Fara í efni

"Nýtt tækifæri fyrir alla"

Til baka

"Nýtt tækifæri fyrir alla"

Verkefni hjá dönskum sveitarfélögum

Um mitt ár 2006 var farið af stað með átaksverkefni hjá vinnumarkaðsstofnunum danskra sveitarfélaga (jobcenter) sem nefnt var „Ny chance til alle“.  Markmiðið var að virkja einstaklinga með verulega skerta starfsgetu sem höfðu í langan tíma verið utan vinnumarkaðar.  Þetta var 2 ára átaksverkefni og lauk því um mitt ár 2008.  Í þessu verkefni átti sérstaklega að bjóða innflytjendum sem ekki höfðu náð að fóta sig í dönsku samfélagi aðstoð en verkefnið náði einnig til annarra einstaklinga með skerta starfsgetu sem höfðu verið mjög lengi utan vinnumarkaðar.

Markmið verkefnisins voru hófleg eða þau að um fjórðungur þáttakenda myndi vera í vinnu eða í hefðbundnu námi í lok tímabilsins.  Enda gerðu menn sér grein fyrir því að um var að ræða hóp sem myndi reynast erfitt að virkja þar sem vinnugeta einstaklinganna var verulega skert vegna líkamlegra, andlegra og/eða félagslegra vandamála.  Niðurstaða verkefnisins var aðeins undir væntingum ef litið er á tölfræðina þar sem um fimmtungur hópsins var í vinnu eða hefðbundnu námi í lok tímabilsins. 

Mikilvægur þáttur verkefnisins var að greina betur aðstæður þess hóps sem mjög lengi var búinn að vera á opinberri framfærslu og reyna að finna nýjar leiðir til að mæta þörfum hans og virkja hann til þátttöku á vinnumarkaði.  Þrátt fyrir að niðurstaðan í formi tölfræði hafi verið aðeins undir þeim markmiðum sem sett voru þá voru menn ánægðir með verkefnið í heild sinni þar sem það leiddi til nýrrar þekkingar, sýnar og nálgunar í þjónustu gagnvart þessum hópi einstaklinga sem mjög lengi höfðu verið afskiptalausir í kerfinu.  Það hefur hins vegar líka komið fram gagnrýni á umgjörð og skipulag verkefnisins, tíminn þótti of stuttur þar sem það getur tekið mjög langan tíma að virkja einstaklinga sem hafa verið mjög lengi óvirkir og einnig áttu sér stað miklar skipulagsbreytingar hjá dönskum sveitarfélögum varðandi vinnumarkaðsmál á þessu tímabili sem tóku tíma frá verkefninu þannig að það fékk ekki öll þau úrræði og þann tíma sem gert var ráð fyrir í upphafi.

Í kjölfar þessa verkefnis hafa síðan nokkur dönsk sveitarfélög tekið saman þá þætti sem vel hafa gengið í þessu verkefni og sum sveitarfélög hafa jafnframt fengið fræðimenn til að rannsaka og greina þau mál sem vel gengu með það í huga að draga af verkefninu lærdóm til framtíðar.  Þessar rannsóknir eru áhugaverðar og geta gefið okkur innsýn og nýjar hugmyndir við að byggja upp og skipuleggja þjónustu fyrir einstaklinga sem hafa ekki getað tekið þátt á vinnumarkaði í langan tíma vegna skertrar starfsgetu.

Hér á eftir eru eru nokkrir punktar úr þessum skýrslum og rannsóknum en nánari upplýsingar má m.a. finna í ýmsum skýrslum á www.kl.dk:

