Fara í efni

Maður staðnar ekki í þessu starfi

Til baka
Eymundur G. Hannesson
Eymundur G. Hannesson

Maður staðnar ekki í þessu starfi

Ráðgjafar VIRK hjá VR eru níu, þar af er einn í Vestmannaeyjum. Fyrir tæpu ári bættist Eymundur G. Hannesson í ráðgjafahóp VIRK hjá VR. Hann er félagsráðgjafi að mennt og hefur starfað sem slíkur um árabil.

„Við tókum inn um þrjú hundruð einstaklinga í samstarf við VIRK á síðasta ári, þetta er stórt stéttarfélag,“ segir Eymundur G. Hannesson ráðgjafi hjá VIRK.

„Í vor var langur biðlisti en nú er ástandið allt annað, þeir sem til okkar leita komast fljótlega að þegar búið er að samþykkja þá inn í samstarf við VIRK. Það er heppilegt. Snemmtæk íhlutun er best. Hins þegar er óeðlilegt að grípa of fljótt inn í. Fólk getur oft verið búið að bjarga ýmsum málum sjálft á hæfilegum biðtíma. Ekki er hægt að alhæfa hve langur tími er æskilegur í hverju tilviki, það fer eftir stöðu mála hjá viðkomandi einstaklingi. En almennt myndi ég segja að ef fólk er komið af vinnumarkaði er æskilegt að skoða hvort aðstoðar sé þörf að þremur mánuðum liðnum.

Allar beiðnir sem til okkar berast eru skoðaðar, hvort þær séu raunhæfar eða ekki. Sé svo er best að ekki líði langur tími þar til starfsendurhæfing hefst. Þetta ferli þarf að vanda vel og þróunin í þeim efnum hefur verið hröð hjá VIRK. Margt hefur breyst síðan ég kom hingað fyrir tæpu ári til betri vegar. Tilfinning mín var þegar ég byrjaði hér að fólkið sem kæmi væri ekki allt tilbúið til endurhæfingar. Það þyrfti kannski að vinna betur í sínu veikindaferli, fá nákvæmari niðurstöður og hvort hægt væri gera eitthvað meira fyrir það í heilbrigðiskerfinu, áður en það kæmi til samstarfs við VIRK.“

Biðtími í heilbrigðiskerfinu stundum langur

Finnst þér að læknar og aðrir vísi full fljótt fólki til VIRK til endurhæfingar?
„Já, stundum sýnist mér það. Hugsanlega gerist þetta vegna þess að viðkomandi fagaðilar skilja ekki nægilega vel eðli þess sem gert er hjá VIRK, þar sem þróunin er sífellt að verða markvissari. Samfara því verður ljósara hvenær ástæða er fyrir VIRK að fara inn í málin. Það þarf að vera búið að greina fólkið vel og gera það sem hægt er að gera í heilbrigðiskerfinu. Loks þarf svo viðkomandi einstaklingur að vera tilbúinn til samstarfsins.

Biðtíminn hjá heilbrigðiskerfinu er stundum alltof langur. Ég tek sem dæmi fólk með ADHD, það þarf oft að bíða skaðlega lengi. Stundum er viðkomandi þá búinn að vera í endurhæfingu í heilt ár þegar greiningin kemur. Þetta er langur biðtími fyrir manneskju sem er utan vinnumarkaðar. Oft vildi maður hafa gleggri læknisfræðilega þekkingu í þessu starfi. En þá sækir maður sér upplýsingar hjá læknum sem starfa í sérfræðingateymi hjá VIRK. Öll mál sem til okkar berast eru skoðuð á sérstökum rýnifundum þverfaglegs teymis í upphafi, og svo síðar með jöfnu millibili.“

Hverjir leita helst til ykkar?
„Fólk sem stríðir við afleiðingar veikinda og slysa eða hefur misst vinnugetu. Í kjölfar slíkra aðstæðna fylgir oft þunglyndi og kvíði. Vefjagigt er mjög algengt vandamál, líka hjá körlum. Stundum er þó erfitt að segja til um orsök og afleiðingu í þeim efnum. Það flækir og málið ef einnig er um að ræða neysla vímuefna.“

