Hinn gullni meðalvegur
Hinn gullni meðalvegur
Elfa Hrund Guttormsdóttir ráðgjafi VIRK á Reykjanesi
„Ég er uppalin í Njarðvíkunum sem er hluti af Reykjanesbæ" segir Elfa Hrund Guttormsdóttir ráðgjafi VIRK á Suðurnesjum, þegar hún er spurð um tengingu hennar við það stóra svæði sem hún ásamt tveimur öðrum ráðgjöfum sinnir fyrir VIRK. Um er að ræða Suðurnesjabæ, Reykjanesbæ, Grindavík og Voga.
Elfa Hrund Guttormsdóttir útskrifaðist frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja, tók BA-próf frá Háskóla Íslands í uppeldis- og menntunarfræðum og fór svo í tveggja ára nám þar í félagsráðgjöf til starfsréttinda.
„Fyrstu ráðgjafar VIRK hófu störf á Suðurnesjum árið 2009. Ég fór að vinna sem ráðgjafi hjá VIRK árið 2011. Áður vann ég í ellefu ár hjá Félagsþjónustu Reykjanesbæjar. Ég var því vel kunnug aðstæðum þeirra sem minna máttu sín. Miklar breytingar urðu þegar bandaríski herinn yfirgaf svæðið árið 2006. Þá urðu margir atvinnulausir og leituðu til félagsþjónustunnar til að fá ráð og annað. Einnig upplifði ég hrunið eins og allir aðrir landsmenn. Þetta hvort tveggja kom mjög illa við Suðurnesin - var afar erfitt tímabil sem Félagsþjónusta Reykjanesbæjar gerði þó með tímanum margt til að milda," segir Elfa Hrund.
Hvað varð til þess að þú færðir þig yfir til VIRK?
„Mér fannst VIRK vera nýtt sjónarhorn í mínu starfi hjá félagsþjónustunni. Mig langaði að taka þetta skref og sé ekki eftir því. Það var góð tilfinning að geta boðið einstaklingum sem leituðu til VIRK þau úrræði sem fyrir hendi voru þar. Hjá félagsþjónustunni var meira eins og maður væri að „slökkva elda" hjá einstaklingum í erfiðleikum, framhaldið var stundum erfiðara. Hjá VIRK var boðið upp á mun fleiri úrræði og því hægt að koma einstaklingum lengra í átt að vinnumarkaði.
Mikil aðsókn var í aðstoð frá VIRK nánast frá upphafi og þannig er það enn í dag. Strax var fyrir hendi vitneskja um starfsemi VIRK á svæðinu. Félagsþjónustan var til dæmis dugleg að vísa því fólki til VIRK sem talið var að hefði gagn af þjónustu þar. Óneitanlega áttu sumir einstaklingar sem þáðu fjárhagsaðstoð félagsþjónustunnar ekki heima þar. Margir þeirra voru að glíma við heilsubrest, andlegan og líkamlegan. Þeir aðilar áttu frekar heima hjá VIRK."
Mörg úrræði og stuttar boðleiðir
Hvaða úrræði eru í boði hjá VIRK?
„Í raun var og er allt í boði í Reykjanesbæ. Við erum með sjúkraþjálfara og sálfræðinga. Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum er í sama húsi og við störfum, ráðgjafarnir þrír hjá VIRK. Húsnæðið er að Krossmóa 4, sem er miðsvæðis í Reykjanesbæ. Þar er einnig Vinnumálastofnun til húsa. Því er um stuttar boðleiðir að ræða og samstarfið milli þessara aðila gengur hratt og vel fyrir sig.
Lífeyrissjóðurinn Festa er með aðsetur þarna líka. Samstarfið við Félagsþjónustu Reykjanesbæjar er líka mjög skilvirkt. Um 24 prósent íbúa þessa svæðis eru erlendir ríkisborgarar. Þeir eru duglegir að leita sér aðstoðar hjá stéttarfélögum sem mér finnst jákvætt.
Útlendingar eru þó almennt í verri stöðu en Íslendingar, hafa síður félagslegt net og glíma oft við tungumálaerfiðleika. Það skiptir miklu máli að geta tjáð sig á íslensku eða ensku. Hafi þeir hvorugt þá er erfitt að fá vinnu. Ég veit þó að aðilar vinnumarkaðarins hafa farið til Póllands til að ráða fólk til starfa á Suðurnesjum."