  • Það er mjög mikilvægt að starfsmenn verkefnisins séu hæfir og helgi sig verkefninu
  • Það þurfa að vera til staðar skýr markmið fyrir hvern og einn einstakling
  • Starfsmenn þurfa að hafa nægjanlegan tíma fyrir hvern og einn einstakling
  • Það þurfa að vera til staðar fyrirtæki sem eru tilbúin til að gefa þessum einstaklingum tækifæri til að prófa sig á vinnumarkaði
  • Það tók oft um hálft ár að greina stöðu viðkomandi til að hægt væri að taka ákvörðun um viðeigandi úrræði.  Ástæða þessa var sú að oft er um að ræða einstaklinga með mjög flókin vandamál sem ná langt aftur í tímann og stundum þurfti að vinna úr þessum málum áður en hægt var að halda áfram og taka fyrstu skrefin á vinnumarkaði. 
  • Góð samvinna milli ráðgjafa og úrræðaaðila skiptir miklu máli.  Ráðgjafi þarf að þekkja vel til þeirra úrræða sem keypt eru fyrir viðkomandi einstakling og úrræðaaðilarnir þurfa að þekkja vel þær vinnureglur sem ráðgjafinn vinnur eftir. 
  • Það er einnig nauðsynlegt að samskipti milli ráðgjafans og úrræðaaðilans séu reglubundin og skipulögð.  Bent var á dæmi þess að hægt væri að stytta þjónustutíma í úrræði verulega ef þessum samskiptum er komið í formlegri farveg
  • Þverfagleg samvinna er nauðsynleg – sérstaklega hjá úrræðaaðilum.  Það getur enginn einn starfsmaður haft alla þá þekkingu sem til þarf þegar einstaklingar glíma við erfið og flókin vandamál
  • Það er mikilvægt að deila verkefninu upp í skref sem eru ekki of stór og taka síðan eitt skref í einu.  Það er líka mikilvægt að læra af því sem ekki gengur vel og vera þá tilbúin til að endurskoða áætlunina og taka önnur skref
  • Í sveitarfélaginu Lolland hefur lífsstílsvekefni sem kallast KRAM gefið góða raun þegar um er að ræða heilsufarsvandamál og lífsstíl sem hindrar þátttöku á vinnumarkaði.  Í þessu verkefni er horft á heilsu út frá breiðu sjónarhorni – líkamleg heilsa, andleg heilsa og félagsleg heilsa.  Notuð er fjölbreytt einstaklingsbundin nálgun með ráðgjöf, kennslu og æfingum.
  • Annað verkefni í Lolland sem gaf góða raun kallaðist „Smáu skrefin og virkni í nærumhverfi“.  Fyrirtæki og stofnanir í nærumhverfi einstaklings voru þá fengin til að taka á móti viðkomandi í nokkurra tíma vinnu í viku.  Einstaklingarnir fengu jafnframt umsjónaraðila eða „mentor“ á vinnustaðnum.  Þetta var mikilvægt skref í þá átt að brjóta upp félagslega einangrun og stíga fyrstu skrefin á vinnumarkaðnum.
  • Í Álaborg var farin ný leið þar sem blandað er saman úrræðum með uppbyggingu og stuðningi og starfsreynslu í atvinnulífinu.  Þessi leið gaf mjög góða raun.  Sérstakur starfsmaður fékk það hlutverk að mynda góð tengsl við fyrirtæki sem tilbúin voru í samstarf og veitti þeim og viðkomandi einstaklingum góðan stuðning í vinnuprufum.  Samtímis voru einstaklingarnir í ákveðnu prógrammi þar sem áherslan var á að byggja upp og styrkja færni þeirra. 
  • Í Kaupmannahöfn hafa 7 ráðgjafar verið fluttir af hefðbundinni skrifstofu í „Jobcenter“ og út í íbúahverfin þar sem mjög margir innflytjendur búa.  Þar hafa þeir náð að mynda betri tengsl við íbúana og gera laus störf og möguleika meira sýnileg en áður.  Þeir hafa einnig unnið í því að byggja upp samstarf við fyrirtæki í hverfinu varðandi möguleika á vinnuprufum og þegar um er að ræða þung félagsleg vandamál þá hafa þeir myndað gott samstarf með félagsþjónustunni í viðkomandi hverfi.  Hver ráðgjafi heldur utan um mál 30 einstaklinga en svo bjóða þeir einnig upp á vikulega ráðgjafatíma sem eru opnir öllum.  Þessi leið hefur skilað mjög góðum árangri í þessum hverfum.
  • Í sveitarfélaginu Tønder var lögð áhersla á hreyfanleika ráðgjafanna – einstaklingum var boðið upp á aðstoð og viðtöl á sínu eigin heimili og mikil áhersla lögð á að greina og skilja aðstæður hvers og eins til að unnt væri að byggja upp innri hvatningu til breytinga. 


Sjá nánar á  http://www.kl.dk/ og grein eftir Catharina Juul Kristensen „Vellykket aktivering for ikke-arbejdsmarkedsparate ledige“ í http://www.idunn.no/


Fréttir

06.06.2024
30.04.2024

Hafa samband