Fara í efni

Markviss fjarveruskráning mikilvæg forvörn

Til baka
Jónína Waagfjord
Jónína Waagfjord

Markviss fjarveruskráning mikilvæg forvörn

VIRK Starfsendurhæfingarsjóður fór af stað með þróunarverkefnið Virkur vinnustaður í samvinnu við atvinnurekendur árið 2011 en verkefni snýst um forvarnir á vinnustað og endurkomu starfsfólks til vinnu eftir veikindi eða slys. Markmið verkefnisins, sem lýkur í árslok, er að veita stjórnendum og starfsmönnum fræðslu og aðstoð við að móta og innleiða stefnu um velferð og eftirlit með fjarveru. Vinnustaðir bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði taka þátt í verkefninu, heildarfjöldi starfsmanna á þátttökuvinnustöðum eru um 1500.

Einn liður þróunarverkefnisins er samræming skráningar þátttökuvinnustaðanna á fjarveru starfsmanna en reynslan sýnir að unnt er að draga úr fjarvistum með því að skrá fjarveru á skipulagðan hátt þar sem fram koma upplýsingar sem tengjast lengd og tíðni fjarveru. Einnig er mikilvægt að til staðar séu þekktir ferlar um viðbrögð vinnustaðarins við fjarveru bæði til skamms tíma og langs tíma. Áhersla var lögð á jákvæða og heilsusamlega nálgun, með þátttöku stjórnenda og starfsmanna við þarfagreiningu vinnustaðarins og útfærslu á stefnu og leiðum eftir því sem best hentar hverri starfsemi. Innleidd voru fjarverusamtöl bæði fyrir skammtímafjarveru og einnig samtöl um endurkomu til vinnu eftir langtíma veikindi.

Notast var við sérstakt lykiltölublað við skráningu lykiltalna sem VIRK þróaði í samstarfi við vinnustaðina í verkefninu og öllum fyrirtækjum og stofnunum er frjálst að nýta sér. Markviss fjarveruskráning er mikilvæg forvörn sem gerir stjórnendum kleift að koma til móts við þá sem eru mikið fjarverandi og þá koma inn fyrr með aðstoð og lausnir eins og við á til að auðvelda starfsfólki að vera áfram í vinnunni.

Að sögn Jónínu Waagfjord, deildarstjóra hjá VIRK og verkefnisstjóra þróunarverkefnisins, benda bráðabirgðaniðurstöður fengnar með skráningu á lykiltölublaðið til þess að hlutfall fjarveru á íslenskum vinnumarkaði árin 2012 og 2013 (bæði almennum og opinberum) sé um 6.5% af virkum vinnudögum sem er ekki ósvipað því sem það er í löndum sem við berum okkur saman við. Lykiltölum um fjarveru fyrir árið 2014 á vinnustöðum sem eru þátttakendur í verkefninu verður skilað inn til VIRK í byrjun árs 2015 og verða þær kynntar með lokaniðurstöðum þróunarverkefnisins á málþingi sem haldið verður á vordögum.

Sjá lykiltölublaðið hér


Fréttir

18.10.2024
05.11.2024

Hafa samband