Fara í efni

Starf ráðgjafa í starfsendurhæfingu

Til baka

Starf ráðgjafa í starfsendurhæfingu

Ráðgjafar í starfsendurhæfingu hjá stéttarfélögum víðs vegar um landið eru orðnir tuttugu og átta. Þeir starfa á grundvelli samninga sem VIRK, Starfsendurhæfingarsjóður hefur gert við stéttarfélögin. Ásókn í þjónustu ráðgjafanna hefur aukist jafnt og þétt undanfarna mánuði og bætast nýir ráðgjafar stöðugt í hópinn.

Starf ráðgjafa í starfsendurhæfingu er í senn fjölbreytt, krefjandi og gefandi. Hlutverk þeirra er að aðstoða einstaklinga við að endurheimta og/eða viðhalda og efla starfsgetu og starfshæfni. Áherslan er alltaf lögð á að viðhalda vinnusambandi einstaklingsins og að huga að hvaða leiðir eru færar til þess. Ef ráðningarsamband er ekki til staðar miðar starf ráðgjafa að því að hjálpa einstaklingnum við að fjarlægja hindranir gegn atvinnuþátttöku og auðvelda honum að komast aftur í vinnu í kjölfar veikinda eða slysa.

Stærstu og mikilvægustu þættirnir í starfi ráðgjafa eru hvatning og viðtöl við einstaklinga þar sem farið er yfir möguleika á vinnumarkaði, umsjón með málefnum þeirra og samskipti við vinnustaðinn. Aðrir veigamiklir þættir í starfi ráðgjafa eru samskipti við fagaðila svo sem lækna, sjúkraþjálfara og sálfræðinga vegna beiðna og úrræða fyrir einstaklinga og skráning upplýsinga.

Ráðgjafarnir þurfa að huga vel að skráningu grunnupplýsinga og skimunar, úrræðakaupa og árangurs. Öll skráning er gerð  samræmt skráningarkerfi VIRK. Farið er að lögum um persónuvernd varðandi málefni einstaklinga og skrifa þeir sem leita til ráðgjafa undir upplýst samþykki í upphafi þjónustu. Skráning eru nauðsynlegur þáttur í faglegu ferli VIRK, meðal annars til að hægt sé að hafa yfirsýn yfir þá þjónustu við einstaklinga og til að meta árangur í starfsendurhæfingu.

Ráðgjafarnir vinna náið með sérfræðingum VIRK og hefur hver ráðgjafi tengilið hjá sjóðnum og funda þeir reglulega. VIRK er einnig faglegt bakland fyrir ráðgjafana og eru haldnir einn til tveir fræðsludagar í hverjum mánuði þar sem allir ráðgjafarnir koma saman ásamt sérfræðingum VIRK. Þar er ýmis fræðsla tengd starfsendurhæfingu í boði auk þess sem farið er yfir verkferla og vinnureglur ráðgjafanna.

Eins og fram hefur komið er starf ráðgjafa fjölbreytt og auk þess sem að framan er talið má nefna að ráðgjafar halda kynningar um VIRK og starf ráðgjafanna í fyrirtækjum, stofnunum og á trúnaðarmannanámskeiðum stéttarfélaganna. Með aukinni reynslu og þróun ráðgjafastarfsins hafa ráðgjafar tekið þátt í breytingum og endurskoðun á þeim vinnugögnum sem Starfsendurhæfingarsjóður leggur til.

Mikilvægt er að ráðgjafi í starfsendurhæfingu búi yfir góðri samskiptahæfni og hafi áhuga á að vinna með fólki. Hann þarf að mæta einstaklingnum þar sem hann er staddur, án fordóma og sýna honum virðingu. Fólki finnst oft erfitt að taka  fyrstu skrefin til að leita aðstoðar og er því mikilvægt að vel sé tekið á móti því.

Einstaklingar koma eftir ýmsum leiðum til ráðgjafa. Hjá flestum stéttarfélögum fá þeir bréf og bækling frá VIRK þegar þeir sækja um hjá sjúkrasjóðum félaganna með upplýsingum um þjónustuna. Í fyrstu kom fólk aðallega frá stéttarfélögunum en undanfarið ár hefur það breyst mikið. Með aukinni þekkingu á tilvist VIRK og þjónustu ráðgjafa stéttarfélaganna hafa einstaklingar oftar samband að eigin frumkvæði, auk þess sem atvinnurekendur, stjórnendur, læknar, sálfræðingar og aðrir fagaðilar benda fólki á þjónustuna. Mikilvægt er að einstaklingar komi sem fyrst í ráðgjöf ef fyrirséð er að um langvinnan heilsuvanda er að stríða því rannsóknir sýna að því lengur sem einstaklingur er frá vinnu því minni líkur eru á að hann snúi aftur til vinnu.

Fólk kemur í ráðgjöf af ólíkum ástæðum en á það sameiginlegt að vera að glíma við einhvers konar heilsubrest, líkamlegan eða andlegan, í kjölfar veikinda eða slysa. Algengast er að þeir sem leita til ráðgjafa í starfsendurhæfingu glími við stoðkerfisvandamál og andlega vanlíðan. Algengt er að andleg vanlíðan fylgi í kjölfar slysa og alvarlegra sjúkdóma. Það er erfitt fyrir fólk að veikjast og geta ekki lengur stundað starf sitt. Því er mikilvægt að einstaklingar haldi þeirri virkni sem þeir geta og séu þeir í vinnusambandi að fara í heimsókn á vinnustaðinn og halda þannig tengslum þangað til þeir geta mætt aftur til vinnu. Einnig er mikilvægt að fólk fái upplýsingar og aðstoð varðandi hvaða leiðir eru færar varðandi framfærslu og úrræði því mörgum finnst kerfið flókið. Flestir sem leita til ráðgjafa eru ánægðir með að hægt sé að fá þessa þjónustu og hafa margir þeirra getað snúið fyrr aftur til vinnu með aðstoð ráðgjafa.


Fréttir

18.10.2024
05.11.2024

Hafa samband