Alcoa styrkir Starfsendurhæfingu Austurlands
Alcoa styrkir Starfsendurhæfingu Austurlands
Samfélagssjóður Alcoa í Bandaríkjunum hefur ákveðið að styrkja Starfsendurhæfingu Austurlands um um 8,9 milljónir króna á tveggja ára tímabili. Steinþór Þórðarson, framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Alcoa Fjarðaáli, hefur afhent fyrri hluta styrksins.
Markmið Starfsendurhæfingar Austurlands er að aðstoða fólk sem misst hefur vinnu um lengri eða skemmri tíma vegna sjúkdóma, slysa, eða félagslegra aðstæðna og endurhæfa það til vinnu og/eða náms . Mikil áhersla er lögð á að endurhæfingin fari fram í heimabyggð þeirra sem njóta hennar og að stoðir nærsamfélagsins séu nýttar, s.s. heilbrigðiskerfið, félagsþjónustan og mennta- og fræðslukerfið. Starfsemi Starfsendurhæfingu Austurlands fer fram á þremur stöðum, á Egilsstöðum, Reyðarfirði og Höfn. Alls nýta um 50 manns þjónustu endurhæfingarinnar. Erla Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Starfsendurhæfingarinnar, segir styrkinn viðurkenningu á þeirri starfsemi sem endurhæfingin stendur fyrir „og hann rennir stoðum undir enn fjölbreyttari starfsemi sem kemur þátttakendum okkar og samfélaginu til góða,“ segir Erla.
Samfélagssjóður Alcoa var stofnaður fyrir 56 ára árum og hefur frá upphafi veitt yfir 490 milljónir Bandaríkjadala (71 milljarð króna) til samfélagslegra verkefna um allan heim, þar sem fyrirtækið er með starfsstöðvar.