Fara í efni

Maður stendur sína pligt

Til baka
Hólmfríður K. Agnarsdóttir
Hólmfríður K. Agnarsdóttir

Maður stendur sína pligt

Aðdragandi þess að Hólmfríður K. Agnarsdóttir leitaði samstarfs við VIRK var að hún greindist með vefjagigt. Áður hafði hún orðið fyrir áföllum og veikindum.

„Ég hafði greinst með brjóstakrabbamein 2004 en yfirvann það, fór í aðgerð, geisla og lyfjagjöf og hóf störf á ný eftir tæpt ár. Slíkt krabbamein er í báðum ættum mínum. Meinið uppgötvaðist á byrjunarstigi. Ég ákvað strax að þetta skyldi ekki setja mig á hnén og var ekki hrædd. En það varð ég aftur á móti þegar ég greindist með krabbamein í móðurlífi árið 2007 – þá varð ég mjög hrædd. Ég fór í aðgerð þar sem móðurlífið og eggjastokkarnir voru fjarlægðir. Þetta var mikil reynsla. Veikindin voru mér erfið að ýmsu leyti, ekki síður fjárhagslega. En það bjargaði miklu hve uppkominn sonur minn reyndist mér frábærlega og studdi mig á öllum sviðum. Einnig hjálpaði að ég var að vinna á gríðarlega góðum vinnustað, í mötuneyti Toyota. Ég hef hvergi unnið þar sem eins vel er hugsað um starfsfólk.“

Árið 2013 benti stéttarfélagið Matvís henni á þjónustu VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs og eftir heimsókn til læknis leitaði hún til ráðgjafa VIRK. „Ráðgjafinn fór með mér yfir hlutina og reyndist mér frábærlega. Við gerðum áætlun um uppbyggingu. Ráðgjafinn lagði til að ég færi í Heilsuborg, það var afskaplega gott ráð. Einnig fékk ég sálfræðitíma hjá Kvíðameðferðarstöðinni. Sálfræðingurinn þar greindi mig með áfallastreituröskun.“

Auk meðferðar hjá sálfræðingi þá voru námskeið í markþjálfun og í markvissri atvinnuleit mikilvægir þættir í áætlun Hólmfríðar til starfsendurhæfingar, sérstaklega þar sem fyrirséð að hún þyrfti að breyta um starfsvettvang, og það tókst Hólmfríði. Að lokinni starfsendurhæfingunni sótti hún um fjölda starfa og eftir aðeins viku var hún komin með starf á leikskóla.

Hólmfríður er mjög ánægð með samstarfið við VIRK. „Ef ég myndi aftur lenda í svona erfiðum aðstæðum ætti ég þá ósk heitasta að geta unnið með VIRK á ný. Að starfsemi VIRK skuli vera til staðar finnst mér magnað. Ég hef borgað í lífeyrissjóð frá 15 ára aldri og sé ekki eftir þeim peningum sem fara í starfsemi VIRK, ég efast ekki um nytsemi þessa starfs.

Ég tel að ég hefði sjálf ekki orðið öryrki til langframa – en ég hefði verið mun lengur að jafna mig ef VIRK hefði ekki notið við. Fólk verður lasið og verður þá að vinna í að láta sér batna. Þar er aðstoð VIRK ómetanleg. Mikilvægt var fyrir mig að ráðgjafinn talaði alltaf við mig á jafnréttisgrundvelli. Hefði hann talað niður til mín hefði ég farið út á stundinni. Slíku hefur maður lent í. Ég réð ferðinni og það var þýðingarmikið. Ég hefði á endanum fengið mér vinnu hvað sem tautaði og raulaði. Ég er alin upp við að maður stendur sína pligt.“ segir Hólmfríður í  viðtali sem sjá má í heild sinni hér.


Fréttir

18.10.2024
05.11.2024

Hafa samband