Fara í efni

Mannauður VIRK - Mikilvægasta auðlindin

Til baka

Mannauður VIRK - Mikilvægasta auðlindin

Auður Þórhallsdóttir sviðsstjóri mannauðsmála hjá VIRK

 

VIRK er metnaðarfullur vinnustaður þar sem lögð er áhersla á jákvæðan starfsanda og sterka liðsheild. Gildi VIRK eru fagmennska, virðing og metnaður og er starfsfólk hvatt til að hafa gildin að leiðarljósi í störfum sínum. Flestir sem starfa hjá VIRK eru með háskólamenntun s.s. á sviði sálfræði, sjúkraþjálfunar, iðjuþjálfunar, félagsráðgjafar og náms- og starfsráðgjafar.

Hjá VIRK störfuðu vorið 2019 60 starfsmenn í 54,5 stöðugildum, 54 konur og 6 karlar. Ráðgjafar VIRK sem starfa hjá stéttarfélögum og lífeyrissjóðum um allt land eru 52 talsins í 50,0 stöðugildum, 49 konur og 3 karlar.

Hjá VIRK er rík áhersla á að öll starfsemin sé með ábyrgum hætti og í sátt við samfélag og umhverfi. Samfélagsábyrgð fyrirtækja er víðtæk og snýr að fjölmörgum þáttum s.s. hvernig við stöndum okkur í rekstri, umhverfismálum, hvernig stjórnarhættir eru og hvernig hugað er að starfsfólki. Við höfum unnið markvisst að öllum þessum þáttum síðustu árin og viljum vera góð fyrirmynd annarra vinnustaða.

Mannauðsmælingar

Mikilvægasta auðlindin er starfsfólkið og er okkur mjög umhugað um að sýna þeim umhyggju, stuðla að vellíðan þeirra, góðum starfsanda og starfsánægju. Liður í því er að annan hvern mánuð eru framkvæmdar mannauðsmælingar hjá VIRK. Mælt er í átta flokkum í hvert sinn og einnig er ein opin spurning lögð fyrir. Stjórnendur funda um niðurstöður og rýna til gagns með umbætur í huga. Mælingarnar eru birtar starfsfólki og samtal tekið um niðurstöður og fólk hvatt til að koma með hugmyndir ef bæta má starfsumhverfi og/eða líðan.

Í síðustu tveimur mælingum hefur starfsánægja hjá VIRK verið 4,75 og 4,55 og mat starfsfólk stuðning frá stjórnendum 4,83 og 4,60. Heildarárangur þessara tveggja mælinga var 4,65 og 4,50 af 5.00 mögulegum sem teljast má góður árangur.

Viðurkenningar VIRK

Okkur til mikillar ánægju varð VIRK eitt 15 fyrirtækja sem teljast til fyrirmyndar í flokki meðalstórra fyrirtækja hjá VR árið 2018. Niðurstöður þessarar VR könnunar endurspegla viðhorf starfsmanna til vinnustaðar síns auk þess sem hún er vettvangur starfsmanna til að segja stjórnendum hvað er vel gert og hvað má betur fara. VIRK er því Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2018, var í 13. sæti og stökk þangað úr 30. sæti frá árinu áður, sem telja má afar ánægjulega niðurstöðu.

Í nóvember í fyrra fékk VIRK einnig viðurkenninguna Framúrskarandi fyrirtæki 2018 þriðja árið í röð frá Creditinfo. Creditinfo verðlauna þau fyrirtæki sem standa sig vel, stuðla að bættu viðskiptaumhverfi, byggja rekstur sinn á sterkum stoðum og efla hag fjárfesta og hluthafa. VIRK var í 96. sæti af 857 fyrirtækjum sem er afar gott.

Ferlar og fræðslumál

Hjá VIRK störfum við samkvæmt metnaðarfullum stefnum og verklagsreglum í mannauðsmálum bæði fyrir starfsfólk og ráðgjafa VIRK. Ráðgjafar eru starfsmenn stéttarfélaga en starfa eftir Gæðahandbók VIRK og þeim faglegu verkferlum sem settir eru fram í samningum á milli VIRK og félaganna.