Þess ber að geta að hjá Miðstöð símenntunar er íslenskukennsla. Þar hefur líka verið starfandi landnemaskóli sem skilgreinir hvernig samfélagið virkar. Sagt er frá helstu stofnunum á svæðinu, svo sem sýslumannsembættinu, heilbrigðisþjónustu og Vinnumálastofnun. Í lok námskeiðs koma allir með veitingar frá sínum heimaslóðum og úr verða þessi fínu „Pálínuboð".
Hvernig fer fram val á þeim sem njóta samstarfs við VIRK?
„Verklagið hvað þetta snertir er eins um allt land. Allir einstaklingar sem vilja fá þjónustu hjá VIRK þurfa að fara til læknis og fá vottorð um heilsubrest og beiðni um þjónustu til að eiga rétt á að komast í samstarf við VIRK.
Beiðni læknisins er send til höfuðstöðva VIRK að Guðrúnartúni 1 í Reykjavík. Þar fer inntökuteymi yfir það hvort viðkomandi einstaklingur eigi heima hjá VIRK eða ekki. Leiki vafi á því þá fer viðkomandi einstaklingur í mat á raunhæfni. Sé niðurstaðan sú að sérfræðingurinn sem gerir matið telji að viðkomandi eigi heima hjá VIRK þá er honum vísað til þess stéttarfélags sem hann hefur greitt í. Einstaklingar sem leita eftir þjónustu hjá VIRK en eiga enga starfssögu hafa líka sinn rétt. Allir sem vilja endurhæfast til atvinnuþátttöku eða komast á vinnumarkað eiga, sé skilyrðum fullnægt, rétt á þjónustu hjá VIRK. Ef örorkuþegi finnur að hann er kominn með meiri starfsgetu en áður getur hann látið á það reyna hvort hann eigi rétt á þjónustu hjá VIRK.
Sé heilsuleysi fólks af andlegum toga einblínum við á sálfræðimeðferð. Auðvitað skipta virkniúrræði líka máli þegar þannig háttar til. Þeir sem þurfa á daglegri virkni að halda fara í þverfaglega endurhæfingu hjá Samvinnu, sem staðsett er í húsinu sem við störfum í. Einstaklingurinn fer þá til Samvinnu og fær sinn ráðagjafa þar. Útbúin er virkniáætlun fyrir viðkomandi sem inniheldur allt það sem hann þarfnast og hægt er að veita.
Við á Suðurnesjum búum svo vel að fyrirtæki og stofnanir á svæðinu taka því vel að leyfa fólki sem kemur frá VIRK að reyna sig í starfi. Fyrst finnum við út með viðkomandi einstaklingi hvað hann getur helst hugsað sér að vinna við svo förum við á stúfana að finna heppilegt starf. Við leitum ekki út fyrir Suðurnesin ef einstaklingur er búsettur þar. Þetta starf fer allt fram á Suðurnesjum.
Rétt er að taka fram að VIRK tekur ekki þátt í kostnaði við heilbrigðisþjónstu. Við höldum okkur við greiðslu fyrir sálfræðimeðferð, sjúkraþjálfun, námskeið og þess háttar. Við leiðbeinum hins vegar fólki ef þörf er á. Í vottorði frá lækninum sem einstaklingurinn kemur með í upphafi er að finna upplýsingar um þann heilsubrest sem viðkomandi glímir við - sem og hefur einstaklingurinn þá þegar svarað spurningalistum sem við ráðgjafar fáum svo aðgang að. Þannig fáum við tiltölulega skýra sýn á ástand viðkomandi. Í framhaldi af þessu spyrjum við einstaklinginn staðlaðra spurninga. Allt þetta hjálpar.
Mæti einstaklingum þar sem þeir eru staddir
Ég hef í mínu starfi haft að leiðarljósi að mæta einstaklingum þar sem þeir eru staddir. Í viðtali finnur maður hvernig viðkomandi líður. Þetta tekur tíma og gengur misvel. Ég vinn út frá því að hver og einn sé sérfræðingur í eigin lífi. Finni maður að lítill áhugi sé til staðar þá beitum við áhugahvetjandi samtalstækni. Hafi einstaklingur til dæmis lítinn áhuga á hreyfingu spyrjum við hvaða hreyfing hafi höfðað mest til hans á yngri árum. Svo er unnið út frá því. Glími einstaklingur við geðræn vandamál þá spyr maður hvern hann vilji hitta til að bæta líðanina – vill hann til dæmis fara á námskeið eða í einstaklingsviðtöl?
