Fara í efni

Fjölbreyttur hópur þjónustuaðila

Til baka
Aðkeypt þjónusta VIRK
Aðkeypt þjónusta VIRK

Fjölbreyttur hópur þjónustuaðila

Við upphaf starfsendurhæfingar hjá VIRK meta einstaklingurinn og starfsendurhæfingarráðgjafi hans stöðuna og gera áætlun um endurkomu inn á vinnumarkað.

Áætlunin er einstök, sniðin að þörfum og getu viðkomandi einstaklings og miðar að því að efla hann og styrkja til aukinnar þátttöku á vinnumarkaði. 

Í framhaldinu pantar starfsendurhæfingaráðgjafinn viðeigandi þjónustu frá fagaðilum í samræmi við áætlunina um endurkomu til vinnu.

Kaup starfsendurhæfingarsjóðsins á þjónustu fagaðila sem nýtist einstaklingum í starfsendurhæfingu fara vaxandi frá ári til árs og námu þau rúmlega 1.304 milljónum króna árið 2018. VIRK á í mjög góðu samstarfi við um 500 þjónustuaðila um land allt. 

Ríflega 100 sálfræðingar starfa með VIRK. Þeir veita einstaklingum með geðrænan og streitutengdan vanda einstaklingsviðtöl og hópmeðferðir sem byggja á gagnreyndum aðferðum.

Með VIRK starfa rúmlega 100 sjúkraþjálfarar sem veita fjölbreytta einstaklings og hópþjónustu fyrir einstaklinga með stoðkerfisraskanir. Þeir styðja auk þess einstaklinga sem vinna að því að gera hreyfingu sem hluta af lífsstíl sínum. Umtalsverð fækkun varð á meðal sjúkraþjálfara frá árinu 2017 þegar um 200 sjúkraþjálfarar störfuðu fyrir VIRK.

Miklar annir eru þessi misserin hjá sjúkraþjálfurum almennt og langir biðlistar hafa myndast. Vonir standa til að sjúkraþjálfurum fjölgi á nýjan leik meðal þjónustuaðila, þar sem umsýsla vegna þjónustupantana er mun skilvirkari í nýju upplýsingakerfi VIRK og þörf einstaklinga í þjónustu VIRK hefur ekki dregist saman.

Um 100 þjónustuaðilar um land allt bjóða upp á ýmsa heilsueflandi þjónustu og má þar nefna líkamsrækt með stuðningi íþróttafræðings eða þjálfara, vatnsleikfimi og jóga.

Fjölmargir fræðsluaðilar og símenntunarmiðstöðvar um allt land veita ráðgjöf og fræðslu sem auka möguleika einstaklinga á vinnumarkaði. Þjónustan felur meðal annars í sér áhugasviðsgreiningar, hæfnigreiningar, raunfærnimat, nám á vottuðum námsleiðum auk fjölmargra styttri námsleiða og námskeiða sem auka möguleika á vinnumarkaði.

Fjöldi þjónustuaðila veitir atvinnutengda þjónustu og má þar helst nefna vinnuprófanir, úttekt og ráðgjöf og stuðning á vinnustað við endurkomu til vinnu sem og úrræði sem miða að því að búa einstaklinga undir atvinnuleit. Að lokum veita fjölmargir fagaðilar ýmsa ráðgjöf og meðferð. Hópur útlendinga leitar einnig til VIRK og er veittur ýmiss sértækur stuðningur fyrir þennan hóp t.d. túlkaþjónusta og íslenskunámskeið.

Þá hefur VIRK átt í farsælu samstarfi við 9 starfsendurhæfingarstöðvar um allt land á undanförnum árum. Samstarfssamningar við starfsendurhæfingarstöðvar er liður í því að tryggja að til staðar sé fagleg þekking og reynsla á sviði starfsendurhæfingar um allt land. Samstarf VIRK og starfsendurhæfingarstöðva byggist m.a. á reglulegum þverfaglegum rýnifundum þar sem farið er markvisst yfir mál einstaklinga sem eru í þjónustu starfsendurhæfingarstöðva á vegum VIRK.

Ofangreint sýnir ljóslega hversu mikilvægur þáttur þjónustuaðilar VIRK eru í starfsendurhæfingu þeirra 2600 einstaklinga sem að jafnaði nýta sér þjónustu VIRK um allt land.

Sjá upplýsandi myndband um starfsendurhæfingarferilinn.


Fréttir

18.10.2024
05.11.2024

Hafa samband