Fara í efni

Árangur af starfsendurhæfingu

Til baka

Árangur af starfsendurhæfingu

Niðurstöður rannsókna benda til þess að  starfsendurhæfing sé áhrifarík aðgerð til að varna því að fólk „detti varanlega út“ af vinnumarkaði sökum veikinda eða sjúkdóma. 

Snemmbær ráðgjöf á þessu sviði hefur gefið góða raun og er ein mikilvægasta íhlutunin þegar horft er til þess að samræma endurhæfingarferli einstaklinga og ná jákvæðum árangri.  Ráðgjafinn fylgir  einstaklingnum eftir meðan á endurhæfingarferlinu stendur.  Rannsóknir hafa sýnt að árangur starfsendurhæfingar tengist meðal annars því að gott samband myndist  milli ráðgjafans og einstaklingsins og að vel takist til við að vekja og virkja áhugahvöt einstaklingsins  og stuðla að aukinni virkni hans við að  bæta heilsu sína og auka starfsorku.

Fjöldi rannsókna hafa verið gerðar til að meta fjárhagslega hagkvæmni þess  að endurhæfa fólk til starfa eftir slys eða sjúkdóma. Allar benda þær til þess að starfsendurhæfing sé fjárhagslega hagkvæm. Hlutfallslegur ávinningur er misjafn eftir rannsóknum og viðfangsefnum, allt frá því að fyrir hverja einingu fjármuna sem er varið til starfsendurhæfingar, skili tvær einingar sér til baka til samfélagsins í sköttum og framleiðni  (1:2) og  í að fyrir hverja einingu, skili átján sér til baka í sjóði samfélagsins (1:18).  Engin rannsókn sem skoðuð var benti til þess að kostnaður væri meiri en ávinningur.

Starfsmannastefna fyrirtækja, hvað varðar heilsueflingu, forvarnir og öryggi, ásamt vilja til að  auðvelda fólki endurkomu til vinnu  eftir slys eða veikindi,  hefur mikil áhrif á tíðni veikindadaga og vinnuslysa. Í fyrirtækjum sem lögðu  áherslu á þessa þætti var minna um óskir um sjúkradagpeninga og örorku en hjá þeim sem leggja ekki áherslu á þessa þætti í starfsmannastefnu sinni.

(Samantekt úr grein Steven R. Pruett hjá Ohio State University, Empirical evidence supporting the effectiveness of vocational rehabilitation, sem birtist í Journal of Rehabilitation April-June 2008)

 


Fréttir

18.10.2024
05.11.2024

Hafa samband