Fara í efni

Lægra framlags óskað

Til baka

Lægra framlags óskað

VIRK hefur farið fram á að gjöld sem atvinnulífið greiðir í sjóðinn verði lækkuð tímabundið árin 2016 og 2017 auk þess að áætlað framlag ríkisins til VIRK árið 2016 verði lægra en fyrirhugað var. Ástæðan er m.a sú að fyrirséð er að fjölgun einstaklinga í þjónustu VIRK verði mun minni á næsta ári en áætlað var vegna þess að upptaka starfsgetumats í stað örorkumats frestast.

Stjórn VIRK hafði nýverið frumkvæði að því við fjármálaráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra að leggja til að sett yrði inn bráðabirgðaákvæði í lög nr. 60/2012 um atvinnutengda starfsendurhæfingu þar sem framlög atvinnulífsins og lífeyrissjóðanna til VIRK yrðu lækkuð tímabundið úr 0,13% í 0,10% af stofni tryggingarargjalds. Stjórnin lagði einnig til að framlag ríkisins verði 500 milljónir á árinu 2016 í stað 650 milljóna og 0,05% af gjaldstofni tryggingagjalds á árinu 2017 í stað 0,06 eins og samkomulag VIRK og fjármálaráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra frá því í apríl 2015 gerði ráð fyrir.

Stjórn VIRK benti stjórnvöldum á að dráttur á endurskoðun laga um almannatryggingar, sérstaklega tafir á fyrirhugaðri upptöku starfsgetumats í stað örorkumats, geri það að verkum að ólíklegt sé að mjög mikil fjölgun verði á einstaklingum í þjónustu VIRK árið 2016. Útlit sé fyrir að svipaður fjöldi einstaklinga leiti til VIRK á árinu 2016 og á árinu 2015 og því ekki þörf á því aukna framlagi ríkisins til VIRK sem gert var ráð fyrir í samkomulaginu í vor. Einnig hafi verið markvisst unnið að því að skýra og skerpa alla vinnuferla hjá VIRK og tryggja í hvívetna hagkvæmni í rekstri auk þess sem varasjóður VIRK hafi nú náð þeirri stærð sem mælt er með í tryggingafræðilegri greiningu.

Stjórn VIRK tekur það sérstaklega fram að hér sé um tímabundna lækkun að ræða sem mikilvægt er að endurskoða við upptöku starfsgetumats í stað örorkumats. Sú kerfisbreyting mun kalla á mikla aukningu í þjónustu hjá VIRK með tilheyrandi útgjaldaaukningu og því sé engan vegin tímabært að taka ákvörðun um hvert framlag atvinnulífs, lífeyrissjóða og ríkis þarf að vera til VIRK til framtíðar.

Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis tekur undir með stjórn VIRK og lagði til breytingar á fyrirliggjandi frumvarpi um breytingar á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld þegar nefndin afgreiddi málið til 2. umræðu á Alþingi.


Fréttir

05.11.2024
18.10.2024

Hafa samband