Fara í efni

Sérhæft matsteymi á Akureyri

Til baka

Sérhæft matsteymi á Akureyri

Hjá Starfsendurhæfingarsjóði (VIRK) hefur átt sér stað þróun á verkfærum og vinnuferlum sem hafa það að markmiði að meta getu og færni einstaklinga til að vera virkir þátttakendur á vinnumarkaði ásamt því að draga fram þau tækifæri sem eru til staðar og virkja og hvetja einstaklinga til dáða.  Hér er um að ræða svokallað starfshæfnismat.  Einn hluti starfshæfnismats er svokallað sérhæft mat þar sem fleiri sérfræðingar koma að  matinu með ítarlegri skoðun og greiningu.  Ástæður fyrir sérhæfðu mati geta verið margvíslegar en það er ráðgjafi í starfsendurhæfingu sem starfar í tengslum við VIRK sem vísar í sérhæft mat á grundvelli niðurstöðu grunnmatsins í samráði við sérfræðing hjá VIRK.

Sérhæft mat felur í sér nánari greiningu og mat utanaðkomandi sérfræðinga á stöðu einstaklingsins. Í sérhæfðu mati eru  starfsendurhæfingarmöguleikar einstaklingsins kannaðir og metnir á dýpri og sérhæfðari hátt. Á grundvelli sérhæfðs mats er tekin ákvörðun um hvort, og þá hvernig, megi efla starfshæfni. Niðurstaða matsins segir til um starfsendurhæfingarmöguleika einstaklings og tillögur að úrræðum í samræmi við það.  Einnig eru sérstaklega skoðaðir möguleikar og úrræði sem stuðla að endurkomu viðkomandi einstaklinga á vinnumarkaðinn.

Á höfuðborgarsvæðinu hefur verið starfandi sérhæft matsteymi og nú er unnið að því að efla það frekar og fjölga sérfræðingum í teyminu.  Markmiðið er síðan að slík teymi verði til staðar á landsbyggðinni eftir þörfum.  Fyrsta sérhæfða matsteymið á landbyggðinni er nú að taka sín fyrstu skref á Akureyri.  Í því teymi eru eftirtaldir aðilar:

• Friðrik Vagn Guðjónsson læknir
• Ragnhildur Jónsdóttir sjúkraþjálfari
• Anna María Malmquist iðjuþjálfari
• Alice Björgvinsdóttir sálfræðingur


Fréttir

06.06.2024
30.04.2024

Hafa samband