Fara í efni

Styrkjum VIRK úthlutað

Til baka

Styrkjum VIRK úthlutað

VIRK veittir einu sinni á ári styrki til virkniúrræða, rannsóknarverkefna og uppbyggingar- og þróunarverkefna.

24 umsóknir bárust til VIRK fyrir lok umsóknarfrests þann 15. febrúar 2020. Allar umsóknir hlutu faglega umfjöllun hjá sérfræðingum VIRK og ákvarðanir um styrkveitingar voru í framhaldinu teknar af framkvæmdastjórn VIRK.

Neðangreindir 12 aðilar hlutu styrki að þessu sinni.

Styrkur til rannsóknarverkefnis

Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir: Kvenmillistjórnendur í opinberri þjónustu á Íslandi: reynsla af stjórnunarþáttum og líðan.  
Um er að ræða doktorsrannsókn við Háskólann á Bifröst þar sem notuð verður fyrirbærafræðileg aðferðarfræði til að öðlast innsýn í reynslu kvenmillistjórnenda í opinberri þjónustu hér á landi af stjórnun, forystu og samskiptum, álagi, áskorunum og bjargráðum og að dýpka þekkingu á þáttum sem geta stuðlað að jafnrétti, aukið starfsánægju og vellíðan kvenmillistjórnenda.

Styrkir til virkniúrræða

Bataskóli Íslands, Reykjavík
Bataskóli Íslands er skóli sem er ætlaður er fyrir einstaklinga 18 ára og eldri sem glímt hafa við geðrænar áskoranir í lífi sínu. Markmið skólans er að veita fræðslu um geðraskanir, gefa góð ráð varðandi geðheilsu, bæta lífsgæði nemenda og auka virkni. Bataskóli Íslands er opið úrræði og nemendum að kostnaðarlausu, engin skólagjöld eru í skólanum og fá nemendur úthlutað námsgögnum. Nemendur hafa aðgang að starfsmönnum Bataskólans alla virka daga og velja nemendur þau námskeið sem þeir meta að komi þeim að gagni á skólaárinu og þeir hafa áhuga á. Mikið er lagt upp úr valdeflingu nemenda, auka virkni þeirra í daglegu lífi og gera þeim kleift að sækja út á vinnumarkað eða í frekara nám eftir nám í Bataskólanum. 

Bergið Headspace, Reykjavík
Bergið Headspace er þverfagleg móttöku- og stuðningssetur sem veitir einstaklings- og áfallamiðaða þjónustu. Markmið og tilgangur Bergsins er að veita lágþröskulda aðgengi fyrir ungt fólk á aldrinum 12–25 ára að ráðgjöf og hjálp við þeim vanda sem þau glíma við. Bergið veitir ungmennum stuðning við að vinna úr sínum málum á forsendum þeirra og er markmiðið að ungmenni öðlist betri líðan og auki virkni sína í daglegu lífi í skóla eða vinnu. Bergið veitir óskilgreint aðgengi að stuðningi, ungmenni þarf ekki ástæðu, þarf ekki greiningu eða tilvísun og þjónustan er þeim að kostnaðarlausu.

Fjölsmiðjan, Suðurnesjum
Fjölsmiðjan á Suðurnesjum er atvinnutengt úrræði fyrir ungt fólk á aldrinum 16–24 ára sem hefur flosnað upp úr námi eða vinnu. Markmið Fjölsmiðjunnar er að hjálpa ungu fólki að finna sitt áhugasvið, öðlast starfsreynslu og þar með auka möguleika þess í atvinnulífinu eða í námi. Eitt höfuðverkefni Fjölsmiðjunnar er að auka virkni nemanna og fá þau til að brjóta niður múra óvirkni og félagslegrar einangrunar. Starfsemi Fjölsmiðjunnar á Suðurnesjum er með öllu gjaldfrjáls þeim einstaklingum sem njóta þjónustu hennar.

Geðverndarstöðin Vesturafl, Ísafirði
Vesturafl er geðræktarmiðstöð þar sem boðið er upp á virkni og samveru. Hlutverk hennar er fyrst og fremst að rjúfa félagslega einangrun og hvetja notendur til þátttöku í samfélaginu. Vesturafl býður upp á opið aðgengi fyrir einstaklinga alla virka daga þar sem boðið er upp á reglulega viðveru og stuðning í daglegu lífi, námskeið og virknistarf. Þá er öll þjónusta Vesturafls notendum að kostnaðarlausu

Grófin geðverndarmiðstöð, Akureyri
Starfsemi Grófarinnar er byggð á hugmyndafræði valdeflingar, batanálgunar og jafningjasamskipta. Markmið Grófarinnar eru m.a. að skapa tækifæri fyrir þá sem glíma við geðraskanir til að vinna í sínum bata, þar sem hver og einn tekur ábyrgð á sjálfum sér. Í Grófinni er aðgengi opið og gjaldfrjálst, fólk er velkomið, hvort heldur sem er í óformlegt spjall, hópastarfið, námskeið og mannfagnaði.

