRK hafa samband í framhaldinu.


Fréttir

18.10.2024
05.11.2024

Hafa samband