Fara í efni

Starfsendurhæfing um allt land

Til baka

Starfsendurhæfing um allt land

VIRK á í miklu og góðu samstarfi við fagfólk um allt land, leggur áherslu á að nýta fagfólk á hverju svæði fyrir sig og þróa úrræði sem henta þeim fjölbreytta hóp sem nýta þjónustu VIRK. Tæplega 700 þjónustuaðilar eru í samstarfi við VIRK um starfsendurhæfingarúrræði og keypt var þjónusta af þeim fyrir ríflega milljarð króna árið 2016.  

Um 80 sálfræðingar starfa með VIRK og veita einstaklingum með geðrænan vanda einstaklingsviðtöl og hópmeðferðir sem byggja á gagnreyndum aðferðum. Áhersla er lögð á að einstaklingar í þjónustu VIRK fái sálfræðiþjónustu við hæfi.

Með VIRK starfa 200 sjúkraþjálfarar sem veita fjölbreytta einstaklingsþjónustu og hópúrræði fyrir einstaklinga með stoðkerfisraskanir. Auk þess styðja þeir einstaklinga sem eru að vinna að því að gera hreyfingu að hluta af lífsstíl sínum.

Um 100 símenntunaraðilar um allt land veita námsúrræði sem auka möguleika einstaklinga á vinnumarkaði og sami fjöldi þjónustuaðila býður upp á heilsueflandi úrræði. Undir þann flokk fellur m.a. líkamsrækt með stuðningi íþróttafræðings, vatnsleikfimi og ýmis hópúrræði á vegum fagaðila.

Fjöldi þjónustuaðila veita atvinnutengd úrræði og má þar helst nefna vinnuprófanir, úttekt og ráðgjöf og stuðning á vinnustað við endurkomu til vinnu sem og úrræði sem miða að því að búa einstaklinga undir atvinnuleit. Þessi úrræði eru stöðugt í þróun hjá VIRK og gert er ráð fyrir að aukin áhersla verði lögð á þau á næstu misserum.

VIRK er með samning við átta starfsendurhæfingarstöðvar um allt land en það er liður í því að tryggja að til staðar sé fagleg þekking og reynsla á sviði starfsendurhæfingar um allt land. Á starfsendurhæfingarstöðvum er unnið markvisst með þær hindranir sem eru til staðar og samhliða því unnið með styrkleika einstaklings og þeir tengdir við möguleg störf á vinnumarkaði.

Aukin kaup á þjónustu fagaðila

Kaup VIRK á þjónustu fagaðila hafa aukist mikið á undanförnum árum en árið 2016 námu þau rúmlega 1.000 milljónum króna og hækka frá árinu áður eins og sjá má á mynd 1 hér að ofan. Þetta skýrist að stærstum hluta með aukningu hjá samningsbundnum starfsendurhæfingarstöðvum.

Bæði hefur fleiri einstaklingum með fjölþættan vanda verið vísað í heildstæð þverfagleg úrræði en einnig hefur kostnaður vegna aðkeyptrar þjónustu hækkað í takt við almennar launahækkanir. Mynd 2 hér að neðan sýnir svo skiptingu útgjalda milli mismunandi tegunda af úrræðum á árinu 2016.

 

Aukið samstaf við starfsendurhæfingarstöðvar

Undanfarið ár hefur aukið samstarf milli allra starfsendurhæfingarstöðva landsins og VIRK verið í þróun. Samstarfið byggist á reglulegum þverfaglegum fundum þar sem farið er markvisst yfir mál einstaklinga sem eru í þjónustu starfsendurhæfingarstöðva á vegum VIRK og þau rýnd saman ofan í kjölinn.

Fagfólk á vegum starfsendurhæfingarstöðva og VIRK fer þá með skipulögðum hætti yfir mál hvers einstaklings fyrir sig og þau markmið sem lagt var upp með, metur hvað hefur áunnist og leggur línur varðandi framhaldið. Markmið með þessari auknu samvinnu var meðal annars að auka og bæta upplýsingaflæði á milli endurhæfingaraðila, auka skilvirkni og fagleg vinnubrögð með það fyrir augum að bæta þjónustu við einstaklinginn.

Þetta aukna samstarf hefur gefið góða raun og gert er ráð fyrir að það aukist og þróist enn frekar.


Fréttir

18.10.2024
05.11.2024

Hafa samband