Fara í efni

Aukinn skilningur á fjarveru

Til baka
Valgerður María og Fjóla Kristín
Valgerður María og Fjóla Kristín

Aukinn skilningur á fjarveru

Fjóla Kristín Helgadóttir starfsmannastjóri og Valgerður María Friðriksdóttir aðstoðarstarfsmannastjóri bera samstarfi IKEA og VIRK og þróunarverkefninu Virkur vinnustaður góða sögu.

VIRK fór af stað með þróunarverkefnið í samvinnu við atvinnurekendur árið 2011 en markmið þess var að veita stjórnendum og starfsmönnum fræðslu og aðstoð við að móta og innleiða stefnu um velferð og fjarvistir. Áhersla var lögð á jákvæða og heilsusamlega nálgun, með þátttöku stjórnenda og starfsmanna við þarfagreiningu vinnustaðarins, og útfærslu á stefnu og leiðum eftir því sem best hentar hverri starfsemi.

„Samstarfið við VIRK hefur skilað okkur heilmiklu“ segja Fjóla Kristín og Valgerður María „Það sem okkur finnst standa upp úr hvað þetta þróunarverkefni snertir er fræðslan sem stjórnendur fengu. Hún gerði það að verkum að þeir áttu auðveldara með að ræða fjarveru starfsfólks við það.“

Samvinnan við VIRK varð líka til þess að IKEA skoðaði í auknum mæli hvort eitthvað mætti fara betur í umhverfi vinnustaðarins. „Í gegnum tíðina höfum við þó auðvitað lagfært ýmsa hnökra, svo sem of langar vaktir, of einhæf störf og fleira í þeim dúr. Það ferli var byrjað áður en við fórum í samstarfið við VIRK,“ segir Fjóla Kristín. Ánægja starfsmanna IKEA hafi vaxið almennt á undanförnum árum. „Að töluverðu leyti má eflaust rekja það til aukinnar fræðslu frá VIRK til deildarstjóra. Við greinum nú betur á milli skammtíma- og langtímaveikinda. Nú eru þau flokkuð og úrræðin ólík eftir því hvort um er að ræða fjarveru í skamman tíma eða langan. Stjórnendur eru líka meðvitaðri um þörfina á að hafa samband við langtíma veikan starfsmann og sýna honum þannig áhuga og velvild. Sem og að halda starfsmanninum upplýstum um hvað fram fer á vinnustaðnum.“

Helstu niðurstöður þróunarverkefnisins telja þær vera einkum vera aukin meðvitund meðal stjórnenda IKEA og starfsmanna um áhrif fjarveru, bæði á vinnustaðinn og viðkomandi starfsmann. „Fræðslan hefur skilað sér í að bæði stjórnendur og starfsmenn eru upplýstari um hvað er í boði ef um er að ræða langtíma veikindi. Báðum aðilum er ljósari möguleikinn á samvinnu til að finna leiðir, bæði til að virkja starfsmanninn og að hann verði virkari. Stjórnendur eru öruggari hvað varðar fjarverusamtölin og skilningur milli þeirra og starfsmanna hefur aukist.“ segja Fjóla Kristín og Valgerður María m.a. í viðtali sem birtist í Ársriti VIRK 2015 og sjá má í heild sinni hér.

Nánari upplýsingar um Virkan vinnustað má finna hér.


Fréttir

18.10.2024
05.11.2024

Hafa samband