Fara í efni

Einstaklingsmiðaður stuðningur við starfsleit hjá atvinnulífstenglum VIRK - IPS Individual Placement and Support

Til baka

Einstaklingsmiðaður stuðningur við starfsleit hjá atvinnulífstenglum VIRK - IPS Individual Placement and Support

Jónína Waagfjörð sviðsstjóri hjá VIRK
Elva Dögg Baldvinsdóttir sérfræðingur hjá VIRK 


IPS (Individual Placement and Support) eða einstaklingsmiðaður stuðningur við starfsleit er hugmyndafræði sem upphaflega var þróuð í Bandaríkjunum um 1970 fyrir einstaklinga með alvarlegan geðrænan vanda1.

Rannsóknir hafa sýnt að IPS aðferðafræðin getur einnig gagnast öðrum hópum og hentar vel fyrir t.d. einstaklinga með vægari andlegan vanda og fyrir ungt fólk sem er í hættu á að fara á örorku2.

Í samanburði við hefðbundna skipulagða endurhæfingu þá hafa rannsóknir einnig sýnt að IPS aðferðafræðin skilar einstaklingum í ríkari mæli inn á hinn almenna vinnumarkað3. Það sem einkennir IPS þjónustu eru sérstakir atvinnulífstenglar sem reyna að finna störf fyrir þá einstaklinga sem lýst hafa áhuga á að fara á vinnumarkaðinn – það sem kallað er „skjót atvinnuleit“. Þeir síðan styðja við einstaklinginn þegar í vinnu er komið og styðja oft einnig við vinnuveitendurna. Grunnhugmyndin er sú að hægt sé að finna störf fyrir alla þá sem vilja vinna óháð hindrunum, svo sem af geðrænum eða félagslegum toga. Með tímanum þá hefur þróast ákveðin IPS aðferðafræði sem sett er fram í 8 leiðandi meginreglum sem einkenna IPS aðferðafræðina og sjá má hér að neðnan. Samhliða þessu var sérstakur tryggðarskali (fidelity scale) þróaður sem notaður er til að meta starfsemi teymanna.

Átta grunnatriði IPS

  1. Störf á almennum vinnumarkaði
  2. Einstaklingsmiðuð leit að starfi og óskir einstaklings í forgrunni
  3. Skjót atvinnuleit um leið og einstaklingur vill fara að vinna
  4. Sjálfstætt val að taka þátt og enginn er útilokaður
  5. Samhæfð þjónusta á milli atvinnulífstengla og sérfræðinga í starfsendurhæfingu og heilbrigðisgeirans
  6. Ráðgjöf um bætur
  7. Einstaklingsmiðaður stuðningur inn í starf
  8. Markviss leit að störfum með heimsóknum í fyrirtæki og stofnanir

Á síðustu 30 árum hefur IPS hugmyndafræðin komið fram sem gagnreynd nálgun byggð á 28 slembiröðuðum samanburðarrannsóknum4. Þær sýna að þetta er skilvirkasta úrræðið þegar kemur að því að koma einstaklingum með alvarlegan andlegan vanda í samkeppnishæf störf á hinum almenna vinnumarkaði – sem er tvisvar til þrisvar sinnum betri árangur en í öðrum atvinnutengdum úrræðum5.

Í grein sem Drake og Wallach4 skrifuðu færa þeir fram sannfærandi rök fyrir því að skoða skuli atvinnu sem mikilvæga heilbrigðisíhlutun. Að hjálpa fólki að finna vinnu ætti því að vera stöðluð meðferð innan geðheilbrigðiskerfisins. Það að vera í vinnu bætir meðal annars andlega heilsu og vellíðan fólks sem glímir við alvarlegar geðraskanir auk þess að bæta sjálfstraust, einkennastjórnun, lífsgæði og félagsleg tengsl.

Ráðningar sem tengjast atvinnu með stuðningi eru auk þess hagkvæmar (e. costeffective) og geta sparað heilbrigðiskerfinu kostnað (e. cost-saving) vegna þess að þær draga úr notkun geðdeilda og heildarútgjalda til geðheilbrigðismála6.

Einstaklingsmiðaður stuðningur við starfsleit - Individual placement and support (IPS) – er alltaf að festa sig betur og betur í sessi hér á Íslandi sem og annars staðar. Til marks um þetta þá undirrituðu VIRK, Samtök atvinnulífsins, Vinnumálastofnun og Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra, viljayfirlýsingu í byrjun maí 2023 um að stórauka einstaklingsmiðaðan stuðning við ungt fólk í viðkvæmri stöðu.

