Tilgangur Starfsgetumats
Tilgangur Starfsgetumats
Hans Jakob Beck yfirlæknir VIRK og sviðsstjóri þróunar starfsgetumats og greininga
Örorka er ekki einfalt hugtak í lögum, en í daglegu tali er oftast átt við þá örorku sem Tryggingastofnun metur út frá staðli sem fenginn var frá Bretlandi árið 1999 og staðið hefur óbreyttur síðan.
Þar er 75% örorka einfaldlega skilgreind sem tiltekinn stigafjöldi úr spurningalista sem umsækjandi svarar (Læknablaðið). Í lögum stendur svo, að þeir sem metnir séu til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eigi rétt á örorkulífeyri, að öðrum skilyrðum uppfylltum, en þeir sem metnir séu til 50-74% örorku geti sótt um svokallaðan örorkustyrk (nú um 32 þúsund kr. á mánuði), en þeir eiga ekki rétt á örorkulífeyri. Rætt hefur verið um að breyta þessu kerfi og taka upp starfsgetumat í stað örorkumats og þrepaskipta örorku, svo 50% örorka gefi rétt til 50% örorkulífeyris. En hvers vegna eru slíkar hugmyndir komnar fram og hver er eiginlega munurinn á starfsgetumati og örorkumati?
Munurinn á starfsgetumati og örorkumati
Starfsgetumat felur í sér að reynt er að meta getu einstaklingsins til launaðra starfa, fremur en að meta einvörðungu læknisfræðilega skerðingu, eins og gert er í örorkumati. Það felur því í sér að meta styrkleika einstaklingsins jafnt sem skerðingar. En starfsgetumat getur líka falið í sér að leita að þáttum sem hægt er að bæta með endurhæfingu eða þætti sem hægt er að koma til móts við með aðlögun og stuðningi, svo viðkomandi geti unnið. Starfsgetumat er því miklu víðtækara fyrirbæri en örorkumat, sem einvörðungu er notað til að meta rétt til örorkubóta. Það mat sem fram fer í VIRK hvort sem er í upphafi þjónustu eða af hálfu sérfræðinga er eitt form starfsgetumats, notað til að setja markmið, semja endurhæfingaráætlanir og leiðbeina um íhlutanir. Formlegt starfsgetumat fer hins vegar fram á vegum VIRK ef einstaklingur lýkur þjónustu án þess að markmiðum um vinnuþátttöku hafi verið að fullu náð. Markmiðið er að meta hvar viðkomandi stendur varðandi vinnugetu og horfur, en ekki meta rétt einstaklingsins til bóta eða lífeyris, því það er ekki hlutverk VIRK. Sá aðili sem greiðir einstaklingi tekur um það sjálfstæða ákvörðun á grundvelli eigin reglna. Slíkt starfsgetumat hjálpar hins vegar við að meta hversu líklegt sé að einstaklingur komist til vinnu síðar og hvað kunni að hjálpa til í því efni og hvaða þætti þurfi að hafa í huga frá heilsufarslegu sjónarmiði, t.d varðandi eðli verkefnanna eða álag.
Ólíkar aðferðir við starfsgetumat
Mat á starfsgetu hefur verið að ryðja sér til rúms víða um lönd á undanförnum árum. Samanburður á kerfum milli landa er þó ekki einfaldur því hvert land hefur sinn háttinn á starfsgetumati enda eru réttindaog bótakerfin mjög ólík. En alls staðar er markmiðið það sama, að auka virkni og endurkomu þeirra á vinnumarkað sem hafa dottið úr vinnu vegna heilsufarsvanda, eða í síauknum mæli, hafa aldrei komist inn á vinnumarkað. Danmörk, Svíþjóð og Holland eru lönd sem meðal annars er litið til vegna árangurs við að koma fólki aftur til vinnu eftir veikindi eða slys. Þó aðferðirnar séu ólíkar eru það heildstæð kerfi framfærslu, mats og endurhæfingar sem skila bestum árangri eins og fram kemur í grein Guðrúnar R. Jónsdóttur á vef VIRK.
Í Hollandi er lögð áhersla á að hefja fljótt aðgerðir sem miða að endurkomu til vinnu og óvíða er ábyrgð vinnuveitenda meiri á starfsmönnum í veikindum, því starfsmenn eru á veikindalaunum í allt að 2 ár. Þegar eftir 6 vikna veikindi fer fram greining læknis eða annars sérfræðings með tilliti til starfsendurhæfingar og gerð er áætlun um endurkomu til vinnu. Hafi einstaklingar ekki náð fullri vinnugetu eftir 2 ár fer fram starfsgetumat sem gert er af sérhæfðum læknum og fagaðilum. Niðurstöður læknisins eru metnar af atvinnumarkaðssérfræðingum til tiltekinna starfa og miðast örorkubætur við mismun fyrri launa og áætlaðra launa til þeirra starfa sem hann telst hafa getu til að sinna. Ef starfsgeta er hins vegar ekki til staðar miðast bætur við 75% af fyrri launum viðkomandi.
