Fara í efni

Maður stendur sína pligt

Til baka

Maður stendur sína pligt

Hólmfríður K. Agnarsdóttir

Aðdragandi þess að Hólmfríður K. Agnarsdóttir leitaði samstarfs við VIRK var að hún greindist með vefjagigt. Áður hafði hún orðið fyrir áföllum og veikindum.

„Ég var slæm af verkjum, í erfiðu starfi – var að vinna í stóru mötuneyti,“ segir Hólmfríður K. Agnarsdóttir. „Í mötuneytinu þurfti ég að bera þungar byrðar langar vegalengdir og einnig fann ég fyrir mikill streitu. Ég var á yngri árum afar sterk en síðustu ár hafði ég misst talsvert af þeim styrk. Ég var „jaxl“, ef svo má segja. Maður er alin upp við að maður stendur sína pligt.“

Hólmfríður er fædd 1959 í Þingeyjarsýslu og uppalin þar. „Það vatnar undir okkur þegar við göngum,“ segir hún hlæjandi og vísar í það orðspor sinna heimaslóða að þar sé fólk ekki óánægt með sjálft sig. „Ég átti heima í sveit og vann í Laugafiski í Reykjadal, það var vinna sem tók á kraftana, einkum þegar fiskurinn var afhausaður. Slíkt krafðist mikils handstyrks. Einnig var ég í síld um tíma og loks vann ég lengi á sjúkrahúsinu, á elliheimilinu þar.“

Til Reykjavíkur flutti Hólmfríður með son sinn á fermingaraldri fyrir hartnær tuttugu árum, rösklega þrítug. „Mig langaði til að breyta til, ég er svolítill flakkari í eðli mínu. Ég byrjaði að vinna á Grund í aðhlynningu, síðan vann ég við heimilishjálp vestur í bæ. Svo fór ég að keyra strætó, tók meirapróf og ók strætisvagni í eitt sumar og síðan í tvö ár. Ég hætti því starfi þegar ég skildi við eiginmann minn. Það passar enginn börn eftir tólf á kvöldin eða klukkan sex á morgnana. Þetta var árið 2001, þá átti ég þrjú börn, þau tvö yngri voru lítil. Eftir skilnaðinn fór ég að vinna hjá mötuneyti Toyota, þar vann ég í sjö ár. Í þrjú ár var ég svo að vinna á leikskóla. Örstutt vann ég á veitingastað og fór svo að vinna í mötuneyti hjá Póstmiðstöðinni. Þar var ég að vinna þegar ég greindist með vefjagigtina.

Yfirvann krabbamein

Ég hafði greinst með brjóstakrabbamein 2004 en yfirvann það, fór í aðgerð, geisla og lyfjagjöf og hóf störf á ný eftir tæpt ár. Slíkt krabbamein er í báðum ættum mínum. Meinið uppgötvaðist á byrjunarstigi. Ég ákvað strax að þetta skyldi ekki setja mig á hnén og var ekki hrædd. En það varð ég aftur á móti þegar ég greindist með krabbamein í móðurlífi árið 2007 – þá varð ég mjög hrædd. Ég fór í aðgerð þar sem móðurlífið og eggjastokkarnir voru fjarlægðir. Þetta var mikil reynsla. Veikindin voru mér erfið að ýmsu leyti, ekki síður fjárhagslega. En það bjargaði miklu hve uppkominn sonur minn reyndist mér frábærlega og studdi mig á öllum sviðum. Einnig hjálpaði að ég var að vinna á gríðarlega góðum vinnustað, í mötuneyti Toyota. Ég hef hvergi unnið þar sem eins vel er hugsað um starfsfólk.