VIRK var fyrst stofnana og fyrirtækja á Íslandi til þess að taka upp og starfa eftir hugmyndafræði IPS. VIRK hefur unnið eftir hugmyndafræði IPS allt frá haustinu 2012 þegar samstarf hófst á milli VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs og geðendurhæfingardeildar Landspítala háskólasjúkrahúss (LSH) á Laugarási.

Vinna á eftir hugmyndafræði IPS og markmiðið er að fyrirbyggja ótímabært brotthvarf ungs fólks með geðraskanir af vinnumarkaðinum. Einnig á að leggja áherslu á að auka samfélagslega virkni ungmenna sem tilheyra NEET-hópi sem eru ungt fólk sem er ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun.

Við undirritun þessarar viljayfirlýsingar þá staðfesti Vinnumálastofnun að stofnunin ætlar að ráða tíu atvinnulífstengla sem munu vinna við að styðja þennan hóp við starfsleit en stofnunin hefur ekki verið með slíka tengla til þessa. Samtök atvinnulífsins munu svo liðsinna við að tryggja framboð af störfum fyrir ungt fólk og efla fræðslu á vinnustöðum um mikilvægi þess að greiða fyrir ráðningum einstaklinga sem tilheyra viðkvæmum hópum. VIRK mun fjölga atvinnulífstenglum hjá sér enn frekar og opna á þjónustu gagnvart fleiri hópum en áður sem mun auka tækifæri einstaklinga í þjónustu hjá VIRK við að komast inn á vinnumarkaðinn.

VIRK var fyrst stofnana og fyrirtækja á Íslandi til þess að taka upp og starfa eftir hugmyndafræði IPS. VIRK hefur unnið eftir hugmyndafræði IPS allt frá haustinu 2012 þegar samstarf hófst á milli VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs og geðendurhæfingardeildar Landspítala háskólasjúkrahúss (LSH) á Laugarási.

Fyrsti atvinnulífstengill verkefnisins var ráðinn í hlutastarf til VIRK haustið 2013 í ákveðinn reynslutíma og síðan þá hefur samstarf verið á milli þessara tveggja stofnana. Í dag starfa 12 atvinnulífstenglar hjá VIRK sem allir eru menntaðir í IPS hugmyndafræðinni bæði í gegnum sérstök fjarnámskeið auk þess sem þeir sækja ráðstefnur erlendis. Hluti þeirra starfar með einstaklingum sem vísað er til VIRK frá geðendurhæfingardeild LSH Laugarási en einnig með einstaklingum frá öðrum stofnunum eins og geðheilsuteymum heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Flestir þessara einstaklinga eru með alvarlega geðræna sjúkdóma. VIRK úthlutar þeim sérstökum atvinnulífstengli sem vinnur eftir hugmyndafræði IPS en klínísk meðferð og eftirfylgd með einstaklingunum er í höndum stofnananna. Samstarfið hefur gengið vel og öll sú þekking sem byggst hefur upp innan VIRK og sá lærdómur sem við höfum dregið hefur verið mjög mikilvægur fyrir framtíðarþróun IPS hjá VIRK og á Íslandi í heild sinni.

VIRK hefur verið drifkrafturinn í að kynna IPS hugmyndafræðina/íhlutunina bæði í gegnum vinnustofur og einnig með fyrirlestrum fyrir starfsendurhæfingarstöðvar á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni sem og fyrir aðrar stofnanir eins og félagsþjónustu Reykjavíkur og Fangelsismálastofnun, svo eitthvað sé nefnt. VIRK tók einnig þátt í að þýða tryggðarskalann yfir á íslensku og hefur tvisvar sinnum gert úttekt á samstarfsverkefni VIRK og LSH.

Mikilvægi IPS í almennri starfsendurhæfingu

Helsti munurinn á IPS og almennri starfsendurhæfingu þegar horft er á tímabærni til vinnu er sá að í starfsendurhæfingu fara einstaklingar oft fyrst í gegnum endurhæfinguna og stefna svo í starf þegar líður að lokum hennar. Þessu er öfugt farið í IPS hugmyndafræðinni þar sem vinnan er talin mikilvægur liður í öllu endurhæfingarferlinu. Þannig þarf einstaklingur ekki að hafa lokið endurhæfingu áður en hann fer að vinna heldur er þetta unnið samhliða hvoru öðru.

