Fyrst og fremst þarf fólk að vilja
Fyrst og fremst þarf fólk að vilja
Ragnheiður Kristinsdóttir sérfræðingur hjá VIRK
Ragnheiður Kristinsdóttir sérfræðingur hjá VIRK er iðjuþjálfi, lærði í Danmörku og fór að eigin sögn að huga að starfsendurhæfingu og þjálfa sig á þeim vettvangi. Hún er einnig með meistaragráðu í mannauðsstjórnun og er viðurkenndur aðili í meðferð.
„Ég er búin að vinna hjá VIRK í sex ár. Byrjaði 2018 sem atvinnulífstengill. Það getur verið flókið starf, en skemmtilegt. Krefst lipurleika. Nú starfa ég hins vegar hjá VIRK sem sérfræðingur á mat og rýnisviði. Verkefnin eru margvísleg, svo sem skimun og afgreiðsla nýrra beiðna, kortlagning á vanda einstaklinga og fagleg aðkoma í einstaklingsmálum.
Sérfræðiteymið rýnir í framgang mála, hvað hindrar einstakling í þátttöku á vinnumarkaði, skoðar á faglegan máta vanda einstaklings í upphafi þjónustu og í ferlinu, og veitir ráðgjöfum faglegan stuðning. Í öllu starfi af þessu tagi þarf maður að hafa mikinn áhuga á fólki því til VIRK koma ólíkir einstaklingar með alls konar vanda,“ segir Ragnheiður.
Hver var þín fyrri reynsla á þessu sviði?
„Ég ákvað eftir námslok að fá mér starf sem gaf mér góða þekkingu og reyndi verulega á. Ég fékk töluverða reynslu þegar ég vann á geðsviði hjá Kleppi. Þar var skemmtilegt að vinna en líka stundum mjög erfitt. Ég var þrítug þegar ég hóf að starfa við þetta og hefði ekki viljað vera yngri. Auðvitað þarf fólk einhvers staðar að byrja en það þarf að hafa dágóða lífsreynslu í svona störfum. Það var erfitt að sitja á móti fólki sem átti átakanlega sögu að baki, þá fann ég stundum fyrir ákveðnum vanmætti. Kannski einmitt þess vegna fannst mér ég þurfa að víkka sjóndeildarhringinn. Fá fleiri sjónarhorn á þann veruleika sem blasir við þegar fólk dettur út af vinnumarkaði og þarf að fóta sig þar á ný. Hugmyndin að frekara námi var að fá breiðari sýn á veruleika þessa vettvangs.“
Ræða sérfræðingar við þá sem fá þjónustu hjá VIRK?
„Við á mat og rýnisviði VIRK hittum þjónustuþega ekki nema í sérstökum viðtölum eða mati í blábyrjun. Og einnig ef það kemur hökt í ferlið. Þá þarf ráðgjafi að fá stuðning, að einhver grípi inn í og hitti viðkomandi einstakling. Við hittum líka fólk í upphafi ef málum er vísað í sérfræðimat. Bæði þarf þá að meta hvar vilji fólks liggur og líka að skoða hver heilsubresturinn er og hvaða ráðum er best að beita við hindrunum.“
Kemur stundum fyrir að fólk er ekki tilbúið að fara í starfsendurhæfingu?
„Já, það kemur fyrir, til dæmis ef fólk er of lasið og á kannski frekar heima í heilbrigðiskerfinu. Þá mælum við með að fólk komi ekki inn í starfsendurhæfingu heldur byrji á því að leita sér aðstoðar vegna heilsubrestsins. Þannig myndast grunnur að starfsendurhæfingu og í framhaldinu sú hugmynd að leita fyrir sér með vinnu. Fólk þarf að fá rétta þjónustu og rétt úrræði og vinna í sínum vanda, það er skynsamlegra.“
Í raun erum við stuðningsaðilar við ráðgjafann.
Getur verið þrælflókið ferli
Þú sinnir afgreiðslu nýrra beiðna. Hvað eruð þið mörg sem gerið það?
