Fara í efni

Verðlaun veitt í samkeppni

Til baka
Vigdís og verðlaunahafarnir
Vigdís og verðlaunahafarnir

Verðlaun veitt í samkeppni

Sól, sálfræði- og læknisþjónusta, Lýðheilsusetrið Ljósbrot og Hitt húsið hlutu verðlaun í hugmyndasamkeppni um þróun starfsendurhæfingarúrræðis fyrir ungt fólk í þjónustu VIRK. Stefnt er að gerð þjónustusamnings til tveggja ára um úrrræði grundvölluð á verðlaunahugmyndunum með möguleika á áframhaldi samstarfi.

Um 20 hugmyndir bárust í hugmyndasamkeppninni sem VIRK stóð fyrir í vor með það að markmiði að fjölga úrræðum fyrir ungt fólk á aldrinum 18-26 ára sem vegna andlegs og/eða annars heilsufarsvanda hefur ekki getað sinnt námi eða starfi. Sérstaklega var óskað eftir hugmyndum sem fela í sér tengsl úrræðis við vinnumarkað og/eða nám og umsjón með einstaklingsmiðaðri áætlun í starfsendurhæfingu.

„Það er mjög ánægjulegt hve margar áhugaverðar hugmyndir skiluðu sér í samkeppninni. Nú liggur fyrir að gera þjónustusamninga um úrrræði grundvölluð á verðlaunahugmyndunum en í framhaldinu munum við líta til fleiri hugmynda.“ sagði Vigdís Jónsdóttir framkvæmdastjóri við verðlaunaafhendinguna. „Áfram munum við vinna markvisst að vð því að tryggja einstaklingum í þjónustu VIRK sem fjölbreyttust starfsendurhæfingarúrræði.“

Neðangreindar tillögur hlutu verðlaun í hugmyndasamkepnnini.

1. Verðlaun - Taktur
Sól, sálfræði- og læknisþjónusta ehf.

Taktur snýst um að sameina díalektíska atferlismeðferð (DAM) og Individual Placement and Support (IPS) nálgun fyrir ungt fólk með geðræna erfiðleika sem þarfnast stuðnings til að komast í nám eða vinnu.

Markmiðið er að nota þessi tvö úrræði saman fyrir einstaklinga sem hafa áhuga á að komast í nám eða starf en þurfa bæði stuðning og hvatningu sérfræðinga við þá áskorun. Samhliða þurfa þeir meðferð og færniþjálfun til að bæta líðan og lífsgæði. Veittur er stuðningur við að skapa framtíðarsýn og vinna markvisst að henni samkvæmt aðferðafræði IPS.

Úrræðið beinist að bráðveikum einstaklingum, varir í 9-12 mánuði og lokatakmarkið er virkni í námi eða starfi.

2. Verðlaun – Pepp upp
Lýðheilsusetrið Ljósbrot

Pepp upp
snýst um dagskrá með skemmtilegum og fræðandi fyrirlestrum einu sinni í viku til að efla þátttakendur. Einstaklingsviðtöl eru reglulega í boði þar sem áhugasvið og hæfni eru greind og veitt hvatning til að ná settum markmiðum.

Á seinni hluta námskeiðsins er unnið með hvernig sækja á um störf eða nám. Markmiðið er að við lok námskeiðsins verði næstu skref þátttakenda skýr, ráðningarsamning liggi fyrir eða skólavist. Starfskynningar verða unnar í samstarfi við Rótarý og fyrirtæki eða skóla sem þátttakendur vilja kynna sér.

Pepp upp felur í sér heildstæða dagskrá í fjóra mánuði og lokatakmarkið er virkni í námi eða vinnu. Úrræðið getur nýst um allt land með aðstoð upplýsingatækni og samstarfi við ráðgjafa í heimabyggð.

3. Verðlaun – Virk vinnustaðanám
Hitt húsið

Virk vinnustaðanám
snýst um að styðja atvinnulaus ungmenni til virkni með því að bjóða þeim á skipulagt námskeið sem styrkir hæfni þeirra til þátttöku í atvinnulífinu. Að námskeiðinu loknu tekur við starfsþjálfun á vinnustað í fjórar vikur, 20 stundir á viku.

Hugmyndin byggir á reynslu Hins hússins af svokölluðum Vítamínnámskeiðum og samstarfi við fyrirtæki í tengslum við þau. Atvinnuráðgjafar Hins hússins annast eftirfylgd meðan á reynsluhluta stendur sem þátttakendum og samstarfsaðilum er kynnt.

Virk vinnustaðanám felur í sér heildstæða dagskrá sem spannar 8-12 vikur. Lokatakmarkið er virkni í námi eða vinnu.


Fréttir

18.10.2024
05.11.2024

Hafa samband