Beinið þið fólki í meðferð?
„Já, það getur komið til og þá í samráði við heimilislækni. Heilbrigðiskerfið og VIRK starfa náið saman á ýmsum sviðum.“

Eymundur G. Hannesson er fæddur og uppalinn á Borgarfirði eystra. Hann fór fremur seint í nám en lauk prófi sem félagsráðgjafi frá Háskóla Íslands árið 2003. Hann á áralangan feril að baki sem starfsmaður Félagsþjónustu Reykjavíkur í Mjóddinni, Þjónustumiðstöð Breiðholts eins og það heitir í dag. En skyldi hann fá fleiri karla en konur sem samstarfsaðila í starfi sínu hjá VIRK?

„Hjá Félagsþjónustunni var mikil tilhneiging til þess að beina körlum til mín, ég var oftast eini starfandi karlkyns félagsráðgjafinn í hópi fimmtán slíkra á þeim vinnustað. Ekki get ég sagt að ég finni mun á því að vinna með körlum eða konum í samstarfinu hjá VIRK. En á fyrri vinnustað mínum þurfti oft karl á móti karli til að breyta stöðunni. Vandamálin sem koma inn á borð hjá mér hér eru svipuð að mörgu leyti. Oft eru undirliggjandi erfið félagsleg staða og fjárhagserfiðleikar. En hópurinn sem er í samstarfi við VIRK er miklu fjölbreytilegri. Hér er fólk að koma inn af því það vill komast aftur inn á vinnumarkaðinn. Stundum er þó viljinn til þess tvíbentur. Það er þá okkar verk hér að reyna að móta þann vilja í átt að vinnumarkaðinum.“

Skiptir máli á hvaða aldri fólk er í því sambandi?
„Þetta er einstaklingsbundið. Margt af fólki sem er frá vinnu og komið er um sextugt vill endilega komast út á vinnumarkaðinn á ný. Það er vant að vera í vinnu og vill vera það áfram. Á hinn bóginn eru sumir einstaklingar á þeim aldri orðnir langþreyttir á veikindum. Og hafa kannski haft sig áfram á hörkunni þar til það er ekki hægt lengur. Við slíkar aðstæður er getan og viljinn farinn að brotna. Ungt fólk, sem hefur lítið verið á vinnumarkaði, sér stundum fyrir sér þann möguleika að vera þar ekki. Finnst það dálítið freistandi að vissu leyti. Hefur ekki þróað með sér þann kraft og seiglu sem þarf til að komast yfir erfiðleika og í vinnu.“

Það þarf þorp til að ala upp barn

Eiga ungir karlar erfiðara með að ná fótfestu í samfélaginu en áður var?
„Það virðist vera einhver sjálfsmyndarkreppa hjá slatta af ungum körlum frekar en stúlkum. Kannski vantar þeim karlfyrirmynd. Þeir eiga bæði erfitt með að fóta sig og einnig að leita sér hjálpar. Það kann að hafa áhrif þarna að kynhlutverkin eru ekki eins skýr og þau voru. Svo virðist sem þeir hafi þá misst hlutverk en ekki fengið nægileg í staðinn. En þessir einstaklingar sem hér um ræðir eru þó bara brot af þjóðinni.“

Hvers vegna sækir í þetta farið að þínu mati?
„Hluti af skýringunni er eins og fyrr sagði að karlfyrirmynd skortir í uppeldinu. Þeim fjölgar hratt þeim fjölskyldum þar sem einn aðili er í uppeldishlutverkinu, í flestum tilvikum einstæðar mæður. Ég er þar með ekki að segja að það sé betra þegar karl er í sömu aðstæðum. Þá vantar kvenímyndina. Einn góður rússneskur uppeldisfræðingur sagði að það þyrfti heilt þorp til að ala upp barn. Í samfélagi okkar er vinnan alltaf að fjarlægjast börnin. Fæst börn þekkja vel til starfa foreldranna utan heimilisins. Þau fá ekki þau tækifæri sem áður gáfust í bændasamfélaginu gamla til að starfa með hinum fullorðnu. Fengu að „flækjast í þorpinu og taka þátt“, fengu jafnvel borgað eitthvað fyrir. Slíku samfélagi ólst ég upp í. Nú er þetta liðin tíð að mestu. Ég tel að þetta eigi stóran þátt í sjálfsmyndarkreppu þess hóps sem verst fer í okkar samfélagi. Þetta fólk hefur ekki kynnst vinnu á jákvæðan hátt í nægilegum mæli. Ekki síst á þetta við um drengi. Stúlkur eru betur settar, þær fá gjarnan hlutverk í sambandi við börn og heimilisstörf.“