Eftir að ég hætti hjá Toyota fór ég í skóla jafnframt vinnunni í leikskólanum. Lærði til matsveins í kvöldskóla. Það var „töff“ tímabil. Eftir útskrift vann ég skamman tíma á veitingastað, sem fyrr sagði, en komst að því að slíkt launaumhverfi er ekki fyrir mig.“

Hvernig byrjaði vefjagigtin?
„Í fótunum. Það var svo sárt að fara á fætur á morgnana. Ég fann svo til þegar ég fór fram úr að ég gat varla stigið í fæturna. Ég varð að rölta um svolitla stund og gat eiginlega í hvorugan fótinn stigið. Ég var einnig slæm í öxlunum og fann fyrir fyrir mikilli þreytu. Ég pantaði tíma hjá Gigtarfélaginu í framhaldi af orðum fyrrverandi mágkonu minnar, sem er hjúkrunarfræðingur. Hún taldi að ég væri með gigt, þekkti einkennin. Gigtarlæknirinn greindi mig með töluvert mikla vefjagigt og einnig slitgigt í öxlum. Þá þurfti ég að hugsa minn gang.

Ég ætlaði alls ekki að hætta að vinna en loks var ég orðin þannig til heilsunnar að ég stóð varla undir sjálfri mér og hafði allt á hornum mér við alla – á vinnustað sem á heimilinu. Læknirinn minn ráðlagði mér að taka veikindafrí. Fyrst átti ég minn veikindarétt en svo þraut hann. Ég ræddi við mitt stéttarfélag, Matvís. Þar var mér bent á VIRK. Ráðgjafinn þar aðstoðaði mig við að fá endurhæfingarlífeyri. Það gekk ótrúlega vel. Þetta var árið 2013. Ráðgjafinn fór með mér yfir hlutina og reyndist mér frábærlega. Við gerðum áætlun um uppbyggingu. Ráðgjafinn lagði til að ég færi í Heilsuborg, það var afskaplega gott ráð. Einnig fékk ég sálfræðitíma hjá Kvíðameðferðarstöðinni. Sálfræðingurinn þar greindi mig með áfallastreituröskun.

Auk krabbameinsins sem ég hef greint frá kom um svipað leyti upp afar erfitt mál í fjölskyldunni sem reyndi mikið á. Ég tók þátt í því máli og það hafði enn meiri áhrif á heilsu mína en sjálft krabbameinið. Þetta mál reyndist mér erfitt að vinna úr og olli mér hugarstríði. Ég get ekki upplýst hvers eðlis þetta mál var, það varðaði ekki mig nema óbeint sem aðstandanda. En ég tók það verulega inn á mig. Ég átti erfitt með svefn og var reið. Þetta tvennt hefur sennilega átt sinn þátt í að vefjagigtin náði sér á strik.

Sálfræðingurinn hjá Kvíðameðferðarstöðinni hjálpaði mér að vinna úr hinum erfiðu tilfinningum og streitunni sem þjáði mig. Hann kenndi mér ráð til þess að vinna gegn streitunni og átta mig á þegar hún minnti á sig. Ég finn að streitan liggur oft í leyni en nú hef ég lært hvernig á að mæta henni og kveða hana niður. Maður verður bara að vera meðvitaður og nota ráðin. Ef maður er orðinn reiður og stressaður þá er rétt að koma sér á þann stað þar sem hægt er að fara yfir hvað sé að, hvers vegna þetta sé svona og hvað hægt sé að gera í málinu. Þetta byggist á hugrænni atferlismeðferð að hluta og einnig hélt ég dagbók yfir líðan mína. Dagbókin hjálpaði mér að greina einkennin og bregðast við þeim.

Aðstoð VIRK ómetanleg

Auk þess að fara í Heilsuborg og í meðferð hjá sálfræðingnum þá fór ég á tvö námskeið að tilhlutan VIRK. Ég fór til Profectus, þar sem ég lærði markþjálfun. Þetta var mjög skemmtilegt og gagnlegt. Ég lærði að setja mér áætlanir og standa við þær. Bæði var um að ræða hóptíma og einstaklingstíma. Ég hlakkaði alltaf til að fara fund. Hitt námskeiðið sem ég sótti varðaði markvissa atvinnuleit. Þá var ég líka búin að ákveða að fara ekki aftur að vinna í mötuneytinu. Ég gerði mér ljóst að sú vinna var of erfið fyrir mig. Ég hefði fljótlega lent í sama farinu aftur í svo erfiðri vinnu. Álagið hefði orðið mér um megn.

