Fara í efni

Tíu ráð til að bæta fyrirtækisbrag

Til baka

Tíu ráð til að bæta fyrirtækisbrag

Góður fyrirtækisbragur eða fyrirtækismenning hefur áhrif á tryggð starfsmanna og löngun þeirra til að vera í vinnunni. Fyrirtækisbragur nær til allra þátta vinnuumhverfisins, skipulags, andrúmslofts, hvernig fólki líður í vinnunni, hvernig samskipti eru á vinnustaðnum, vinnunar sjálfrar, - alls, hvort sem um er að ræða skráðar eða óskráðar reglur. 
Góður fyrirtækisbragur getur bætt afkomu fyrirtækisins, en slæmur fyrirtækisbragður dregur úr henni. Pirrað starfsfólk, viðvera í vinnu án framleiðni, slúður og óskipulagðar fjarvistir geta verið afleiðing þess að fólki líður ekki vel í vinnunni. Hér að neðan eru tíu ráð til að bæta fyrirtækisbrag á þínum vinnustað.
  1. Traust. Starfsmaður sem finnur að honum er treyst til að vinna vinnuna sína og að vinna vel er starfsmaður sem finnur fyrir virðingu og er ánægður í vinnunni. Traust er viðurkenning á því að starfsmaðurinn er mikilvægur fyrir vinnustaðinn.
  2.  Velvild. Velvilji á vinnustað skilar miklum árangri. Velvilji er smitandi og er líklegur til að ná útbreiðslu. Prófaðu það og allir vinna.
  3. Miðlun upplýsinga. Greið upplýsingamiðlun og opin samskipti milli starfsmanna og stjórnenda, án þess að ganga á rétt til persónuverndar eykur traust og bætir samskipti og eykur líkur á að starfsfólk vilji vera í vinnunni og koma aftur í vinnuna eftir veikindafjarvistir.
  4. Stjórn á aðstæðum. Starfsmenn sem hafa stjórn á aðstæðum í vinnunni eru líklegri til að njóta sín í vinnunni. Stjórn á aðstæðum getur falist í möguleikanum á að aðlaga vinnutíma, endurskoða hlutverk sitt í vinnunni, taka þátt í nýjum verkefnum, eða að hafa stjórn getur einfaldlega falist í að einstaklingi finnist hann ráða við vinnuna eða vinnuálagið.
  5. Sveigjanleiki. Sveigjanlegur vinnutími og fjölskylduvæn starfsmannastefna eru mikilvægir þættir.
  6. Nýsköpun. Hvatning til skapandi hugsunar og nýrra hugmynda hefur áhrif. 
  7. Gleði. Möguleiki á afþreyingu og aðstaða á vinnustað til að hittast og ræða málin í dagsins önn eru mikilvægir þættir í heilbrigðum fyrirtækisbrag.
  8. Samband. Jákvæð samskipti og gott samband er mikilvægt, ekki bara á vinnustaðnum heldur líka þegar starfsmaður er fjarri vinnustað um tíma.
  9. Skýr markmið. Ef allir vinna að sama takmarki losnar kraftur úr læðingi. Starfsmenn þurfa að hafa andrými í vinnunni, en þeir þurfa líka að vita nákvæmlega í hverju vinna þeirra er fólgin og hvers er vænst af þeim.
  10. Umhyggja. Er starfsfólkið ánægt í hlutverkum sínum. Hvernig er starfsálag og vinnuaðstaða? Þjáist starfsfólkið af streitu, eru of miklar kröfur eða of litlar eða eru verkefnin of fá? Er leiðinlegt í vinnunni? Hvernig gengur í vinnunni? Það er mikilvægt að spyrja starfsmanninn um líðan í vinnunni og auðvelda honum að gera vinnuumhverfið ánægjulegra. Ef okkur líður vel í vinnunni viljum við vera þar.

Eftir: Anna Kelsey af http://www.rtw.matters.org/


Fréttir

06.06.2024
30.04.2024

Hafa samband