„Ætli við séum ekki í kringum sextán en við vinnum í teymum, tvö og tvö saman. Ég er talsvert í því að meta hvort fólk sé komið svo langt að rétt sé að vísa því til atvinnulífstengils og líka að athuga ferlið ef framgangurinn fer að hökta. Jafnframt að skoða með ráðgjafa hvort fólk er farið að nálgast það að leita út á vinnumarkað. Sálfræðingar og sjúkraþjálfarar eru mikið að meta þann heilsubrest sem verið er að glíma við, sem og framgang. Við metum hvort viðkomandi sé að taka ábyrgð á sinni endurhæfingu og hvernig ferillinn mjakast áfram. Þetta getur verið þrælflókið ferli því oft eru málin margþætt. Ekki síst þegar saman blandast líkamlegur og andlegur vandi eða ef fólk ræður illa við aðstæður og verkefni sem við blasa.
Yfirleitt ræðum við sérfræðingarnir mest við ráðgjafana. En fyrir kemur að við höfum samband við viðkomandi þjónustuþega eða vísum honum í sérfræðimat. Oftast erum við þó að skoða upplýsingar sem við höfum aðgang að og setja þjónustuþegann í viðeigandi ferli samkvæmt þeim. Sé eitthvað óljóst þá hringjum við í viðkomandi einstakling og förum jafnframt yfir málin með ráðgjafa til að finna út hvað er að. Sérfræðingarnir skoða mál hver með sínum gleraugum til að fá gleggri sýn á vanda hvers og eins.“
Eruð þið sérfræðingarnir alltaf sammála?
„Það kemur eðlilega fyrir að við erum ekki sammála. Þá reynum við að mætast á miðri leið og jafnframt rökstyðja okkar sjónarmið. Ráðgjafinn skiptir alltaf mjög miklu máli því hann er með puttann á púlsinum. Í raun erum við stuðningsaðilar við ráðgjafann. Maður þarf að geta aðeins bakkað til þess að einstaklingurinn fái bestu mögulegu þjónustu. Við þjálfumst þannig í að finna lendingu í málum.“
Reynir mikið á tilfinningalegt þanþol í svona vinnu?
„Það getur gert það þegar að málunum koma aðilar úr ólíkum áttum með ólíka reynslu. Við þurfum að vera flink í að taka rökum og finna út hvenær rétt er að halda sínu sjónarmiði til hlés og hvenær þarf að standa fast við sitt. Þetta getur verið snúið. Þjónusta í heilbrigðiskerfinu gengur út á teymisvinnu og reynir á hæfileika í mannlegum samskiptum.
Við sérfræðingarnir þurfum líka að átta okkur á hvar okkar þekking þrýtur. Ef málið er til dæmis þannig vaxið að mín þekking á ekki endilega við þá þarf ég að geta dregið mig til baka svo að sá sem meiri þekkingu hefur geti nýtt hana fyrir viðkomandi þjónustuþega. Það gengur ekki að standa í veginum – maður má ekki gleyma því að manns eigin vinkill er ekki alltaf sá rétti. Mikilvægt er því að vera góður í að hlusta.“
Finni fólk starf við sitt hæfi þá slaknar oft á vandamálum.
Erfiðast þegar fólk grípur ekki boltann
Hvaða mál eru erfiðust viðfangs?
„Erfiðast er þegar fólk grípur ekki boltann – tekur ekki ábyrgð á sinni endurhæfingu. Fyrir slíku geta verið margar ástæður. Kannski hefur fólk ekki nægilega mikla von um að endurhæfingin sé gerleg. Eða þá að fólk hefur ekki trú á því að það geti nokkurn tíma komist út á vinnumarkað en veit samt ekki hvað annað það ætti að gera.
Það hangir margt á spýtunni í endurhæfingu almennt, svo sem framfærsla, að fá stuðning – en fyrst og fremst þarf fólk að vilja. Sé ekki svo getur spilað inn í fyrri reynsla, svo sem að fólk hafi endurtekið dottið út af vinnumarkaði. Stundum hefur fólk slæma reynslu af að vera í hópi, eins og gerist á vinnustöðum. Þá er að finna úrræði sem hjálpar til að breyta þessu viðhorfi svo viðkomandi fái trú á sjálfum sér í nýju umhverfi.“
Hvers vegna detta sumir oft út af vinnumarkaði?
„Það eru ýmsar ástæður fyrir því. Fólk getur lent í slæmu vinnuumhverfi en líka er til í dæminu að viðkomandi glími við einhvers konar færnivanda. Það geta verið margar ástæður fyrir því að fólk detti út af vinnumarkaði.“
Hvað ef fólk á erfitt með samskipti?
