Fara í efni

Aukið samstarf VIRK og lífeyrissjóða

Til baka

Aukið samstarf VIRK og lífeyrissjóða

Markviss uppbygging hefur átt sér stað á samstarfi milli VIRK og lífeyrissjóða um allt land undanfarið ár. VIRK er í nánu samstarfi við marga af stærstu lífeyrissjóðum landsins þar sem sérfræðingar á vegum VIRK fara yfir allar umsóknir um örorkulífeyri og bjóða einstaklingum upp á starfsendurhæfingarþjónustu ef metið er að hún sé raunhæf og talið er að hún muni skila árangri fyrir viðkomandi einstakling.

VIRK og Gildi lífeyrissjóður ýttu úr vör tilraunaverkefni í ársbyrjun 2014, sem stóð yfir í eitt ár, þar sem allar beiðnir um örorku sem bárust Gildi voru skoðaðar m.t.t. raunhæfi starfsendurhæfingar. Þverfaglegur hópur sérfræðinga frá VIRK þ.e. læknir, sjúkraþjálfari og sálfræðingur sátu þessa fundi ásamt trúnaðarlækni og öðrum starfsmönnum Gildis. Niðurstaða VIRK og Gildis er sú að verklag þetta sé árangursríkt og tryggi að réttum einstaklingum sé vísað í starfsendurhæfingu og með þessu verklagi náist betur að samræma starfsendurhæfingarferil einstaklingins að mati á orkutapi hjá lífeyrissjóðum.

Nú er staðan sú að auk Gildis þá vinna Lífeyrissjóðurinn Festa, Lífeyrissjóður Verslunarmanna, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja, Lífeyrissjóðurinn Stapi, Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Lífeyrissjóður flugmanna, Lífeyrissjóður Rangæinga og Lífeyrissjóður starfsmanna Búnaðarbankans eftir þessu verklagi í samvinnu við VIRK.

Aðlögun starfsgetumats að þörfum lífeyrissjóða

Þá hefur verð gerður tímabundinn tilraunasamningur við lífeyrissjóði sem eru með rekstrarsamning við Arion-banka um aukið samstarf er varðar starfsendurhæfingu og mat á stöðu einstaklinga. Markmið samstarfsins er að afgreiðsla örorkuumsókna verði nátengt ferli starfsendurhæfingar. Sé starfsendurhæfing metin raunhæf, að mati trúnaðarlæknis og fagaðila sem starfa á vegum VIRK, þá er það hlutverk VIRK að setja upp einstaklingsmiðaða nálgun í starfsendurhæfingu. Samkomulag er einnig um að í þeim tilvikum sem starfsendurhæfing er möguleg verði tryggt að starfsendurhæfingarferlinu sé lokið áður en ákvörðun um orkutap eða starfsgetu einstaklings til lengri tíma er tekin.

Með þessu gefst einstakt tækifæri til að samtvinna enn betur matsferli starfsendurhæfingar að þörfum lífeyrissjóða og á sama tíma að tryggja að öllum þeim sem þurfa standi til boða starfsendurhæfing. Í þessu samstarfi verður m.a. til skoðunar hvaða þættir nýtast best úr matsferli VIRK og öfugt. Þróunarverkefnið hefur einnig það markmið að staðla enn betur skýrsluform sem án efa munu nýtast fleiri lífeyrissjóðum í framtíðinni. Verkefnið verður unnið í samvinnu við ýmsa sérfræðinga og hafa samtök tryggingalækna í Evrópu (EUMASS) samþykkt að koma að þessari þróunarvinnu.


Fréttir

18.10.2024
05.11.2024

Hafa samband