Fara í efni

Ný skilgreing á heilbrigði

Til baka
Huber á afmælisráðstefnu VIRK
Huber á afmælisráðstefnu VIRK

Ný skilgreing á heilbrigði

Machteld Huber, læknir og heimspekingur sem flutti erindi á afmælisráðstefnu VIRK 2018, hefur á undanförnum árum talað fyrir nýrri skilgreiningu á heilbrigði sem er sú að heilsa sé „getan til að aðlagast og stjórna ferðinni þegar við mætum líkamlegum, andlegum og félagslegum áskorunum í lífinu". 

Opinber skilgreining á heilbrigði hefur haldist óbreytt frá árinu 1948 þegar Alþjóða heilbrigðisstofnunin setti fram þá fullyrðingu að heilbrigði væri „það að njóta fullkomlega líkamlegrar, andlegrar og félagslegrar vellíðan en ekki einungis það að vera laus við sjúkdóma og heilsubrest". 

Á þeim tíma voru smitsjúkdómar ein helsta ógn við heilsu fólks en í dag eru langvarandi lífsstílssjúkdómar ein helsta vá hins vestræna heims og í þeim veruleika er mjög varhugavert að heilsa geri kröfu um fullkomna vellíðan á öllum sviðum. 

Í viðtali við Huber í ársriti VIRK 2019 kemur fram að hún nefnir þessa skilgreiningu jákvæða heilsu (Positive Health) og telur mikilvægt að sjá hlutina í samhengi, vera við stjórnina, sjá tilganginn og fara ekki í fórnarlambshlutverkið. Nálgunin snýst um þrautseigju og það að vera sjálfur við stjórnvölinn í sínu lífi.

Með jákvæðri heilsunálgun er tekið nýtt sjónarhorn. Athygli er ekki beint að sjúkdóminum heldur á einstaklinginn sjálfan, styrkleika hans og hvað geri líf hans innihaldsríkt. Í heimalandi Huber fer áhugi fyrir nálgun jákvæðrar heilsu ört vaxandi, ekki bara inn á heilbrigðisstofnunum heldur einnig í skólum, á vinnustöðum, í félagslega kerfinu og í öðrum stofnunum.

Þegar hefur ein sýsla í Hollandi, Limburgh, hafið innleiðingu á jákvæðri heilsu á öllu stigum þjóðfélagsins og er lokamarkmiðið að breyta því hvernig almenningur sem og heilbrigðisfólk nálgast heilbrigði, þ.e. með því að beina athyglinni að einstaklingnum en ekki eingöngu að sjúkdóminum.

Sjá viðtalið við Machteld Huber í heild sinni hér. 


Fréttir

18.10.2024
05.11.2024

Hafa samband