Fara í efni

Úrræði í atvinnutengdri starfsendurhæfingu

Til baka

Úrræði í atvinnutengdri starfsendurhæfingu

Ásta Sölvadóttir sviðsstjóri úrræða, forvarna – verkefnastofu hjá VIRK


Ytri þjónustuaðilar í starfsendurhæfingu gegna veigamiklu hlutverki í þjónustu VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs og segja má að gott samstarf við fagaðila um allt land leggi hornstein að árangursríkri starfsendurhæfingu.

Úrræði í starfsendurhæfingu hjá VIRK byggja ávallt á einstaklingsmiðaðri þjónustu við hvern og einn þjónustuþega og skulu þau byggja á fagmennsku og gagnreyndum aðferðum sem líkur eru á að skili árangri. Þess er gætt við val á úrræðum að tryggja fjölbreytni í takti við þarfir einstaklinga í þjónustu hverju sinni.

Þróun útgjalda vegna aðkeyptrar þjónustu frá samstarfsaðilum

Kaup á úrræðum jukust lítillega milli ára og námu þau 1.778 milljónum króna eins og sjá má á mynd 1. Myndin sýnir þróun útgjalda vegna aðkeyptrar þjónustu á föstu verðlagi. Í árslok 2023 voru rúmlega 500 þjónustuaðilar með virkar pantanir í upplýsingakerfi VIRK sem er svipaður fjöldi og árið á undan. Á árinu voru gerðar tæplega 24 þúsund pantanir á úrræðum í upplýsingakerfi VIRK í samanburði við rúmar 21 þúsund pantanir árið á undan. Pöntunum fjölgar í takt við fjölda einstaklinga í þjónustu.

Skipting þjónustuaðila

Fjölmennasti hópur þjónustuaðila er sem fyrr sálfræðingar en VIRK var í samstarfi við 160 sálfræðinga eða fyrirtæki tengd sálfræðiþjónustu á árinu 2023. Fast á hæla sálfræðinga koma sjúkraþjálfarar en VIRK var í samstarfi við 129 aðila tengdum sjúkraþjálfun. Þriðji fjölmennasti hópur meðal þjónustuaðila var í flokknum heilsuefling og líkamsrækt eða 114 aðilar.

Þá hefur orðið talsverð aukning í kaupum á úrræðum hjá þjónustuaðilum sem bjóða upp á ráðgjöf og þjónustu sem eykur daglega virkni og stuðlar að félagslegri kjölfestu einstaklinga, en um er að ræða fagaðila sem sinna margskonar einstaklingsbundinni ráðgjöf til einstaklinga, t.d. iðjuþjálfun, félagsráðgjöf, næringarráðgjöf, náms- og starfsráðgjöf, fíkniráðgjöf, fjölskylduráðgjöf o.fl. Þá býður fjölbreyttur hópur þjónustuaðila upp á úrræði sem stuðla að aukinni þátttöku einstaklinga en um 40 fræðslu- og símenntunaraðilar veittu ráðgjöf og fræðslu sem eykur möguleika á vinnumarkaði.

Árlega bætast nýir samstarfsaðilar í raðir þjónustuaðila og stöðugar umbætur eiga sér stað við þróun úrræða í takti við þarfir einstaklinga í þjónustu hverju sinni.

Árlega bætast nýir samstarfsaðilar í raðir þjónustuaðila og stöðugar umbætur eiga sér stað við þróun úrræða í takti við þarfir einstaklinga í þjónustu hverju sinni. Sérfræðingar VIRK funda með þjónustuaðilum eftir þörfum vegna þróunar nýrra úrræða og heldur úrræðasvið VIRK utan um þau samskipti.

Fjarúrræðum fjölgaði talsvert á Covid árunum og er slík fjarþjónusta komin til að vera í úrræðaflóru VIRK. Ráðgjafar VIRK á andsbyggðinni og þjónustuþegar sem búa í dreifbýli eða utan höfuðborgarsvæðisins eru sérlega ánægðir með betra aðgengi að ýmsum sértækum úrræðum. Eins hafa þjónustuaðilar sem búa utan höfuðborgarsvæðisins aðgengi að stærri markhópi, þar sem þjónustuaðilar sem bjóða upp á fjarþjónustu eru staðsettir um land allt. Þjónustuaðilar sem vilja bjóða upp á einstaklingsviðtöl í gegnum fjarheilbrigðisþjónustu þurfa að sækja um starfsleyfi hjá embætti landlæknis áður en opnað er fyrir slíka þjónustu hjá VIRK.