Handaband, Reykjavík
Handaband er skapandi vinnustofa sem hefur það að markmiðið að nýta skapandi vinnu til að styrkja þátttakendur, auka lífsgæði þeirra og draga úr félagslegri einangrun. Lögð er áherslu á að vinna á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt með því að vinna með endurunnið efni, m.a. textílefni sem fellur til við framleiðslu á Íslandi. Þátttakendur fá innsýn í hönnunarferli, þróun hugmynda og sjálfbæra og umhverfisvæna framleiðslu. Þátttaka í Handabandi er gjaldfrjáls og öllum opin óháð aldri.

Hjálparstarf kirkjunnar, Reykjavík
Um er að ræða tveggja ára virkni- og valdeflingarverkefni fyrir konur sem eru á örorkulífeyri með barn/börn á framfæri. Markmiðið með starfinu er að bæta félagsnet þátttakenda, virkja þær og kenna þeim  til  að vera virkar í samfélagsþátttöku með það markmiði að þær komist út á vinnumarkaðinn. Efla þær í foreldrahlutverkinu og auka trú þeirra á eigin getu. Verkefnið er þátttakendum algjörlega að kostnaðarlausu en eingöngu konur sem eru á örorku fá boð um þátttöku. Yfirgripsmikil dagskrá er í boði í gegnum allt verkefnið og geta þátttakendur sótt ýmsa virkni oft í viku auk þess sem þátttakendur hafa aðgengi að félagsráðgjöfum Hjálparstarfsins.

Hlutverkasetur, Reykjavík
Hlutverkasetur veitir, alla virka daga vikunnar, opið og gjaldfrjálst aðgengi að þjónustu fyrir einstaklinga sem glíma við heilsubrest sem hefur áhrif á atvinnuþátttöku þeirra. Hlutverkasetur er virknimiðstöð. Staðurinn er öllum opinn og taka einstaklingar þátt af eigin forsendum. Staðurinn býður upp á umgjörð, hvatningu og stuðning fyrir þá sem vilja viðhalda virkni á markvissan hátt eða auka lífsgæðin.

Hugarafl, notendastýrð starfsendurhæfing, Reykjavík
Félagasamtökin Hugarafl eru samtök fólks með geðraskanir og er notendastýrð starfsendurhæfing. Einstaklingar sem stunda endurhæfingu hjá Hugarafli getur sótt liði á dagskrá sem styðja við bataferli viðkomandi og síðar unnið að auknum tækifærum í samfélaginu, s.s. skólagöngu, atvinnu eða auknum lífsgæðum, ásamt því að fá stuðning hjá starfsmönnum Hugarafls. Starfssemi Hugarafls er öllum opin og gjaldfrjáls.

Klúbburinn Strókur, Selfossi
Klúbburinn Strókur er virkniúrræði sem hefur þau markmið að styðja við bataferli notenda heilbrigðiskerfisins, að fólk með geðræn vandamál fái úrræði við sitt hæfi, auka tengsl fólks sem glímir við geðraskanir og/eða félagslega einangrun og efla einstaklinginn til sjálfshjálpar, fyrirbyggja innlagnir og brjóta niður fordóma. Engar kvaðir eru lagðar á félaga klúbbsins og enginn kostnaður fylgir því að ganga í klúbbinn eða að taka þátt í þeim virkniúrræðum sem í boði eru.

Styrktarfélag Klúbbsins Geysis, Reykjavík
Klúbburinn Geysir er atvinnumiðað endurhæfingarúrræði fyrir fólk með geðraskanir. Grundvallarmarkmið klúbbsins er að virkja félaga hans til starfa og koma þeim út í meiri samfélagsvirkni. Klúbburinn Geysir er gjaldfrjálst meðferðarúrræði. Mæting er frjáls og ekki háð neinum takmörkunum utan þess sem félagar eru tilbúnir að undirgangast að undangengnu upplýstu samþykki viðkomandi.


Fréttir

18.10.2024
05.11.2024

Hafa samband