Fara í efni

Aðstoðin veitti mér von um bata

Til baka

Aðstoðin veitti mér von um bata

Fyrir einu og hálfu ári gat ung móðir á Vestfjörðum ekki haldið á nýfæddu barni sínu án þess að finna fyrir miklum sársauka. Nú er unga móðirin á batavegi og á leið í nýja vinnu. Hún segir aðstoðina og hvatninguna frá Starfsendurhæfingarsjóði eiga stóran þátt í því.

,,Ég fór að finna fyrir miklum sársauka í hálsi í apríl 2009 þegar ég var heima í fæðingarorlofi með ungbarn á handleggnum. Verkurinn leiddi síðan niður í hægri öxl og handlegg. Ég greip til þess ráðs að sitja sem mest með barnið í fanginu og hafa það í poka framan á mér til þess að hlífa handleggnum,“ segir unga móðirin sem ekki vill koma fram undir nafni.  Hún segir álagið á hægri handlegg reyndar hafa verið mikið áður en hún fór að bera barnið á handleggnum. ,,Ég vann á skrifstofu og gerði allt með hægri hendi í vinnunni. Aðstaðan á vinnustað hefði einnig mátt vera betri.“

Táraðist við að hræra í pottunum
Þegar henni leið sem verst táraðist hún þegar hún var að hræra í pottunum, að því er hún greinir frá. ,,Ég fór fljótlega til heimilislæknis sem skrifaði upp á verkjalyf og ég tók þau inn af og til auk þess sem ég fór í fjölda nuddtíma og til sjúkraþjálfara.“

Í febrúar síðastliðnum fór unga konan að vinna á ný. ,,Ég byrjaði í hálfu starfi en kveið mikið fyrir vegna aðstöðunnar sem var ekki nógu góð. Ég var beinlínis skelkuð við tilhugsunina um hvernig þetta yrði. Ég var hrædd um að mér myndi versna og sú varð raunin. Verkirnir voru viðvarandi þótt ég tæki inn verkjalyf og færi í nudd og sjúkraþjálfun,“ segir hún.

Síðastliðið vor, eða um einu ári eftir að hún kenndi sér fyrst meins, leitaði hún til bæklunarlæknis sem sendi hana í myndatöku. ,,Þá kom í ljós að ég var ekki bara með bólgu í öxl, heldur voru nabbar farnir að vaxa út úr efsta hálsliðnum. Þeir þrýstu á taugar með þeim afleiðingum að ég fann fyrir sársauka alveg niður í fingur.  Bæklunarlæknirinn mælti með því að ég héldi áfram í æfingum hjá sjúkraþjálfara og færi í tog hjá honum eða til kírópraktors þar sem ég var orðin svo stirð í hálsinum. “

Gat ekki snúið höfðinu
Unga konan sá fram á gríðarleg útgjöld vegna meðferðar hjá kírópraktor fyrir sunnan og leitaði þess vegna til stéttarfélags síns til þess að kanna stöðu sína og mögulega þátttöku þess í  kostnaði vegna meðferðarinnar . ,,Formaður stéttarfélagsins benti mér þá á að ræða við Fanneyju Pálsdóttur, ráðgjafa í starfsendurhæfingu hjá stéttarfélögunum á Vestfjörðum. Hún sagði mér að Starfsendurhæfingarsjóður myndi greiða fyrir meðferðina hjá kírópraktornum fyrir mig. Þessi meðferð, sem ég fór í í júlí síðastliðnum, bjargaði mér alveg. Ég var orðin svo stirð í hálsinum að ég gat ekki snúið höfðinu til hliðar. Núna er þetta allt annað og ég er farin að geta notað handlegginn við öll dagleg störf. Þar sem ég var hætt að beita honum höfðu vöðvarnir rýrnað og nú er ég að byggja þá upp með því að gera æfingar sem sjúkraþjálfarinn kenndi mér. Ég fæ einnig sprautur í öxlina og hálsinn hjá heimilislækni mínum.“


Stuðningurinn styrkti mig andlega
Aðstoðin frá Starfsendurhæfingarsjóði og hvatningin frá ráðgjafanum skiptu sköpum í bataferlinu, að mati ungu konunnar. ,,Fanney fékk sjúkraþjálfara til þess að taka út vinnuaðstöðuna hjá mér en hún hafði einnig sjálf leiðbeint mér varðandi slíkt. Þessi úttekt var mér að kostnaðarlausu og allur stuðningurinn styrkti mig mikið andlega. Það er nefnilega ákaflega slítandi að vera alltaf með verki og vakna á næturnar vegna þeirra. Ég er ekki alveg verkjalaus núna en ég er miklu betri. Ég er enn með barnið á handleggnum og það flýtir ekki fyrir batanum en ég hef fulla trú á að ég verði góð með því að vera þolinmóð og gera æfingar. Ég er þrjósk að eðlisfari og ætla að ná enn betri heilsu. Það verður þó fylgst með nöbbunum og mögulega þarf að fjarlægja þá.“

Unga konan er búin að fá nýtt starf og hún kveðst hlakka mikið til að byrja á nýja vinnustaðnum. ,,Ég er laus við hræðsluna sem fylgdi því að byrja aftur í hinni vinnunni. Aðstaðan á nýja vinnustaðnum er miklu betri auk þess sem hvatningin og aðstoðin frá Starfsendurhæfingarsjóði hefur stappað í mig stálinu. Nú hef ég von um bata.“


Fréttir

05.11.2024
18.10.2024

Hafa samband