Atvinnulífstenglar á ferð og flugi
Atvinnulífstenglar á ferð og flugi
Árið 2018 fer af stað með miklum krafti hjá VIRK og deild atvinnulífstengla – Þróun atvinnutengingar – er þar engin undantekning. Atvinnulífstenglum fjölgar jafnt og þétt hjá VIRK, eru nú sex talsins en fjölgar í átta frá og með 1. mars 2018.
Atvinnulífstenglar finna fyrir miklum velvilja fyrirtækja þegar kemur að samvinnu sem skiptir öllu máli í þessari vinnu en um 100 fyrirtæki eru nú í samstarfi við VIRK um að auðvelda endurkomu einstaklinga aftur inn á vinnumarkaðinn eftir langtíma veikindi eða slys.
Um miðjan febrúar höfðu atvinnulífstenglar VIRK komið að ráðningu í 20 störf og nokkur störf eru í ferli. Einstaklingar í þjónustu VIRK hafa verið ráðnir í fjölbreytt störf í janúar og febrúar; kennari, útkeyrsla, móttaka, bókhald, afgreiðsla, smurbrauðsdama, næturvarsla á hóteli, lögfræðistarf, bókasafnsstarf, sölumaður byggingarvörur, þjónn, afgreiðsla snyrtivörur og starf í mötuneyti svo einhver séu nefnd.
Atvinnulífstenglateymið er í samstarfi við fjölda fyrirtækja og vinnur sameiginlega að því að finna rétta staðinn fyrir þá sem nota þjónustuna. Fyrirtækjunum fjölgar jafnt og þétt. sem taka þátt í VIRK Atvinnutenging og skrifa undir samstarfsyfirlýsingu. Atvinnulífstenglar finna vel fyrir því að fleiri þekkja þjónustuna og vilja gjarnan leggja sitt af mörkum til að aðstoða einstaklinga við endurkomu á vinnumarkað.
Atvinnulífstenglar VIRK vinna saman að því að þróa þjónustuna svo hún verði markvissari á sama tíma og ferlar verðir einfaldir. Á stefnumótunardegi deildarinnar var unnin metnaðarfull áætlun með það að markmiði að skilgreina alla ferla betur og stefna að því að sú vinna skili sér beint til þeirra sem nýta þjónustuna.