Fara í efni

Heilsuhjól heilbrigðara lífs

Til baka
Huber á afmælisráðstefnu VIRK 2018
Huber á afmælisráðstefnu VIRK 2018

Heilsuhjól heilbrigðara lífs

Machteld Huber læknir og heimspekingur, Institute of Positive Health

Árið 1948 gaf Alþjóðaheilbrigðisstofnunin út að heilbrigði væri það að njóta fullkomlega líkamlegrar, andlegrar og félagslegrar vellíðan en ekki einungis það að vera laus við sjúkdóma (WHO, 1948).

Nú er talið að þessi skilgreining á heilsu eigi tæpast lengur við þar sem mikill fjöldi einstaklinga í dag tekst á við langvinna sjúkdóma eins og t.d. háan blóðþrýsting og sykursýki. Að ná fullkominni vellíðan sé óraunhæft markmið sem geti valdi því að einstaklingur líti stöðugt á sig sem sjúkling og yfirfæri stjórnina á eigin lífi yfir á heilbrigðisstarfsmann, upplifi sig hjálparlausan. 

Með jákvæðri heilsunálgun er tekið annað sjónarhorn. Athygli er ekki beint að sjúkdóminum heldur á einstaklinginn sjálfan, styrkleika hans og hvað geri líf hans innihaldsríkt. Machteld Huber, hollenskur heimilislæknir og fræðimaður, setti fyrst fram hugtakið jákvæð heilsa. Í Hollandi fer áhugi fyrir nálgun jákvæðrar heilsu ört vaxandi, ekki bara inn á heilbrigðisstofnunum heldur einnig í skólum, á vinnustöðum, í félagslega kerfinu og í öðrum stofnunum. Þegar hefur ein sýsla í Hollandi, Limburgh, hafið innleiðingu á jákvæðri heilsu á öllu stigum þjóðfélagsins og er lokamarkmiðið að breyta því hvernig almenningur sem og heilbrigðisfólk nálgast heilbrigði, þ.e. með því að beina athyglinni að einstaklingnum en ekki eingöngu að sjúkdóminum.

Að stjórna sinni eigin heilsu

Heilsa felur meira í sér en að vera veikur eða ekki veikur. Aðalatriðið er hvernig einstaklingnum líður og jákvæð heilsa snýr einmitt að því. Til þess að skoða betur jákvæða heilsu er stuðst við heilsuhjólið. Machteld Huber, fyrrverandi heimilislæknir, fræðimaður og höfundur heilsuhjólsins útskýrði jákvæða heilsu í stuttu viðtali.

Hvað er jákvæð heilsa nákvæmlega?
„Fyrir ekki svo löngu lærðu nemendur í læknisfræði að það að vera heilbrigður fæli í sér að vera ekki veikur. Sem ungur heimilislæknir lenti ég sjálf nokkrum sinnum í alvarlegum veikindum. Í þeim veikindum uppgötvaði ég að þessi fullyrðing um heilbrigði væri ekki rétt. Jafnvel þó að ég væri að kljást við líkamleg veikindi gæti mér samt liðið vel.

Í samtölum mínum við aðra í svipaðri stöðu, varð ég vör við sömu upplifun, þ.e. að manni gæti liðið vel þrátt fyrir veikindi. Heilbrigði snýr að lífinu í heild, það snýst um meira en bara líkamlega heilsu. Ég áttaði mig á því að þrautseigja skiptir miklu máli. Hversu heilbrigður finnst þér þú vera? Hvað er það sem þú getur gert þrátt fyrir veikindi? Hvernig getur þú styrkt þig? Það er sú nálgun að horfa á einstaklinginn í víðara samhengi og á jákvæðari hátt sem jákvæð heilsa byggir á,” segir Machteld Huber.

Þú hefur nefnt það að vera veikur sé ekki það sama og að vera með sjúkdóm. Hvað meinar þú með því?
„Að vera veikur er í raun og veru eitthvað annað en að vera með sjúkdóm. Í byrjun ertu raunverulega veikur. Þú færð sjúkdómsgreiningu og í kjölfarið meðferð. En þó að þú náir ekki fullum bata strax eða munir kannski aldrei ná þér að fullu líkamlega, verður þú eftir vissan tíma ekki bara veikur einstaklingur. Annað í lífi þínu skiptir máli, t.d. félagsleg samskipti við aðra og viðhorf þitt til lífsins. Þessi atriði fara að vera meira í forgrunni eftir því sem tíminn líður og þú aðlagar þig að veikindum þínum.”

6 víddir heilsuhjólsins

Hvernig er unnið með heilsuhjólið í jákvæðri heilsu?
„Í þeim tilgangi að gera jákvæða heilsu áþreifanlega þróuðum við heilsuhjól. Það hjálpar manni til að skoða sjálfan sig og spyrja spurninga eins og: Hvernig líður mér, hvað get ég og hvað vil ég sjálf(ur) gera til að bæta mína líðan? 

Hjólið samanstendur af sex sviðum eða víddum og ein spurning er miðlæg fyrir hverja vídd:

  1. Hvernig líður mér líkamlega?
  2. Hvernig líður mér andlega?
  3. Hvernig lít ég á framtíðina?
  4. Tekst mér að njóta lífsins?
  5. Er ég í góðu sambandi við aðra?
  6. Get ég séð um mig sjálfa(n)?

