Fara í efni

IPS árangur í Laugarásnum

Til baka

IPS árangur í Laugarásnum

VIRK og geðdeild LSH á Laugarásvegi hafa síðan 2012 unnið að uppbyggingu árangursríkrar starfsendurhæfingar fyrir ungt fólk með geðrofssjúkdóma. Samstarfsverkefnið er grundvallað á IPS (Individual Placement and Support) hugmyndafræðinni sem byggir á gagnreyndum aðferðum og felur í sér að fólk fari beint út á vinnumarkað en njóti stuðnings og eftirfylgni frá þverfaglegu teymi.

Rannsóknir sýna t.d. að mun betra sé að hraða atvinnuleit í stað þess að fara í mikla greiningarvinnu og þess vegna m.a. er Hlynur Jónasson atvinnuráðgjafi á vegum VIRK hluti af meðferðarteymi einstaklingsins frá upphafi.

IPS á uppruna sinn í Bandaríkjunum, hefur einnig verið notuð með góðum árangri í Evrópu og VIRK og LSH Laugarási eru fyrst til að innleiða hugmyndafræðina á Íslandi. 

Hér á landi hefur verið lögð áhersla á að sinna einstaklingum með geðrofseinkenni á byrjunarstigi en hugmyndafræðin styður þó almennt við einstaklinga með þyngri geðraskanir og grundvallast á því að heilbrigðisþjónustan, VIRK og vinnuveitendur vinni saman að settu marki.

Mikilvægast er að hver og einn einstaklingur í verkefninu fái góðan og öruggan stuðning sem miðaður er við þarfir hans og að þeir sem fara út á vinnumarkaðinn í kjölfar starfsendurhæfingar í IPS- verkefninu njóta stuðnings þverfaglegs stuðningsteymis.

Vandað stuðningsmódel sem virkar

Samstarf LSH Laugarási og VIRK hefur gengið mjög vel og mikið hefur áunnist. Fast að tuttugu störf hafa orðið til, flestum einstaklingunum hefur gengið vel og langflest starfanna eru enn virk. Eitt þeirra var 6 mánaða bráðabirgðastarf og það má geta þess að einstaklingur sem sinnti því fór í framhaldinu í nám, lauk því og er nú kominn í annað starf sem tengist námi hans.

IPS-verkefnið hefur breyst og þróast eftir því sem störfunum hefur fjölgað en eftirfylgnin og heimsóknirnar á vinnustaði eru enn einn mikilvægasti þáttur verkefnisins. Áríðandi er að fylgja einstaklingi eftir á vinnustað í byrjun og styðja hann í fyrstu skrefunum inn á vinnumarkaðinn. Þá er mikilvægt að fræða atvinnurekendur og stjórnendur á hverjum stað fyrir sig sem þurfa svör við margvíslegum spurningum. Einnig er það uppbyggilegt fyrir vinnustaðinn að vinnufélagar séu að einhverju leyti upplýstir um málið, eins og IPS leggur til.

Virk og LSH Laugarási hefur með IPS-verkefninu tekist að smíða vandað stuðningsmódel fyrir alla fagaðila sem vinna að því sama markmiði að aðstoða ungt fólk með þyngri geðraskanir út á vinnumarkað á ný og leiðbeina þeim við að takast á við áskoranir sem því fylgja og hvernig bregðast skuli við þeim. Það að eignast starfsvettvang og félaga er án nokkurs vafa ein sterkasta hönd sem hægt er að hafa til að leiða sig út í samfélagið á nýjan leik.

Það er að miklu að sækjast að fjölga störfum á meðal ungra langveikra einstaklinga, í því felst mikill ávinningur fyrir samfélagið í heild og með aukinni atvinnuþátttöku leggjum við grunninn að betra og heilbrigðara lífi þeirra og um leið betra samfélagi.  

Atvinna besta meðferðin

Bandaríkjamennirnir Deborah R. Becker og Robert E. Drake, hugmyndasmiðir og frumkvöðlar IPS hugmyndafræðinnar (Individual Placement and Support), sóttu VIRK heim í sumarbyrjun 2015 og fóru yfir grunn IPS hugmyndafræðinnar og tilurð hennar, framkvæmd og skipulag og ræddu hvernig best sé að standa að innleiðingu IPS. Sjá nánar í frétt hér.


Fréttir

18.10.2024
05.11.2024

Hafa samband