Til viðbótar við samstarfið við aðrar stofnanir þá hefur VIRK einnig verið að þróa sína eigin IPS þjónustu innan starfsendurhæfingar. Öllum einstaklingum sem koma í þjónustu VIRK og þurfa aðstoð við atvinnuleit stendur til boða atvinnulífstengill sem veitir ávallt einstaklingsmiðaða þjónustu. 

Til viðbótar við samstarfið við aðrar stofnanir þá hefur VIRK einnig verið að þróa sína eigin IPS þjónustu innan starfsendurhæfingar. Öllum einstaklingum sem koma í þjónustu VIRK og þurfa aðstoð við atvinnuleit stendur til boða atvinnulífstengill sem veitir ávallt einstaklingsmiðaða þjónustu. Ef í ljós kemur að þörf sé á sértækari stuðningi er hægt að vísa máli í IPS atvinnutengingu en meginskilyrðið er að einstaklingur staðfesti að hann sé tilbúinn að reyna endurkomu til vinnu.

Einn hópur hjá VIRK hefur þó sérstaklega verið tengdur við IPS-atvinnulífstengla en það eru einstaklingar sem tilheyra svokölluðum UNG19 hópi7. Í þessum hópi eru ungmenni á aldrinum 18-29 ára sem eru með grunnskólapróf eða minni menntun (hafa ekki lokið stúdentsprófi eða sambærilegu); eru með litla vinnusögu og/eða langan tíma frá vinnumarkaði (a.m.k. 6 mánuði); og hafa lifað við íþyngjandi félagslegar aðstæður, t.d. erfið uppvaxtarsaga, lítill félagslegur stuðningur, óörugg búseta, fjárhagsvandi og þess háttar. Þegar farið var af stað með þennan hóp var meðal annars horft til SEED (Supported employment & preventing early disability) rannsóknarinnar sem gerð var í Noregi á sambærilegum hópi8. Þar sýndu niðurstöður fram á góðan árangur IPS þar sem merkjanlegur munur var á milli samanburðarhópa. IPS atvinnutenging var öflugra úrræði til þess að auka atvinnuþátttöku hópsins. Þannig komust fleiri einstaklingar í samkeppnishæf störf á almennum vinnumarkaði samanborið við hópinn sem fékk hefðbundna starfsendurhæfingu. Við hjá VIRK höfum einnig séð frábærar tölur í UNG19 hópnum en markmið verkefnisins var að hækka virknihlutfall (auka atvinnuþátttöku) ungs fólks á aldrinum 18–29 ára7.

IPS leggur megináherslu á að koma atvinnu- eða námstengingu af stað snemma í starfsendurhæfingunni. Vinnan er í raun úrræði í starfsendurhæfingunni þar sem verið er að þjálfa færni í raunaðstæðum, úti á vinnumarkaðnum eða í námi. Þannig er ekki endilega verið að bíða eftir því að búið sé að endurhæfa einstaklinginn þar til hann er tilbúinn til að fara að vinna. Hér er áhugahvöt til vinnu og náms lykilþáttur. Lögð er áhersla á að mæta einstaklingnum þar sem hann er staddur og hvetja hann áfram með því að einblína á styrkleika.

Samhliða þessu tekur einstaklingurinn þátt í starfsendurhæfingu með aðstoð ráðgjafa VIRK sem vinnur að því að lágmarka áhrif hindrana til vinnu/námsþátttöku með aðstoð þverfaglegs klínísks teymis innan VIRK. Þetta verklag hefur skilað mjög góðum árangri og hafa margir ungir og áhugasamir einstaklingar komist inn á vinnumarkaðinn í gegnum þetta verkefni. Á myndum 2 og 3 má sjá tölfræðilegar upplýsingar um árangur þessa starfs bæði hjá einstaklingum frá LSH Laugarási og einnig UNG19 hópnum.

Upplýsingar um einstaklinga frá LSH Laugarási sem voru með IPS-atvinnulífstengil frá VIRK og útskrifuðust úr þjónustu á árunum 2020–2023

  • Meðallengd í þjónustu atvinnulífstengils var 9 mánuðir
  • 57 einstaklingar voru útskrifaðir frá atvinnulífstengli á árunum 2020–2023
    43 útskrifaðir í vinnu, nám eða atvinnuleit – 75%
    36 útskrifuðust í vinnu og/eða nám – 63%
    7 útskrifuðust í virka atvinnuleit – 12%
    14 útskrifuðust í enga virkni – 25% 10 þeirra höfðu verið í einhverju tímabundnu starfi á meðan á þjónustu hjá atvinnulífstengli stóð.