Koma erfiðleikar vegna uppeldismála inn á ykkar borð?
„Nei, ekki sem slík. Oft er þó um að ræða erfið samskipti innan fjölskyldna sem dýpka vandann sem skapast við að vera ekki á vinnumarkaði. Í slíkum tilvikum nýtist mér vel reynslan frá starfinu við félagsþjónustuna. Í því starfi komu upp svo margbreytileg mál sem sum sneru til dæmis að skilnuðum, forsjármálum og umgengnismálum. Slíkt ástand er hindrun að því markmiði að koma jafnvægi á líf sitt. Eftir slíkar deilur er fólk oft þreytt og þarf sálfræðiaðstoð og sjálfsstyrkingarnámskeið til að komast á beinu brautina aftur. En ef um er að ræða harkalegar deilur, svo sem forræðismál, þá er spurning hvort ekki þurfi að leysa úr því áður en til endurhæfingar hjá VIRK kemur. Séu félagslegar aðstæður þannig að viðkomandi hafi ekki tíma og einbeitingu til að sinna endurhæfingu, þá ætti málið að stoppa áður en það kemur inn á borð til VIRK, að mínu mati. Sé um svona hluti að ræða hitta stundum félagsráðgjafar viðkomandi einstakling áður en tekin er ákvörðun um samstarfið við VIRK. Reynt er þá að beina málum í farveg svo endurhæfing geti hafist. Við reynum að skerpa heildarmyndina og skýra hana, fá viðkomandi til að vinna í sjálfum sér - og hefja svo atvinnuleit þegar hann er tilbúinn til þess.“

Hvað ertu búinn að vera með marga í samstarfi síðan þú hófst störf hjá VIRK?
„Líklega um sextíu manns. Á þessu tæpa ári er ég búinn að útskrifa nokkra. Fáeinir hafa hætt, ekki verið tilbúnir í starfið. Hafi fólk til dæmis ekki þokkalegt húsnæði, sæmilega stöðugt heimili og lágmarks stuðning, þá eru grunnþarfir ekki uppfylltar. Þetta hefur áhrif. Stundum er fjárhagur þeirra sem er á bótum svo bágur að viðkomandi getur ekki nýtt sér þau úrræði sem þörf er á. Veikindi setja strik í slæman fjárhag. Oft er þá of dýrt að sækja sér þjónustu til heilbrigðiskerfisins. Framfærslan á ekki að vera á borði VIRK en við reynum að skoða málin, þegar ástandið er svona. Og vísa því svo til viðkomandi sveitarfélags ef ástæða þykir til.

Við förum einnig talsvert ofan í félagsnet þeirra sem við erum í samstarfi við. Þar er oft brotin staða, einkum ef fólk er að leyna erfiðu ástandi, skömmin yfir að vera ekki á vinnumarkaði einangrar það. Slíka hindrun þarf að yfirstíga. Við hvetjum skjólstæðinga til að hafa sem mest samband við ættingja, vini og gamla samstarfsfélaga. Þetta reynist mörgum erfitt en takist það er sigurinn stór. Það er gaman að útskrifa fólk, tilbúið til að taka þátt í störfum samfélagsins. Eitt er víst, maður staðnar ekki í þessu starfi.“

Viðtal: Guðrún Guðlaugsdóttir

Viðtalið birtist í ársriti VIRK 2015.


Fréttir

18.10.2024
05.11.2024

Hafa samband