Fara í efni

Í vinnu á ný miklu fyrr en hann átti von á

Til baka

Í vinnu á ný miklu fyrr en hann átti von á

Samvinna mannauðsstjóra Mosfellsbæjar, Starfsendurhæfingarsjóðs og sjúkraþjálfara varð til þess að Matthías M. Guðmundsson gat hætt í veikindaleyfi og hafið aftur störf mörgum mánuðum fyrr en hann átti von á.

Það var í janúar síðastliðnum sem Matthías, sem er 65 ára, varð að hætta störfum í íþróttamiðstöð Mosfellsbæjar vegna mikilla verkja í baki. ,,Ég hef verið bakveikur í mörg ár og annað slagið fengið sprautur og verið í sjúkraþjálfun. Það hefur alltaf dugað í einhvern tíma. Ég gat haldið 100 prósenta vinnu þar til í janúar á þessu ári en þá var ég kominn með það mikla verki að ég var gjörsamlega óvinnufær vegna kvala,“ greinir Matthías frá.

Hann kveðst hafa sótt strax um meðferð hjá lækni á sjúkrahúsinu í Stykkishólmi og á Reykjalundi. ,,Það er hins vegar afar löng bið eftir meðferð á þessum stöðum, það getur verið hálfs árs bið eða jafnvel bið í heilt ár. Ég gerði eiginlega ekkert í nokkrar vikur eftir að ég fór í veikindaleyfið en fór þó út að ganga á hverjum degi. Þegar ég hafði verið frá vinnu í um það bil átta vikur hringdi mannauðsstjóri Mosfellsbæjar, Sigríður Indriðadóttir, í mig og boðaði mig á sinn fund.“

Fundurinn með mannauðsstjóranum var mjög gefandi, að sögn Matthíasar. ,,Það var alveg magnað að Sigríður skyldi hafa samband við mig af fyrra bragði og hvetja mig áfram. Hún hafði skilning á veikindum mínum, alveg eins og yfirmenn mínir í íþróttamiðstöðinni, og það var einstaklega gott að ræða við hana. En ég kom alveg af fjöllum þegar hún greindi mér frá þeirri aðstoð sem hægt er að fá hjá Starfsendurhæfingarsjóði. Í framhaldi af þessum fundi okkar hafði ég samband við Karenu Björnsdóttur, ráðgjafa í starfsendurhæfingu hjá BSRB. Karen tók mér jafn vel og Sigríður og hvatti hún mig til þess að gera eitthvað strax í málunum í stað þess að bíða bara eftir plássi þar sem ég hafði sótt um.“

Matthías fékk fjölbreytta aðstoð og stuðning á vegum Starfsendurhæfingarsjóðs sem skipti miklu máli og varð til þess að hann gat hafið störf mun fyrr en hann átti von á.

Matthías segist vera afar þakklátur fyrir alla aðstoðina sem hann hefur fengið. ,,Þetta kom mér virkilega á óvart því að ég hafði ekki hugmynd um þetta. Stofnun Starfsendurhæfingarsjóðs er stórkostlegt framtak. Það eru ekki nærri allir sem vita af þessu en það á væntanlega eftir að breytast þegar þetta spyrst út. Ég hef sjálfur látið alla mína vinnufélaga vita af því sem í boði er. Það er sérstaklega gott að vita af þessu núna í kreppunni því að menn veigra sér kannski við að fara í langa meðferð án slíkrar aðstoðar.“

Hann leggur jafnframt áherslu á að mikilvægt sé að vera í reglulegum samskiptum við vinnustað sinn og vinnufélaga meðan á veikindaleyfi stendur. ,,Að fara í heimsókn að minnsta kosti einu sinni í viku er mikilvægt að mínu mati.“

Viðtalið við Matthías í heild sinni er að finna hér.  Fleiri reynslusögur er síðan að finna hér.


Fréttir

06.06.2024
30.04.2024

Hafa samband