Sumir einstaklingar þurfa virkilega á því að halda að rjúfa félagslega einangrun en eru ekki tilbúnir að fara strax í samtalsmeðferð hjá sálfræðingi eða í þverfaglega endurhæfingu. Þá er það í lagi – þetta tekur stundum sinn tíma að þróast. Svo er hin hliðin – að vilja gera allt í einu, það er heldur ekki gott. Þeir sem eru í starfsendurhæfingu eru þar vegna þess að þeir hafa ekki fulla starfsgetu, það er ekki gott að hafa of stífa dagskrá. Hinn gullni meðalvegur er bestur."
Kulnunareinkenni tíðari nú en áður
Hvernig gengur að fá hlutastörf fyrir fólk sem kemur úr endurhæfingu?
„Það hefur ekki gengið sérstaklega vel. Á móti kemur að einstaklingar sem verið hafa í endurhæfingu hjá VIRK og finna sig tilbúna til að reyna sig á vinnumarkaðinum hafa stokkið á störf sem auglýst hafa verið og líkjast þeim vinnustöðum þar sem viðkomandi hefur verið í vinnuprófunum. Slíkar prófanir standa frá átta og upp í tólf vikur.
Einstaklingar sem til okkar leita glíma ýmist við geðræn vandamál eða heilsuleysi af líkamlegum toga og stundum fer þetta saman. Manneskja sem upplifir mikla verki líður líka illa andlega. Við ráðgjafarnir höldum utan um alla þræði og sjáum til þess að endurhæfingin skili árangri. Við erum í góðu sambandi við úrræðaaðila. Ef einstaklingur mætir illa ræðum við það við viðkomandi. Einstaklingar skrifa undir þátttökusamning í upphafi þjónustu sem felur í sér áttatíu prósent mætingu í viðtöl til ráðgjafa og í þjónustu hjá öðrum fagaðilum sem VIRK geiðir fyrir.
Komi fólk í þjónustu hjá VIRK og finnst hún ekki vera að skila sér miklu þá er betra fyrir einstaklinginn að fara í mat á vegum VIRK til að skoða hvað veldur heldur en að hætta í þjónustunni. Við matið kemur í ljós hvort starfsendurhæfing er fullreynd eða ekki. Mjög margir leita eftir endurhæfingarlífeyri meðan á meðferð stendur og fá hann."
Verður þú vör við að einkenni kulnunar hafi aukist?
„Mín tilfinning er að kulnunareinkenni séu algengari núna en þegar ég byrjaði að vinna hjá VIRK."
Finnst þér starfsemi VIRK hafa breyst mikið á þeim átta árum sem þú hefur starfað þar?
„Já mjög mikið. Ákveðið verklag hefur smám saman komist á sem gagnast okkur öllum sem vinnum hjá VIRK. Það er gott að verklagið er eins allsstaðar á landinu. Konur er heldur fleiri í endurhæfingu hjá VIRK. Þær eru líklega duglegri að leita sér aðstoðar - og að minni hyggju almennt lausnamiðaðari."
Minni fordómar og opnari umræða
Koma margir til ykkar sem hafa sjálfsvígshugsanir?
"Nei, þeir eru ekki margir en það eru þó líklega einna erfiðustu tilvikin. Slíkt kemur í ljós í skimunarspurningum sem fólk svarar áður en það kemur til okkar."
Telur þú að VIRK hafi leitt til opnari umræðu meðal almennings um heilsuvanda?
„Já, það eru ekki fordómar lengur gagnvart því að vera í endurhæfingu hjá VIRK. Maður fann aðeins fyrir slíku viðhorfi í upphafi þessa starfs. Það veit enginn hver missir heilsuna, það fer ekki eftir stétt né stöðu. Allir geta misst heilsuna."
Hvernig gengur þér sjálfri að halda heilsu undir álagi?
„Ég tek auðvitað oft inn á mig erfiðleika annarra í einhverjum mæli. En ég ákvað það þegar ég fór að vinna í þessum geira fyrir mörgum árum að taka vinnuna ekki með mér heim að lokum vinnudegi. Þetta tókst mér að tileinka mér. Þannig sá ég fyrir mér að verða langlífari í starfi. Ella myndi ég „brenna út" eins og það er kallað. Við ráðgjafar hjá VIRK eigum kost á því að fara í handleiðslu hjá sálfræðingi ef illa gengur með tiltekin mál. Ég hef nýtt mér það og hefur það reynst vel. Ég vil koma því á framfæri við alla þá sem eru úti á vinnumarkaðinum að huga að eigin líðan með hollu mataræði og reglulegri hreyfingu til að njóta sín í lífi og starfi. Allt í hófi - það er best."
Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason
Viðtalið birtist fyrst í ársriti VIRK 2019.