Í Svíþjóð greiða atvinnurekendur á hinn bóginn aðeins veikindalaun í 14 daga, en þá tekur sænska tryggingastofnunin (Försäkringskassan) við og greiðir 80% af launum, en aðeins að vissu hámarki, sem ekki er ýkja hátt. Reynt er að tengja fólk sem raunhæft er að verði vinnufært við vinnumarkaðinn aftur, en þegar veikindaleyfi fer að ná 180 dögum fer fram starfsgetumat með það að markmiði að meta færni einstaklings og tengja það við almennar kröfur á vinnumarkaði, m.a. með upplýsingabanka um kröfur sem ýmis störf fela í sér og áfram er markmiðið að styðja fólk til starfa, sem það kynni að geta sinnt þrátt fyrir skerta starfsgetu. Aðeins þegar fullreynt þykir að einstaklingur komist til starfa er farið að íhuga örorku.
Í Danmörku greiðir vinnuveitandi laun í 21 dag í veikindum starfsmanns en eftir það ríki og sveitarfélag til helminga. Að liðnum 4 vikum án endurkomu til vinnu er einstaklingur metinn í áhættuhópi fyrir langtímaveikindi og kemur málið þá til kasta ráðgjafa hjá vinnumálastofu sveitarfélagsins (Jobcenter) sem kortleggur stöðu einstaklingsins og metur þörf á stuðningi. Byrjað er á einfaldari íhlutunum, en ef þurfa þykir er beðið um starfsgetumat sérfræðilæknis eða nánara mat þverfaglegs teymis. Meðal úrræða sem boðið er upp á er endurhæfing og hlutastörf á vinnumarkaði með stuðningi hins opinbera.
Í öllum þessum löndum hefur verið horfið frá því að meta yngra fólk til örorku, nema um verulega skerðingu sé að ræða og sáralitlar líkur á atvinnuþátttöku. Þannig er almenna aldurstakmarkið fyrir örorku 30 ár í Svíþjóð og 40 ár í Danmörku, en þá er annað form framfærslu notað í stað örorku.
Hvers vegna er örorkumat á undanhaldi?
Hugmyndin um örorku varð til við aðrar aðstæður, á tímum þegar starfsgeta takmarkaðist öðru fremur af líkamlegri getu og talið var að heilsuvandinn væri varanlegt ástand. Nú á dögum er miklu algengara að skert starfsgeta stafi af álagstengdum og geðrænum vanda sem hæpið er að fullyrða að sé varanlegur. Mönnum er nú ljóst að sjúkdómurinn sjálfur eða heilsufarsástandið gefur takmarkaða mynd af getu einstaklings til virkni og starfa, en getan er í eðli sínu fjölþætt og ræðst þar að auki af mörgum öðrum þáttum en heilsu einstaklingsins í þröngum skilningi. Auk þess er einhver breytileiki yfirleitt til staðar, því með endurhæfingu má auka færnina og hún getur aukist með tímanum vegna bættrar heilsu eða breyttra aðstæðna. Og til að meta getu þarf að taka tillit til krafna og kröfur til starfa eru afar misjafnar og þar með geta einstaklingsins til að sinna ólíkum störfum. Það hefur einnig orðið vitundarvakning um skaðleg áhrif óvirkni og hliðsetningar; vinna, þátttaka og virkni hefur ótvíræð jákvæð áhrif á heilsu og lífsgæði einstaklingsins og er um leið jákvæð fyrir samfélagið allt. (OECD)
Reynsla og lærdómur margra þjóða hefur því leitt af sér kerfisbreytingu, þar sem lögð er áhersla á gera kerfið heildstætt með hámarks atvinnuþátttöku einstaklinganna að markmiði. Til að bæta íslenska kerfið er þróun og innleiðing starfsgetumats mikilvægur þáttur, samhliða þeirri byltingu í starfsendurhæfingu sem orðið hefur með tilkomu VIRK. Jafnframt þarf að hvetja og styðja atvinnulífið til að taka þátt í slíkri breytingu og bæta möguleika þess til að taka við starfsmönnum með skerta starfsgetu. En ekki síður þarf tryggingakerfi sem styður þessi markmið, t.d. með því að gera fólki kleift að fá hálfar örorkubætur á móti skertu vinnuframlagi og þar af leiðandi skertum launum.
Samþætting endurhæfingar, atvinnustuðnings og tryggingakerfis eru leiðir að markmiðinu um aukna atvinnuþátttöku og virkni einstaklinganna, en starfsgetumatið er á hinn bóginn eitt mikilvægasta tækið til að gera kerfið heildstætt og árangursríkt.
Greinin birtist í ársriti VIRK 2017 - sjá fleiri áhugaverðar greinar úr ársritinu hér.
Heimildir
Halldór Baldursson, Haraldur Jóhannsson. Nýr staðall fyrir örorkumat á Íslandi. Læknablaðið 1999:85 bls. 480-483.
OECD. Sickness, Disability and Work: Breaking the barriers: a synthesis of findings across OECD countries, Paris: OECD, 2010