Upplýsingar um einstaklinga sem voru í starfsendurhæfingu hjá VIRK en var vísað til IPS-atvinnulífstengils og luku þjónustu hjá VIRK á árunum 2021–2023

  • Meðallengd í þjónustu hjá VIRK var 17 mánuðir
  • 446 einstaklingar voru útskrifaðir frá VIRK á árunum 2021–2023
    376 útskrifaðir í vinnu, nám eða atvinnuleit – 84%
    323 útskrifuðust í vinnu og/eða nám – 72%
    53 útskrifuðust í virka atvinnuleit – 12%
    70 útskrifuðust í enga virkni – 16%

Samstarf á Íslandi

Það er mikið fagnaðarefni að IPS hugmyndafræðin hefur náð að dreifa úr sér hér á landi undanfarin ár. Það er til vitnis að um sé að ræða aðferð sem skilar árangri. Stofnað hefur verið til samstarfs milli þeirra sem starfa eftir IPS hugmyndafræðinni á Íslandi og í dag eru það fjórar stofnanir sem standa að þessu samstarfi. Það eru VIRK, Vinnumálastofnun, Landspítalinn og Virknihús hjá Reykjavíkurborg.

Samstarfið stuðlar meðal annars að faglegri uppbyggingu IPS á Íslandi með tilliti til gæðaúttekta, tölulegra samantekta og rannsókna. Einnig er verið að vinna að sameiginlegri umsókn Íslands inn í samtökin ,,International IPS learning community“ sem væri spennandi skref í átt að áframhaldandi faglegri þróun IPS starfs hér á landi. Hjá samtökunum má sækja handleiðslu, fræðslu og stuðning við innleiðingu nýrra IPS verkefna í framtíðinni.

IPS þekkingarsetur

Undanfarin ár hefur IPS þekkingarsetur verið í þróun hjá VIRK með það að megin markmiði að geta betur stutt við starfsendurhæfingarstöðvar og aðrar stofnanir sem vilja vinna eftir IPS hugmyndafræðinni. Hjá þekkingarsetrinu stendur meðal annars til að bjóða upp á fræðslu og stuðning auk handleiðslu fyrir atvinnulífstengla í nýjum IPS verkefnum.

Í þessu sambandi hefur VIRK nú þegar greitt fyrir þátttöku starfsfólks starfsendurhæfingarstöðva hérlendis á fjarnámskeiði um IPS hugmyndafræðina. Með framtakinu vonast VIRK eftir því að innan skamms verði IPS atvinnutenging í boði fyrir einstaklinga vítt og breitt um landið og þannig sé hægt að taka mikilvæg skref í að efla starfsendurhæfingu á Íslandi enn frekar.

Grein úr ársriti VIRK 2024.

Heimildir

  1. Modini M, Tan L, Brinchmann B, et al. Supported employment for people with severe mental illness: systematic review and meta-analysis of the international evidence. Br J Psychiatry 2016; 209: 14–22.
  2. Bond GR, Drake RE, Pogue JA. Expanding Individual Placement and Support to Populations With Conditions and Disorders Other Than Serious Mental Illness. Psychiatric services. 2019;70(6): 488-498.
  3. Burns T. IPS-LITE. Árangursrík leið inn á vinnumarkaðinn fyrir einstaklinga með geðræn vandmál. Ársrit VIRK. 2017; 48-51.
  4. Drake RE and Wallach MA (2020) Employment is a critical mental health intervention. Epidemiology and Psychiatric Sciences 29, e178, 1–3
  5. Frederick DE and VanderWeele TJ (2019) Supported employment: meta-analysis and review of randomized controlled trials of individual placement and support. PLoS ONE. 2019;14;e0212208
  6. Knapp M, Patel A, Curran C, et al. Supported employment: cost-effectiveness across six European sites. World Psychiatry 2013;12, 60–68
  7. Gunnhildur Kristjánsdóttir, Sigurlaug Lilja Jónasdóttir og Svandís Nína Jónsdóttir. Ungt fólk í starfsendurhæfingu. Ársrit VIRK. 2020;34-39.
  8. Sveinsdottir V, Lie SA, Bond GR, et al. Individual placement and support for young adults at risk of early work disability (the SEED trial). A randomized controlled trial. Scand J Work Environ Health. 2020;46(1): 50-59.

Fréttir

30.05.2024
28.05.2024

Hafa samband