Hlutverkasetrið hentaði mér
Hlutverkasetrið hentaði mér
Þátttakandi í Útrás Hlutverkasetursins
„Ég prófaði að mæta hjá Hlutverkasetrinu. Ég var dottin út af vinnumarkaði og skóla vegna veikinda. Ég hafði prófað ýmislegt en endaði á því að finna mig í Hlutverkasetrinu,“ segir ung manneskja sem leitaði til VIRK fyrir nokkrum árum en lætur hér ekki nafn síns getið.
„Ég veiktist af geðsjúkdómi, fékk geðhvörf. Ég var greind snemma. Haustið áður en ég var greind hafði ég dottið út úr skóla, ég var þá á fyrsta ári í háskóla en fékk kvíða og að lokum þunglyndi sem gerði mér námið ómögulegt. Ég leitaði á bráðamóttöku geð- sviðs Landspítala og þar fékk ég lyf en biðlistar voru langir svo ég hitti varla lækni. Ég var bara heima í herberginu mínu hjá foreldrum mínum, svaf mikið og fór varla út fyrir hússins dyr. Ég verð enn svolítið reið þegar ég hugsa til þessa tíma. Ég fékk svo litla hjálp í upphafi sem hefði þó getað hjálpað mér mikið. Ég veit að margir áttu þá erfitt, voru skuldugir og búnir að missa heimili og í sárri neyð. En ég upplifði það þannig að þegar ég var orðin mjög veik tóku fyrst að opnast fyrir mér ýmsar dyr.
Ég varð smám saman veikari og mamma „togaði í spotta“ til þess að koma mér að hjá geðlækni. Ég hitti hann einu sinni og átti bókaðan tíma mánuði síðar en í millitíðinni var ég orðin það þunglynd að ég lagðist inn á geðdeild í tvær vikur. Þar voru prófuð lyf sem ekki virkuðu. Eftir það hitti ég lækninn aftur og þá vikulega í framhaldinu. Ég setti mér markmið, - að fara út að ganga, helst daglega. Þá var ég á þriggja mánaða sjúkradagpeningum, þrjátíu þúsundum á mánuði. Þetta plan var erfitt til að byrja með en fór svo að ganga betur.
Ég leitaði til VIRK í nóvember 2011. Ég flutti að heiman um haustið og fór að vinna en veiktist skömmu síðar af geðhvörfum. Stundum er talað um að aukið álag komi sjúkdómnum af stað, kannski hafa flutningarnir spilað þar inn í. Hjá ráðgjafa VIRK var mér bent á Janus endurhæfingu og læknirinn minn sótti um að ég kæmist þar að. Í ársbyrjun 2012 komst ég þar í einstaklingsmeðferð, hitti iðjuþjálfa tvisvar í mánuði, fór í sjúkraþjálfun og stundaði líkamsrækt. Ég var líka á lyfjum sem ég hafði fengið þegar ég greindist með geðhvörf um haustið. Í endurhæfingunni fólst líka að ég tók tvo kúrsa í háskólanum. En það reyndist of mikið og ég lauk bara prófi í öðrum og veiktist aftur af þunglyndinu.
Enn fordómar gegn geðsjúkum
Um sumarið náði ég mér upp og fór í sjálfboðaliðastörf í Evrópu í tvær vikur. Það er eftirminnilegur tími sem gaf mér meiri lífsorku, - var í góðum hóp á friðsælum stað.
Haustið sama ár fór ég í annan skóla, í nokkur fög. En varð aftur að fækka þeim og lauk aðeins prófi í tveimur fögum. Þetta var mér erfitt því ég hafði jafnan verið sterkur námsmaður, tók til dæmis stúdentsprófið á þremur og hálfu ári. Mér fannst ég því geta meira en heilsa mín leyfði.
Í janúar 2013 og fram í ágúst fór ég í endurhæfingu á Hvítabandinu. Sú með- ferð hentaði mér ekki. Um haustið tók ég meðvitaða ákvörðun um að einblína bara á reglubundið líf. Ég var þá enn að hitta iðjuþjálfa hjá Janus. Við komust sameiginlega að þeirri niðurstöðu að hugmyndafræði Hlutverkaseturs myndi eiga vel við mig. Ég ákvað að fara þangað og sleppa öllu skólanámi.
Hjá Hlutverkasetrinu bjó ég mér til ákveðið vikulegt skipulag í samráði við iðjuþjálfa. Ég mætti í jóga á ákveðnum tímum, var í Zumba, fór í sjósund og sótti líka tíma í leirlist einu sinni í viku. Í fyrstu hafði ég lítið úthald en ég fann smátt og smátt hvað það jókst. Ég hafði frumkvæði að því að taka upp kennslu í tungumálum fyrir innflytjendur, og fyrir fólk sem dottið hafði út af vinnumarkaði eða var á örorku.
Þessi tími, frá hausti 2013 til vorsins 2014 efldi mig mikið. Ég hafði rætt við hana Sylviane iðjuþjálfa sem starfar í Útrásarverkefninu hjá Hlutverkasetrinu í ársbyrjun 2014 um möguleika mína á að prófa aftur vinnumarkaðinn sem leiddi til þess að um sumarið byrjaði ég í hlutastarfi hjá fyrirtæki og er þar enn. Ég er ennþá í sambandi við Sylviane vikulega ef ég þarf. Hún gefur mér þann stuðning sem ég þarf til þess að geta haldist í vinnu.
Ég hef lært í vinnunni minni að mikilvægt er að setja sjálfri mér mörk og þora að segja til hvað ég get gert og hvað ekki. Mér líður svo vel núna með þá fullvissu að ég sé virkur samfélagsþegn. Ég er alltaf að læra eitthvað nýtt, sem er gaman. Hlutverkasetrið hefur veitt mikinn stuðning og ég fann fljótt að starfsfólkið hafði mikla trú á mér. Það er mikilvægt.
Ástæða þess að ég vil vera nafnlaus í þessu viðtali er að ég finn að það eru enn miklir fordómar gagnvart geðsjúkum í samfélaginu. Ég veit ekki hvar ég verð á næstu árum. En ég myndi ekki vilja að upp komi að ég hafi átt við geðsjúkdóma að stríða, til dæmis ef atvinnurekandi kynni að leita upplýsinga á netinu um mig. Það gæti að mínu mati haft áhrif á atvinnumöguleika mína í framtíðinni.
Ég vil að endingu hvetja þá sem glíma við veikindi og eru heima hjá sér óttaslegnir að leita sér hjálpar sem fyrst. Í Hlutverkasetrið getur hver sem er komið.“
Viðtal: Guðrún Guðlaugsdóttir
Viðtalið birtist í ársriti VIRK 2015.
Lestu fleiri reynslusögur einstaklinga hér.