Ný myndbönd um starfsvin á vinnustað
Ný myndbönd um starfsvin á vinnustað
Víða erlendis hafa vinnustaðir góða reynslu af því að vera með starfsvin þegar starfsfólk er að koma til baka á eigin vinnustað eftir langtímaveikindi eða þegar nýtt starfsfólk er ráðið inn sem hefur ekki verið á vinnumarkaði lengi. VIRK er um þessar mundir að skilgreina hlutverk starfsvina (mentora) á vinnustöðum sem getur verið margbreytilegt eftir aðstæðum.
Með því að smella á hnappinn hægra megin á síðunni sem heitir Fræðslumyndbönd er hægt að skoða myndbönd um fjarverustjórnun og myndbönd um starfsvin. Taka skal þó fram að hér um dönsk myndbönd að ræða sem byggjast á dönskum aðstæðum og vinnureglum og því er ekki endilega um hliðstæðu að ræða við hlutverk starfsvinar eins og VIRK mun kynna þau. Myndböndin eru með íslenskum texta.
Hlutverk starfsvina fara eftir aðstæðum hverju sinni. Sú hugmyndafræði sem VIRK leggur í hugtakið felst til dæmis í því að styðja starfsmann sem er að koma til baka í vinnu á eigin vinnustað eftir langtímaveikindi eða styðja starfsmann sem hefur ekki fulla starfsgetu við að komast inn á nýjan vinnustað. Í fyrra tilvikinu er um að ræða samstarfsfélaga sem styður starfsmanninn en í hinu tilvikinu fer utanaðkomandi manneskja inn með starfsmanninum. Tímalengd stuðningsins fer eftir þörfum hverju sinni.Ástæður þess að vinnustaðir kjósa að hafa starfsvin innan vinnustaðarins geta verið margvíslegar. Til dæmis getur verið um að ræða andleg veikindi, margþætt veikindi, ungt fólk sem hefur ekki fulla starfsgetu og hefur ekki verið í fastri vinnu áður, fólk af erlendum uppruna til að flýta fyrir aðlögun í vinnu og fleira.