„Best er að vinna með samskiptavanda hjá sérfræðingum. Síðan að reyna að hjálpa viðkomandi aftur í vinnu. Það er misjafnt hvort fólk vill láta vita af vanda sínum eða ekki. Þetta er atriði sem þjónustuþegar semja um við atvinnulífstengilinn. Aðalmálið er að finna vinnu sem fólk tengir við og hefur áhuga á. Finni fólk starf við sitt hæfi þá slaknar oft á vandamálum. Á þann hátt getur vinna verið batahvetjandi.“
Vantar mun meira af hlutastörfum
Er vinnumarkaðurinn sveigjanlegur?
„Allur gangur er á því. Vinnumarkaðurinn þyrfti að mínu mati að opnast meira. Það vantar mun fleiri hlutastörf og líka meiri þekkingu og skilning á þessum atriðum. Gamlar hugmyndir eru of mikið ríkjandi – svo sem að fólk þurfi að vera hundrað prósent vinnufært. En á hinn bóginn taka ýmsir vinnustaðir oft mjög vel á móti fólki, eða það var að minnsta kosti mín reynsla þegar ég var atvinnulífstengill.“
Er endurhæfing erfið, almennt?
„Já, hún getur verið það. Það þarf stundum að breyta viðhorfi og venjum. Að meðaltali tekur starfsendurhæfing hjá VIRK um eitt ár. Það var margt í atvinnutengingunni sem mér fannst spennandi, ekki síst sú aðlögun sem felst í því þegar viðkomandi fer í nýtt starf. Þar geta margir þættir skipt máli og sumir vel faldir. Og einmitt földu þættirnir hafa kannski úrslitaáhrif á hvort viðkomandi endist í vinnu eða ekki. Líkamlegar hindranir geta verið augljósari en hinar andlegu. Oft getur verið erfitt að útskýra andlegan vanda.
Fólk getur verið hrætt við að missa vinnuna en veit ekki af hverju. Það getur verið bara eitt verkefni af mörgum sem vefst fyrir fólki en það er nóg til að skapa hindrun. Fólk hikar við að leita aðstoðar og enginn kemur auga á hvar vandinn liggur. Svo getur fólk verið í afneitun, er ekki vant að greina eigin huga á þennan hátt og skilur því ekki hvar það þarf hjálp. Loks er sjálfmyndin stundum að trufla, sumir eiga erfitt með að segja: „Ég get þetta ekki.“ Þá þarf að aðstoða fólk við að yfirstíga slík vandkvæði. Að ná tökum á starfi getur verið töluvert mál.“
Hefur margt breyst hjá VIRK á þeim tíma sem þú hefur unnið þar?
„Já, ýmislegt hefur breyst. Starfsendurhæfing er mjög ungt fag. Hluti af af mínu fagi sem iðjuþjálfi er af efla hæfni og getu fólks og síðan að skoða hvers störfin krefjast af viðkomandi. Starfsumhverfið er líka alltumlykjandi. Þessir þrír þættir þurfa að ganga upp til þess að fólki líði vel í vinnunni. En reynsla í starfsendurhæfingu er sífellt að aukast. Ráðgjafar og ýmsir aðrir starfsmenn VIRK hafa á undanförnum árum öðlast æ betri þekkingu á helstu atriðum starfsendurhæfingar.“
VIRK hefur lagt höfuðáherslu á að fólk geti tekið þátt og stundað vinnu – það er risastór hluti af lífi hvers manns.
Starf VIRK hefur skilað miklum árangri
Hvar þurfa ráðgjafarnir helst stuðning?
„Þegar framgangur er hægur, málin eru flókin eða fólk er ekki að taka ábyrgð á eigin endurhæfingu þá snúa ráðgjafarnir sér til sérfræðinganna sem leitast þá við að sjá málið í víðara samhengi. Vandkvæði þjónustuþega eru stundum slík að ráðgjafinn þarf stuðning.“
Finnst þér starf VIRK hafa skilað íslensku samfélagi miklu?
„Svo sannarlega hefur starf VIRK skilað miklum árangri en ekki síður er mikilvægt að VIRK hafi sett fókusinn á starfsendurhæfinguna. Það er dýrt andlega og fjárhagslega þegar fólk getur ekki unnið fyrir sér. VIRK hefur lagt höfuðáherslu á að fólk geti tekið þátt og stundað vinnu – það er risastór hluti af lífi hvers manns.“
Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason
Viðtal úr ársriti VIRK 2024.