Með því að svara spurningalista sem hannaður var til að nota samhliða heilsuhjólinu er hægt að finna hvar maður er staddur í hverri vídd fyrir sig. Mismunandi staðhæfingar eru metnar eins og t.d.: „Ég tel mig heilsuhrausta(n)”, „Ég finn fyrir lífsgleði”, „Þegar ég vakna á morgunana hlakka ég til dagsins”, „Mér líður vel í eigin skinni”, „Ég á nógan pening til að geta greitt reikningana mína”, „Ég er í góðu sambandi við aðra”, „Ég get séð um mig sjálfa(n)”.

Með því að tengja svör úr spurningalistanum við heilsuhjólið er hægt að fá góða innsýn í stöðu mála varðandi heilbrigði eins og það er skilgreint samkvæmt jákvæðri heilsu. Í framhaldi er hægt að skoða hvernig hægt er að bæta heilbrigði á ýmsum víddum. Hægt er að velja hvaða vídd maður vill vinna með en ef unnið er með eina vídd eru líkur á að staða mála í öðrum víddum batni samhliða þar sem víddirnar sex hanga saman. Þá er hægt að svara spurningalistanum seinna til að skoða hvernig manni miðar.

Heilsuhjólið gerir þér kleift að vinna með mismunandi þætti hjá sjálfum/sjálfri þér. Heilbrigðisstarfsmenn, vinir eða fjölskyldumeðlimir geta einnig aðstoðað þig við að finna út hvers þú þarfnast til að bæta líðan þína. Þannig öðlast þú meiri þrautseigju og lærir hvernig þú getir bætt líðan þína jafnvel þó að þú sért veik(ur).“

Gagnast öllum

Hverjum er heilsuhjólið ætlað?
„Það getur gagnast öllum að fylla út heilsuhjólið, jafnvel þó að við séum heilbrigð og hraust. Við erum ekki vön að gefa sjálfum okkur gaum. Spurningalistinn gefur okkur tækifæri til að staldra við og skoða ýmsa þætti hjá okkur sjálfum. Jafnvel þó að þér líði vel, getur þú sett þér lítil markmið. Ég læt heilbrigðisstarfsmenn eða stefnumótandi aðila einnig fylla út heilsuhjólið. Ég heyri oft: „Mér gengur bara ágætlega, sko.” Þangað til þeir átta sig á því að þeir gefa nánum tengslum við vini og fjölskyldu ekki mikinn gaum á meðan þeir myndu í raun vilja hlúa að þeim.“

Að vinna með sína eigin heilsu, hvernig gerir maður það?
„Ekki mikla þetta fyrir þér. Ef þú vilt hitta vini þína oftar, reyndu þá að skipuleggja hitting með góðum vini í hverri viku. Viltu stunda meiri hreyfingu? Taktu þá frá tíma í hverri viku til að hreyfa þig. Ef þú stendur við þessi litlu áform og framkvæmir þau í nokkrar vikur muntu taka eftir því að þú ert smám saman að þróa með þér nýjar venjur. Lítil skref geta stundum skipt sköpum. Ef þú tekur þessi skref þegar þú ert sjálf(ur) tilbúin(n) verður þú heilbrigðari, glaðari og með meiri þrautseigju. En, þetta er auðvitað val.”

„Hvað skiptir þig allra mestu máli í lífinu?“

Það er örugglega ekki alltaf einfalt að vinna með sína eigin heilsu?
„Það er ekki öllum augljóst að taka skrefið og horfa í spegilinn. Heilbrigðisstarfsmenn geta verið vakandi og reynt að taka eftir merkjum. Eru það raunverulega verkirnir sem valda vanlíðan? Eða geta aukin félagsleg samskipti bætt stöðu einstaklingsins? Við þurfum líka sjálf að vera vakandi. Fylltu út heilsuhjólið með eldri borgara sem er mögulega einmana. Það getur verið kveikjan að samtali um ákveðnar óskir „Ég myndi svo gjarnan vilja sjá sveitina mína einu sinni enn.“ Þegar þú þekkir þessar óskir getur þú aðstoðað við að láta þær rætast. Ekki þröngva neinu upp á fólk. Það að fylla út heilsuhjólið getur verið konfronterandi. Þú getur þó lagt það til, það getur verið byrjun.”

Hvaða vídd gefum við of lítinn gaum?
„Spurningin „Hvað skiptir þig allra mestu máli í lífinu?“ – víddin sem varðar tilgang þinn, skiptir raunar höfuðmáli. Hún varðar hvaða augum þú lítur framtíðina og hvað gerir líf þitt þess virði að lifa því. Spurðu þig þessarar spurningar reglulega, burtséð frá heilsuhjólinu, og veltu fyrir þér hvað þú gætir gert við svarinu. Það mun gera þig hamingjusamari og heilbrigðari!”, segir Machteld að lokum.

Texti: Anneleen Vermeire

Viðtalið birtist fyrst í ársriti VIRK 2019 - sjá fleira áhugavert úr ársritinu hér.


Fréttir

30.05.2024
28.05.2024

Hafa samband