Ég fékk aðstoð við að gera ferilskrá, hún er satt að segja flott.  Svo fór ég að sækja um vinnu, ég vildi fá eitthvað sem snerti mat eða akstur. Ég sótti um draumastarfið, í ameríska sendiráðinu en þegar til kom reyndist það starf ekki laust. Þá sótti ég um mörg störf, meðal annars um vinnu í leikskóla sem var að opna starfsemi og fékk hana. Ég var bara viku í atvinnuleit. Ég hóf störf á leikskólanum 1. mars síðastliðinn. Þetta er mjög stór leikskóli og ég vissi vel að hverju ég væri að ganga.

Ég hef átta tíma aðstoð og helsta áskorunin er að gæta þess að maturinn sé næringarríkur og að kostnaðurinn innan marka. Ég vinn allan mat frá grunni. Baka brauðið og elda matinn. Ég þykki matinn til dæmis aldrei með hveiti heldur með grænmeti. Það er hollara og ódýrara. Draumurinn er að gera matreiðslubók með hollum góðum og ódýrum mat fyrir venjuleg heimili. Ég er að vinna í þessu hægt og bítandi.“

Hvernig er svo staðan núna hjá þér?
„Framtíðin lítur vel út, til að sjá. Ég er að vinna og komin með kærasta. Ég kynntist honum þegar ég fór norður til að aðstoða föður minn sem var veikur. Pabbi dó í fyrrahaust úr krabbameini. Hann dvaldi hjá mér í fyrrasumar, frá því um hvítasunnu og fram til ágústloka. Hann dó á sjúkrahúsinu á Húsavík í september, ég var fyrir norðan þá. Við fengum hér dýrmætan tíma saman feðginin, þó erfitt væri að horfa upp á hann veikan. Mamma er sjúklingur og býr fyrir norðan. Ég vildi gjarnan geta verið nálægari henni. En við reynum ég og bræður mínir að skiptast á að fara til hennar. Betur getum við ekki gert. Svona er bara gangur lífsins.

Börnin mín þrjú eru dugleg. Þau eru „jaxlar“ eins og þau eiga kyn til, leyfi ég mér að segja. Auðvitað reyndu veikindi mín á þau, en þau stóðu þétt við hlið mér. Erfiðleikarnir hafa sameinað okkur fremur en sundrað. Við höfum alltaf verið samrýnd, ég og krakkarnir. Einu sinni í viku komum við öll saman og eigum fjölskyldustund. Borðum, spilum eða horfum saman á mynd.“

Hver er svo reynsla þín af samstarfinu við VIRK?
„Það hefur verið einu orðið sagt frábært. Ef ég myndi aftur lenda í svona erfiðum aðstæðum ætti ég  þá ósk heitasta að geta unnið með VIRK á ný. Að starfsemi VIRK skuli vera til staðar finnst mér magnað. Ég hef borgað í lífeyrissjóð frá 15 ára aldri og sé ekki eftir þeim peningum sem fara í starfsemi VIRK, ég efast ekki um nytsemi þessa starfs.

Ég tel að ég hefði sjálf ekki orðið öryrki til langframa – en ég hefði verið mun lengur að jafna mig ef VIRK hefði ekki notið við. Fólk verður lasið og verður þá að vinna í að láta sér batna. Þar er aðstoð VIRK ómetanleg. Mikilvægt var fyrir mig að ráðgjafinn talaði alltaf við mig á jafnréttisgrundvelli. Hefði hann talað niður til mín hefði ég farið út á stundinni. Slíku hefur maður lent í. Ég réð ferðinni og það var þýðingarmikið. Ég hefði á endanum fengið mér vinnu hvað sem tautaði og raulaði. Ég er alin upp við að maður stendur sína pligt.“

Viðtal: Guðrún Guðlaugsdóttir

Lestu fleiri reynslusögur einstaklinga hér.


Hafa samband