Fara í efni

87% telja VIRK hafa aðlagað þjónustuna vel vegna COVID

Til baka

87% telja VIRK hafa aðlagað þjónustuna vel vegna COVID

Þegar þjónustuþegi lýkur starfsendurhæfingu hjá VIRK þá býðst honum að taka þátt í þjónustukönnun þar sem hann er beðinn um að svara spurningum um þjónustuna og einstaka þætti hennar.

Frá marsmánuði 2020 hefur verið spurt sérstaklega í þjónustukönnunni að því hversu vel eða illa þjónustuþegum finnst VIRK hafa að aðlagað þjónustuna að þörfum þeirra á tímum Covid-19 faraldursins. 87% þeirra sem svöruðu telja að VIRK hafi tekist vel að aðlaga þjónustuna eins og sjá má á myndinni hér til hliðar.

Ánægja með þjónustu og meðmælaeinkunn mjög há

Í þjónustukönnuninni kom einnig fram að 87% þjónustuþega eru ánægð með þjónustu VIRK, 7% hvorki né, en 6% óánægð með þjónustuna eins og sjá má í myndinni hér að neðan.

Þegar þjónustuþegar voru spurðir hversu líklegt eða ólíklegt þeir væru til að mæla með VIRK við vini eða kunningja á (á skalanum 0-10), gaf meirihlutinn (59%) VIRK hæstu einkunn eða 10. Meðmælaeinkunn VIRK er +62 (á kvarðanum -100 +100) og telst það mjög há einkunn á íslenskan mælikvarða.

Þá telur góður meirihluti, eða 8-9 af hverjum 10 þátttakendum í þjónustukönnuninni, VIRK standa sig vel í að veita réttar upplýsingar, leysa vandamál og að finna úrræði í samræmi við þarfir þeirra.

Mikil ánægja með ráðgjafa

Mikill meirihluti, eða 9 af hverjum 10 þátttakendum í þjónustukönnuninni, eru ánægðir með starfsendurhæfingarráðgjafa sinn.

Almennt kemur fram í þjónustukönnunum VIRK að þjónustuþegarnir telja að þjónusta VIRK hafi haft mikil áhrif á stöðu þeirra. Við lok þjónustu sé sjálfsmynd þeirra sterkari, starfsgeta meiri og líkamleg og andleg heilsa betri.

Sjá nokkur ummæli þjónustuþega úr þjónustukönnuninni hér að neðan, svör við spurningunni „Af hverju ánægja með þjónustu VIRK?“:

Allt! Bara það að VIRK sé til staðar þegar maður lendir í áföllum er ómetanlegt. Ég gekk á vegg og get seint þakkað þá þjónustu sem ég fékk.

Fullt af námskeiðum sem ég vissi ekki að væru til og manni er bent í réttar áttir. 

Hversu einstaklingsmiðuð þjónustan er og hversu vel VIRK fylgist með þróun einstaklingsins.

Heilsteypt, sérsniðin ráðgjöf, aðhald og eftirfylgni.

Frábær ráðgjafi sem kveikti í mér neista og von.

Því VIRK gefur fólki akkúrat það sem það þarf og fær ekki annars staðar.

Um þjónustukönnunina: 
795 einstaklingar sem luku starfsendurhæfingu hjá VIRK á tímabilinu janúar til júlí 2020 fengu sendan rafrænan spurningalista. 522  þeirra svöruðu spurningalistanum sem gerir 66% svarhlutfall.


Fréttir

18.10.2024
05.11.2024

Hafa samband