Fara í efni

Mikilvægt að stytta boðleiðir

Til baka
Ingibjörg Kristinsdóttir
Ingibjörg Kristinsdóttir

Mikilvægt að stytta boðleiðir

VIRK hefur um skeið átt samstarf við Vinnumálastofnun. Það hefur að sögn Ingibjargar Kristinsdóttur náms- og starfsráðgjafa hjá Vinnumálastofnun gefið mjög góða raun. Hún segir ánægju ríkja með samstarfið.

„Fyrir um ári var ákveðið að koma á teymisfundum milli Vinnumálastofnunar og VIRK. Þessir samráðsfundir hófust í kjölfar góðs samstarfs og var markmiðið að styrkja og formgera sambandið milli VIRK og Vinnumálastofnunar,“ segir Ingibjörg Kristinsdóttir náms- og starfsráðgjafi hjá Vinnumálastofnun.

„Lengi hefur verið samstarf milli þessara aðila. En þessum teymisfundum er ætlað að stytta boðleiðir og sjá til þess að atvinnuleitendur sem eru á skrá hjá okkur komist fyrr í ferli hjá VIRK. Flestir þessara einstaklinga greiða í sitt stéttarfélag. En þó eru nokkrir utan stéttarfélaga, sem hingað til hafa haft möguleika á að komst í ferli hjá VIRK.“

Tvö matstæki notuð

Hvaða ástæða er helst fyrir því að fólki á skrá hjá ykkur er beint til VIRK?
„Einhvers konar heilsubrestur þarf að vera fyrir hendi. Daglega kemur fólk í viðtöl til ráðgjafa hjá Vinnumálastofnun. Ástand einstaklinga getur að sjálfsögðu verið mjög mismunandi og getur bæði verið ástæða atvinnuleysis og afleiðing þess. Þegar vafi leikur á vinnufærni einstaklings og ráðgjafi metur líðan hans þannig að þörf geti verið á sértækari úrræðum, eru notuð matstæki til að meta stöðuna, til viðbótar við ráðgjafarviðtalið. Við notum aðallega tvö matstæki. Annars vegar Heilsutengd lífsgæði, en það skimar fyrir heilsufarsog félagslegum þáttum og hins vegar DASS, sem mælir þunglyndi, kvíða og streitu. Þegar einstaklingur kemur ekki vel út úr svona mati, hefur sögu sem styður niðurstöður matsins og það er mat einstaklings og ráðgjafa að þörf geti verið fyrir sértækari endurhæfingarúrræði, leggjum við mál hans fyrir á teymisfundum með VIRK.“

Beint samband í teymisvinnu

Eru margir sem þurfa á svona aðstoð að halda hjá ykkur?
„Hingað til hafa málefni um þrjátíu einstaklinga farið í gegnum umfjöllun teymisfunda VIRK og Vinnumálastofnunar. Margir þeirra hafa farið á fund sálfræðings á vegum VIRK. Hann metur í samráði við VIRK hvort þeir fari í endurhæfingu hjá VIRK eða hvort önnur úrræði séu heppilegri.“

Hafa þeir einstaklingar sem hér um ræðir fengið vinnu í framhaldi af teymisfundunum?
„Já, einhverjir hafa fengið vinnu í framhaldinu og eru því afskráðir frá Vinnumálastofnun.“

Hvernig finnst þér að þetta samstarf milli VIRK og Vinnumálastofnunar hafi gengið?
„Ráðgjöfum hér hjá Vinnumálastofnun finnst mjög gott að vera í þessu samstarfi. Það hefur gefið afar góða raun. Mjög gott er að geta sagt við atvinnuleitendur, sem koma í viðtal og þurfa á sértækari úrræðum að halda, að mál þeirra verði tekið fyrir á teymisfundi með VIRK. Að því loknu liggi einhver niðurstaða fyrir. Mikilvægt er að boðleiðirnar séu styttri og gripið sé inn í óvinnufærni sem fyrst. Þessi teymisvinna ráðgjafa Vinnumálstofnunar og sérfræðinga VIRK hefur skilað því. Gott er að vera í beinu sambandi við VIRK í þessari teymisvinnu.“

Viðtal: Guðrún Guðlaugsdóttir

Viðtalið birtist í ársriti VIRK 2015.


Fréttir

06.06.2024
30.04.2024

Hafa samband