Fara í efni

Virkur vinnustaður – velferð og viðvera á vinnustöðum

Til baka

Virkur vinnustaður – velferð og viðvera á vinnustöðum

Haustið 2011 fór VIRK Starfsendurhæfingarsjóður af stað með Virkan vinnustað, metnaðarfullt 3ja ára þróunarverkefni um forvarnir á vinnustað og endurkomu einstaklinga til vinnu eftir veikindi eða slys. VIRK var umsjónar- og ábyrgðaraðili verkefnisins en fulltrúar frá aðilum vinnumarkaðarins sátu í stýrihópi þess. 12 fyrirtæki og stofnanir tóku þátt í verkefninu, um 30 vinnustaðir innan mismunandi starfsgreina, svo sem verslunar og þjónustu, fræðslu- og heilbrigðisstarfsemi, framleiðslustarfsemi og fiskiðnaðar.

Virkur vinnustaður var fyrst og fremst forvarnarverkefni sem kannaði og prófaði leiðir sem aukið gætu vellíðan starfsmanna á vinnustaðnum, minnkað fjarveru og auðveldað þeim endurkomu til vinnu eftir langtíma veikindi. Einn liður í því var að safna tölum um fjarveru vegna veikinda í þar til gert lykiltöluskjal. Nákvæm eftirfylgni með þessum tölum gerir stjórnendum/yfirmönnum kleyft að greina þá starfsmenn sem eiga erfitt með að mæta í vinnu af ýmsum ástæðum, koma til móts við þá og aðstoða eftir þörfum t.d. með því að breyta verkefnum, vinnuferlum, vinnutíma o.s.frv. og minnka þannig líkurnar á langtíma fjarvistum vegna veikinda.

Þróunarverkefnið hafði einnig það að markmiði að styðja við og skapa aðstæður fyrir árangursríka endurkomu til vinnu eftir langtíma veikindi. Lögð var áhersla á að þátttökuvinnustaðir gerðu starfsfólki kleift að koma til baka í skert starfshlutfall og vinna sig upp í aukið vinnuhlutfall eftir því sem heilsan leyfði.

Vinnustaðir sem tóku þátt í þróunarverkefninu hófu verkefnið á stefnumótandi greiningu sem allir starfsmenn tóku þátt í. Verkefnahópur var skipaður í framhaldinu sem fullvann fjarverustefnu fyrirtækisins eða vinnustaðarins. Fjarverustefnan var síðan samþykkt af stjórnendum, kynnt fyrir starfsmönnum og innleidd.

Viðamikil fræðsluáætlun bæði fyrir starfsfólk og stjórnendur var mikilvægur þáttur verkefnisins til að tryggja að forvarnagildi fjarverustefnunnar skilaði sér inn á vinnustaðinn. Hluti fræðslunnar fólst í innleiðingu sérstakra fjarverusamtala, markvissu tæki til að hafa áhrif á skammtíma- og langtíma fjarveru. Þá var í upphafi og lok þróunarverkefnisins gerð vinnustaðagreining auk þess sem lykiltölum fjarveru var safnað öll þrjú árin hjá hverjum vinnustað fyrir sig og þær dregnar saman að því loknu.

Þróunarverkefninu Virkum vinnustað lauk í árslok 2014 og niðurstöðurnar voru kynntar á málþingi 5. maí 2015 þar sem þátttakendur lýstu almennt yfir ánægju með verkefnið, töldu það mikilvægt og að helstu markmið hafi náðst.

Á málþinginu var undirstrikað að ekki væri hægt að yfirfæra niðurstöður söfnunar á lykiltölum fjarveru almennt yfir á opinberan og almennan vinnumarkað því fjöldi og gerð fyrirtækja og stofnanna sem tók þátt í verkefninu var takmarkaður og starfsmannahópurinn sem til skoðunar var einsleitur. Sem dæmi má nefna að konur eru þrír fjórðu hlutar þátttakenda og 70% af þeim voru á opinbera vinnumarkaðinum, flestar á leikskólum og sjúkrastofnunum þar sem veikindi hafa oft verið meiri en á öðrum opinberum vinnustöðum, sem takmarkar mjög yfirfærslugildi talnanna.

Þátttakendur í Virkum vinnustað voru sammála um mikilvægi þess að innleiða öfluga fjarverustefnu með skýrum viðmiðum um fjarveru sem gildi fyrir alla starfsmenn. Fjarverustefnan þurfi að vera virk, henni þurfi að framfylgja og stjórnendur gegna mikilvægu hlutverki því eins og nýlegar rannsóknir undirstrika þá getur gott samband við stjórnanda/yfirmann dregið úr bæði skammtíma og langtímafjarveru starfsmanna.

 Nánari upplýsingar um Virkan vinnustað má sjá hér.


Fréttir

05.11.2024
18.10.2024

Hafa samband