6.1% beiðna til VIRK uppfylla kröfur WHO um kulnun
6.1% beiðna til VIRK uppfylla kröfur WHO um kulnun
Haustið 2020 var ýtt út vör rannsóknar- og þróunarverkefni innan VIRK tengdu kulnun. Markmið verkefnisins er að byggja upp dýpri þekkingu á fyrirbærinu kulnun í starfi og er stuðst við nýlega skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðisstofnunar (WHO) en skilgreining WHO á kulnun er eftirfarandi:
Kulnun er heilkenni sem er afleiðing langvarandi streitu á vinnustað sem ekki hefur tekist á árangursríkan hátt að ná stjórn á.
Einkenni kulnunar eru á þremur víddum:
1) Orkuleysi eða örmögnun
2) Andlega fjarverandi í vinnu, neikvæð viðhorf eða tortryggni tengd vinnustað
3) Minni afköst í vinnu. Kulnun vísar til fyrirbæris í tengslum við vinnuumhverfið og ætti ekki að nota til að lýsa reynslu á öðrum sviðum lífsins.
Þessi nýja skilgreining WHO á kulnun og skarpari viðmið kallaði á breytta verkferla og aðlögun á starfsemi VIRK þegar kemur að þessum vanda.
Almennt séð er hugtakið kulnun gjarnan notað í víðri merkingu og bví orðið enn mikilvægara en áður að skoða vel hvort aðstæður og álag í vinnu hafi áhrif eða hvort vandinn sé betur skýrður á annan hátt.
Þannig er verið að móta farveg þessara mála í starfsendurhæfingu, skoða hvernig hægt er að tryggja að einstaklingar fái viðeigandi þjónustu á réttum tíma og almennt að dýpka þekkingu á málefninu. Þróunarverkefni VIRK um kulnun er liður í þeirri vinnu.
Þróunarverkefni VIRK um kulnun - niðurstöður 2022
Gerð var ítarleg grein fyrir þessu þróunarverkefni í síðasta ársriti VIRK. Verkefnið hefur haldið áfram hjá VIRK og nú eru komnar tölur fyrir tvö heil ár. Tölurnar sem birtar voru í síðasta ársriti voru fyrir tímabilið nóvember 2020 til nóvember 2021 en hér fyrir neðan sjáum við tölur annars vegar fyrir allt árið 2021 og hins vegar fyrir árið 2022. Sjá má að tölurnar hækka milli ára.
Þegar einstaklingar sækja um hjá VIRK þá svara þeir ítarlegum spurningalista þar sem m.a. er spurt um hvort þeir telji sig vera með einkenni kulnunar. Á árinu 2022 töldu 58% umsækjenda sig glíma við einkenni kulnunar. Þessi svörun endurspeglar hugsanlega þá miklu umræðu sem hefur átt sér stað í samfélaginu um kulnun því einkenni kulnunar svipa oft til einkenna annarra algengra heilsufarsvandamála.
Þegar hins vegar er farið yfir þær upplýsingar sem koma fram í tilvísun frá læknum til VIRK þá er kulnun nefnd sem ein ástæða tilvísunar í 14,1% beiðna á árinu 2022 eins sést hér að neðan.
Málin eru því næst skoðuð nánar af sérfræðingum, þ.e. sálfræðingunum Berglindi Stefánsdóttur og Guðrúnu Rakel Eiríksdóttur verkefnastjórum þróunarverkefnis VIRK um kulnun. Þá er meðal annars athugað hvort skilgreining WHO um kulnun í starfi eigi við. Næsta mynd sýnir því fjölda mála hjá VIRK sem uppfylla viðmið WHO um kulnun í starfi.
Niðurstöður úr þróunarverkefni VIRK um kulnun á árinu 2022 eru því þær helstar að 58% umsækjenda töldu sig glíma við einkenni kulnunar, kulnun var nefnd sem ein ástæða tilvísunar í 14,1% beiðna lækna til VIRK en við nánari athugun þá uppfylltu 6,1% beiðnanna skilyrði WHO um kulnun.
Rannsóknar- og þróunarverkefni VIRK um kulnun er enn í fullum gangi og til stendur að gera frekari rannsóknir á þessu sviði í samstarfi við Háskólann í Reykjavík. Ákveðið hefur verið að koma á Þekkingarsetri VIRK um kulnun.
Fyrirvari: Hér er eingöngu um að ræða skoðun á beiðnum sem berast til VIRK og því varhugavert að draga af þessu ályktanir um fjölda einstaklinga sem glíma við afleiðingar kulnunar í samfélaginu. Það má t.d. gera ráð fyrir því að talsverður fjöldi einstaklinga sem glímir við afleiðingar kulnunar þurfi ekki að leita til VIRK heldur nái fyrri heilsu með leiðbeiningum og aðstoð frá heilbrigðiskerfinu.