Við ráðningu starfsmanna og ráðgjafa þarf að skila inn prófskírteinum/leyfisbréfum sem og sakavottorði. Þegar nýtt fólk hefur störf fer fram skýrt móttökuferli og boðað er í tveggja daga skipulagða nýliðafræðslu.

Allir ráðgjafar sem hefja störf hjá VIRK fá handleiðslu í sex mánuði frá sérfræðingum VIRK samkvæmt skilgreindu skjalsniði. Að þeim tíma loknum er fundað um árangur handleiðslunnar og brugðist við í samræmi við árangur og/eða tekin ákvörðun um lok hennar.

Fræðsla og endurmenntun starfsfólks og ráðgjafa er mjög öflug og fjölbreytt, bæði er um að ræða þjálfun hópa sem og einstaklinga.

Á hverju ári fara fram reglubundin starfsmannasamtöl. Þetta árið eru þau þematengd og verða þrjú samtöl tekin yfir árið.

Heilsa og umhverfi

VIRK leggur ríka áherslu á mikilvægi góðra samskipta á vinnustað og hefur starfsfólk gert með sér „Samskiptasamning“. Tilgangur með gerð svona samnings er að starfsmenn upplifi vellíðan í vinnu og sálrænt öryggi og ákveði í sameiningu hvernig hegðun þeir vilji að ríki á vinnustaðnum. Samskiptasamningurinn inniheldur níu innihaldsríkar setningar og starfsmenn eru hvattir til að starfa eftir honum.

Starfsfólki stendur til boða að taka tvær klukkustundir á viku til að sinna verkefnum hversdagsins og bregðast við aðstæðum í einkalífi sem við nefnum „Skipulagðan sveiganleika“. Þessir tímar eru skipulagðir í samstarfi við stjórnendur og eru ekki uppsafnanlegir á milli vikna. Með þessu vill VIRK aðstoða starfsfólk við að takast á við vinnutengt álag. Við viljum vera í fararbroddi vinnustaða sem stíga fram og takast á við þá streitu sem er á vinnumarkaði og tölur VIRK vitna til um. Skipulagði sveigjanleikinn hefur vakið mikla ánægju meðal starfsfólks.

Lögð er áhersla á að vinnuumhverfið sé fallegt, snyrtilegt og heilsusamlegt. Í boði er næringarríkur hádegisverður og eins eru ávextir og grænmeti á borðum þess utan.

Starfsfólk er hvatt til heilsueflingar og í boði eru heilsustyrkir sem starfsfólk getur sótt um ásamt samgöngustyrkjum.

Allt sorp er flokkað á vinnustaðnum og áhersla lögð á að innkaup séu hagsýn og umhverfisvæn. Nýverið tókum við í notkun aðgangsstýrða umhverfisvæna prentlausn sem er spilliefnafrí og prentum á vottaðan ljósritunarpappír.

Vottanir VIRK

Vottað gæðastjórnunarkerfi VIRK: ISO 9001 Árið 2016 var gæðastjórnunarkerfi VIRK vottað samkvæmt alþjóðlega gæðastjórnunarstaðlinum ISO 9001 af faggildri skoðunarstofu BSI á Íslandi. Árlega fer svo fram viðhaldsvottun á vegum BSI þar sem skírteini eru endurútgefin.

Jafnlaunavottun ÍST 85:2012 Árið 2018 hlaut VIRK Jafnlaunavottun ÍST 85:2012 að lokinni gæðaúttekt á vegum BSI á Íslandi og Jafnréttisstofu. Við erum stolt af því að vera brautryðjendur í að öðlast ÍST 85:2012 vottun fyrir fyrirtæki af þessari stærðargráðu. Jafnlaunavottun gerir VIRK að enn eftirsóknarverðari vinnustað þar sem jafnrétti og jafnræði ríkir. Á vordögum 2019 fer svo fram viðhaldsvottun og er unnið að undirbúningi þeirrar vottunar.

Greinin birtist fyrst í ársriti VIRK 2019.


Fréttir

30.05.2024
28.05.2024

Hafa samband