Útlendingum fjölgar í þjónustu VIRK og mikilvægt að til séu úrræði við hæfi fyrir þann hóp. Áfram verður lögð áhersla á þróun úrræða fyrir útlendinga á árinu. Veita þarf þjónustu við hæfi, tækifæri til að læra og tala íslensku og fjölga tækifærum til atvinnuþátttöku.

Þá mun VIRK veita starfsendurhæfingarstöðvum handleiðslu vegna innleiðingar á hugmyndafræði IPS (Individual placement and support), en um er að ræða gagnreynda aðferðafræði sem hefur skilað góðum árangri við að aðstoða einstaklinga sem hafa þörf fyrir sértækan stuðning við að komast í vinnu á almennum vinnumarkaði.

Hlutfallsleg skipting útgjalda á árinu 2023 vegna aðkeyptrar þjónustu

Mynd 2 sýnir hlutfallslega skiptingu útgjalda vegna aðkeyptrar þjónustu frá samstarfsaðilum á árinu 2023. Hæstri fjárhæð er varið til kaupa á sérhæfðum starfsendurhæfingarúrræðum hjá starfsendurhæfingarstöðvum um land allt, um 49% útgjalda. 33% fjárhæðar er varið til kaupa á sálfræðiþjónustu og úrræða á sviði sjálfseflingar. Úrræði tengd hreyfingu og sjúkraþjálfun nema samtals um 11%.

Mikilvægi góðra samskipta

Sérfræðingar og ráðgjafar VIRK eru í miklum daglegum samskiptum við þjónustuaðila um allt land og innan VIRK er sérstakt úrræðasvið sem sér um að halda utan um öll keypt úrræði auk þess að skipuleggja eftirlit með þeim og stuðla að þróun og nýjungum í takt við þarfir þjónustuþega á hverjum tíma.

VIRK kaupir einungis úrræði sem flokkast geta sem hluti af formlegri starfsendurhæfingu og veitt eru af fagaðilum með tilskilin réttindi enda er um viðkvæma þjónustu að ræða. Allir þjónustuaðilar þurfa að skrifa undir trúnaðaryfirlýsingu áður en samstarf við VIRK getur hafist. Gerðir eru samstarfs- og rammasamningar við stærstu þjónustuaðila VIRK. Gerðar eru ákveðnar hæfniskröfur til þjónustuaðila og þurfa þeir að senda nauðsynleg fylgigögn í gegnum upplýsingakerfið í upphafi samstarfs. Hægt er að uppfæra fylgigögn eftir þörfum.

Samskipti við þjónustuaðila fara mikið fram í gegnum upplýsingakerfi VIRK. Þar óska þjónustuaðilar eftir því að selja VIRK úrræði og senda nauðsynleg fylgigögn tengd úrræðum til samþykktar. Allar pantanir eru síðan rafrænar í gegnum kerfið og þar þurfa þjónustuaðilar að koma á framfæri ýmsum upplýsingum til ráðgjafa, atvinnulífstengla og sérfræðinga VIRK í starfsendurhæfingarferlinu. Samþykkt reikninga frá þjónustuaðilum og eftirlit með þeim á sér líka stað í gegnum upplýsingakerfið.

Góð samskipti þjónustuaðila, einstaklinga, ráðgjafa, atvinnulífstengla og sérfræðinga VIRK gegna lykilhlutverki í árangursríkri starfsendurhæfingu. 

Góð samskipti þjónustuaðila, einstaklinga, ráðgjafa, atvinnulífstengla og sérfræðinga VIRK gegna lykilhlutverki í árangursríkri starfsendurhæfingu. Samvinna fagaðila og endurgjöf frá þjónustuaðilum um framgang meðferða, skil á greinargerðum, lokaskýrslum og upplýsingum um ástundun í úrræði stuðla að markvissri starfsendurhæfingarþjónustu sem tekur mið af færni og hindrunum hvers og eins með það að markmiði að stuðla að endurkomu einstaklinga á vinnumarkað.

Nýtt útlit á síðum þjónustuaðila

Á árinu 2024 munu „Mínar síður“ þjónustuaðila í upplýsingakerfi VIRK fá nýtt útlit. Markmiðið er að gera umhverfið notendavænna fyrir þjónustuaðila og verður umhverfið endurskrifað í nýrri tækni sem á að auka hraða og er skalanleg á mismunandi skjáum/snjalltækjum.

Grein úr ársriti VIRK 2024.


Fréttir

27.04.2024
30.05.2024

Hafa samband